Hvar á að draga mörkin?

Dómarinn er hluti af leikvanginum. Þessi röksemd er notuð fyrir því að ekki sé hægt að elta ólar við mistök í dómgæslu, samanber markið góða sem Maradona skoraði hér um árið með "hönd Guðs"

Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í þessu tilliti því að dómaramistök geta auðvitað orðið svo alvarleg og dýrkeypt að ekki verði við það unað. 

Nútíma myndatökutækni gerir það mögulegt á mikilvægum leikjum að hafa sérstaka menn í því utan vallar að skoða vafaatriði nánast um leið og þau gerast og láta dómarann strax vita af því, til dæmis með milligöngu línuvarða. 

Það hefði verið hægt að gera þegar atvikið gerðist í leik Íra og Frakka og afgreiða það áður en ákveðið var að byrja leikinn aftur á miðju.

Tilvist línuvarða í knattspyrnuleikjum er viðurkenning á því að ekki verður við það unað að dómarinn geti einn og hjálparlaust séð alla hluti og dæmt rétt.

Dómarinn getur sniðgengið álit línuvarða ef hann vill en hann notfærir sér þá þó langoftast.

Á sama hátt ætti að vera hægt að koma því svo fyrir að dómarinn geti fengið vitneskju um atriði, sem sjást á myndavélum. Þeim skilaboðum á að vera hægt að koma til línuvarða sem geta síðan borið þau til dómarans.

Eftir sem áður hefði dómarinn að sjálfsögðu úrslitavald um það hvort hann breytir dómi sínum eða fer eftir áliti aðstoðarmanna sinna.  


mbl.is Frakkar taka ekki í mál að spila aftur við Íra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Myndavélarhugmyndin hefur líka galla. Þegar menn hafa talað fyrir innleiðingu tækni til að úrskurða um vafaatriði í knattspyrnuleikjum hefur athyglinn fyrst og fremst beinst að möguleikanum á skynjurum, t.d. í boltanum eða á línunni til að úrskurða um hvort knöttur hefur farið innfyrir línuna eða útaf vellinum. Þar væri um að ræða rafeindabúnað sem auðvelt ætti að geta verið að ná sátt um (að því gefnu að hann verði ekki alltof dýr).

En myndavélin er annars eðlis. Henni er stýrt af manni - og það þarf mannsauga til að rýna á skjáinn og taka ákvörðun með dómgreind sinni um að grípa inní.

Það þýðir að verið væri að gera manninn á kvikmyndatökuvélinni að hluta dómaragengisins. Það er ekki lítið skref. Því eins og málum er háttað núna, eru það oftast nær heimamenn sem taka upp knattspyrnuleiki. Þannig eru það starfsmenn íslensku sjónvarpsstöðvanna sem mynda leiki á Laugardalsvellinum þegar Ísland spilar landsleiki. Væri þessum mönnum falinn þáttur í dómgæslunni - er hætt við að gestunum yrði ekki skemmt.

Menn skulu því gera sér vel grein fyrir því hvaða risaverkefni væri um að ræða að ætla FIFA eða UEFA að halda úti hlutlausum kvikmyndatökuteymum, fólki í myndstjórn og hvaðeina. Málið er nefnilega aðeins flóknara en svo að láta eftirlitsdómarann fá aðgang að sjónvarpstæki...

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 00:47

2 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Það að myndavél sé sett upp....útilokar mannlegaþáttinn.

Andrés Kristjánsson, 21.11.2009 kl. 01:01

3 identicon

Þegar ég spila fótbolta er oftast enginn dómari. Svona hefur þetta alltaf verið, fyrir okkur sem spilum venjulegan alþýðubolta og oftast gengur það með ágætum. Leikmenn þurfa að deila þeirri ábyrgð sem annars er lögð á dómarann og verða fyrir vikið ábyrgðarfyllri í leik sínum. Ef reglur eru brotnar sjá það allir sem eru á vellinum og oftast viðurkennir sá brotlegi brot sitt umsvifalaust. Ef ekki næst samkomulag heldur leikurinn áfram.

Ef þessi háttur hefði verið hafður á í leik Írlands og Frakklands hefði þetta mark aldrei verið samþykkt og leikurinn hafinn að nýju með markspyrnu.

Jón (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 01:55

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í venjulegum leik alþýðumanna skipta mörkin ekki svo miklu máli heldur leikurinn sjálfur.

Þetta er allt öðruvísi í leikjum á borð við leik Frakka og Íra.

Ég held að menn geri of mikið úr vandkvæðunum á því að nota myndavélatæknina.

Aðeins þarf einn fulltrúa frá FIFA eða UEFA til að fylgjast með myndatöku og auðvitað það ekki að vera skylt fyrir dómarann að taka mark á henni.

En það yrði framfaraskref ef menn gæfu dómaranum möguleika á að fá bestu upplýsingar samstundis.

Ómar Ragnarsson, 21.11.2009 kl. 02:02

5 identicon

Það væri hægt að taka upp svipað kerfi eins og er notað í amerískum fótbolta, þar sem hægt er að krefjast þess að dómur sé endurskoðaður. Það veldur ekki mjög miklum töfum í leiknum því það er takmarkað hversu oft er hægt að krefjast þess. Ég tel að það væri hægt að endurskoða vítaspyrnudóma og mörk (umdeild og/eða öll) án tafar.

Hjalti H. Sigmarsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 03:11

6 identicon

Sammála.

Enn og aftur fáum við kristaltært dæmi um að það væri vissara að nota myndavélar í leikjum á stórmótum. Ég segi stórmótum vegna þess að, a) það eru 20-30 myndavélar á staðnum og b) miklu meira er í húfi en í einhverjum ómerkilegum deildum hér og hvar um heiminn. Rökin um að sama dómgæsla eigi að vera allstaðar í heiminum eru því bara rugl.

"Mistök dómarans eru eðlilegur hluti af leiknum", segja sumir. Nei, segi ég. Þau hafa verið óhjákvæmilegur hluti af leiknum hingað til, vegna þess að ekki hefur verið tekið upp fullkomnara form. Engan veginn eðlilegur hluti af leik, heldur leiðinda fylgifiskur.

"Atvik sem þessi eru á meðal þess sem gera fótboltann skemmtilegan", segja aðrir. Nei og aftur nei. Hverjum finnst þetta ömurlega atvik í París skemmtilegt? Ekki mér. Verður þvert á móti til þess að ég hef lítinn áhuga á að sjá franska landsliðið spila aftur í bráð. Ég hélt með Frökkum í þessum leik, en hugur minn hringsnerist við þetta. Írar eru á móti, Frakkar eru í skömm, hver hefur gaman að þessu svona? Vonandi mjög fáir.

Þeir sem halda því fram að dómaramistök glæði fótboltann lífi hljóta þá að vilja sem flest dómaramistök. Eða hvað?

Allt tal um að það sé eitthvað vesen að nota myndavélar er bara bull. Í þessu tilfelli var þetta komið á skjám á 10 sekúndum, á sama tíma og Frakkar voru enn að fagna. Ekkert lengri tími en þegar dæmd er rangstaða. Eigum við kannski að loka fyrir þann möguleika að línuverðir geti kallað á dómara þegar mikið liggur við, af því að það tekur svo mikinn tíma...? Nei auðvitað ekki.

Gerum fótboltann skemmtilegri, heiðarlegri og betri. Notum græjurnar!

Þorfinnur (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 03:15

7 identicon

Stefán, það er ekkert stærra skref að gera eftirlitsdómara við sjónvarpsskjá að hluta dómarateymis en bara þennan hefðbundna línuvörð. Þeir hafa umboð til að kalla í dómara hvenær sem er, stöðva leik ef þeir sjá eitthvað misjafnt, osfrv. Að bæta fjórða manninum við utan vallar tekur hvorki meiri tíma af leiknum né er erfiðara skref að eiga við.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 03:21

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnars oft í harki,
ætíð kallinn fínn í slarki,
upp að vissu er hann marki,
allra bestur í tuðrusparki.

Þorsteinn Briem, 21.11.2009 kl. 06:42

9 Smámynd: Brattur

Hef efasemdir um notkun myndavéla í knattspyrnunni. Sé fyrir mér hlé á meðan dómarinn skoðar myndskeiðið og hvað gerist í sjónvarpsútsendingunni (þar sem flestir áhorfendur eru) á meðan... jú auglýsingar ! Slíkt slítur leikinn algjörlega úr sambandi.

Það mætti hinsvegar vera einhver tækni í notkun sem sýnir hvort boltinn fer inn fyrir marklínuna eða ekki... mörg eru jú dæmin um ranga dómgæslu hvað það varðar.

Annars gerði Henry sér mestan óleik sjálfur... þessi framkoma setur óneitanlega niður hans feril... hér eftir verður hann Svindlarinn með stóru S-i.

Brattur, 21.11.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband