29.11.2009 | 18:12
Var ekki nógu afdráttarlaust.
Þegar lesin voru blaðaviðtöl við talsmann Fíladelfíu var bagalegt að ósamræmi kom fram í svörum hans þegar spurningum blaðamanna var svarað. Slíkt er ekki hægt að flokka sem "rangfærslur fjölmiðla."
Þess vegna er yfirlýsing stjórnar Fíladelfíusafnaðrins fagnaðarefni því að hún á að eyða vafa í þessu efni.
Í yfirlýsingunni kemur fram að kórstjóri Fíladelfíukórsins velji þá, sem syngi sem gestir á tónleikum kórsins, "á faglegum forsendum."
Stjórn safnaðarins vísar með þessu málinu til kórsins og kórstjórans þar sem það hefur sennilega verið frá upphafi og verður áfram án þess að vitað sé hvernig því lýkur endanlega.
Í Fíladelfíusöfnuðinum er unnið frábært starf og starfsemi kórsins hefur verið með eindæmum glæsileg.
Ég hef átt samstarf við kórstjórann og söngvara í kórnum og það hefur verið eitt það mest gefandi og skemmtilegasta sem ég hef kynnst á mínum tónlistarferli.
Kórinn og hljómsveitin hafa getið það gott orð að skiljanlegt er að sóst sé eftir að syngja með honum, enda fagmennskan, stemningin og fjörið einstakt.
P. S. Þess má líka geta að ég hef átt frábært samstarf við Friðrik Ómar Hjörleifsson og er hann einhver allra færasti tónlistarmaður á sínu sviði sem ég hef kynnst.
Hommar velkomnir í Fíladelfíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er nú ekki beint líklegt að fulltrúar Hvítasunnukirkjunnar segðu opinberlega að hommar væru ekki velkomnir í kirkjuna, enda væri slíkt brot á landslögum.
Og það er harla ólíklegt að Friðrik Ómar Hjörleifsson fengi ekki að syngja einn eða ásamt öðrum í Hvítasunnukirkjunni eingöngu vegna þess að hann væri ekki nógu góður söngvari.
Þessi yfirlýsing Hvítasunnukirkjunnar segir því akkúrat ekki neitt en það gerir aftur á móti eftirfarandi yfirlýsing:
"Það hefur mátt vera öllum mönnum ljóst að engin kirkja né kristinn söfnuður hefur hafnað hommum, lesbíum eða peningagráðugum, þjófum né barnaníðingum. Allir þessir eru hjartanlega velkomnir á samkomurnar.
En það er ekki víst að þeim líki boðunin og má vera að þeir stingist í hjörtun. Ég hef heyrt að sumir særist undan þessum boðskap. En það er af kærleika sem þeir fá að vita að enn er tími til að snúa við. Og við að snúa frá guðlausum lífsmáta og gerast lærisveinn Jesú öðlast menn rétt til að kallast Guðs börn og að lokum eilíft líf."
Snorri í Betel - Snorribetel.blog.is
Hvítasunnukirkjan er opinbert trúfélag, sem fær fjárframlög frá ríkinu samkvæmt lögum um sóknargjöld, og hún hefur engan rétt til að telja samkynhneigð til sjúkdóma eða reyna á einhvern hátt að gera lítið úr samkynhneigðum. ["... fá að vita að enn er tími til að snúa við."]
Þorsteinn Briem, 29.11.2009 kl. 19:49
Hvaða "frábæra starf" er unnið í Fíladelfíu, Ómar?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 30.11.2009 kl. 09:36
Ég hef fengið að kynnast Óskari Einarsyni og nokkrum söngvurum úr Fíladelfíukórnum, en Óskar hefur verið árlegur gestur í Fjarðabyggð og haldið í Kirkju og menningarmiðstöðinni á Eskifirði, gospelnámskeið.
Það var æft stíft frá föstudagskvöldi, stóran part laugardags og fyrripart sunnudags og svo slúttað með miklum stuð-tónleikum fyrir almenning.
Óskar og allt það fólk sem með honum var, bar af sér einstakan þokka og var mjög þægilegt í viðkynningu. Það skein í gegn, bæði í söng þessara frábæru söngvara, sem og í fasi öllu, einhver innri friður og sjálfsöryggi.
Slíkt fer eflaust í taugarnar á einhverjum
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2009 kl. 10:20
Tinna, það er kórstarfið fyrst og fremst, og það þekki ég best svo og fólkið sem starfar í því, friðinn og gleðina sem það er gætt.
Síðan er þetta einn af þeim söfnuðum sem hafa reynst áfengissjúklingum og fíkniefnaneytendum afar vel.
Ómar Ragnarsson, 30.11.2009 kl. 11:53
Voru það ekki Hvítasunnumenn sem ráku einhverskonar meðferðarstofnun fyrir áfengissjúka í Hlaðgerðarkoti fyrir einhverjum árum. Ég veit dæmi um mann sem þar var í meðferð, þeir höfðu útvegað honum gleraugu og heyrnartæki sambyggt. Á einhverjum tímapunkti sinnaðist honum við stjórnendur á staðnum og hélt á braut. En þá bar svo við að þeir vildu þá fá til baka gleraugun og heyrnartækin sem voru honum algjörlega ómissandi. Þarna sýndu þeir sitt kristilega bróðurþel. En auðvitað er það þannig að það er misjafn sauður í mörgu fé.
Gísli Sigurðsson, 30.11.2009 kl. 17:05
Hlaðgerðarkot var og er rekið af Samhjálp, trúboð og heilaþvottur í staðinn fyrir faglega læknismeðferð...af því að það virkar alltaf svo vel.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 1.12.2009 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.