Hálendisflugvöllur opinn út nóvember.

P1010404

Sauðárflugvöllur heldur áfram að koma mér á óvart og hef ég þó 45 ára reynslu af snjóalögum á hálendinu. 

Völlurinn var opinn fram yfir miðjan október en lokaðist síðan í rúma viku. Þá kom góð hláka og hann hefur verið opinn alveg fram að þessu en verður það varla mikið lengur í bili.

Þegar þess er gætt að völlurinn er í 660 metra hæð yfir sjó er þetta merkilegt, - og þó, - vitað er að hann er á svæði þar sem er minnsta úrkoma á Íslandi, minna en þriðjungur af úrkomunni í Reykjavík.

IMGP0265

Völlurinn hefur ævinlega opnast í júníbyrjun í þau sex ár sem liðin eru síðan fyrst var farið að lenda þar.

Það þýðir að hann verður opinn hálft árið í það minnsta að þessu sinni.

Hinn völlurinn á norðurhálendinu, við Herðubreiðarlindir, hefur suma vetur verið opinn meira og minna af og til mikinn hluta vetrar.

Búið er á vegum Flugmálastjórnar að taka Sauðárflugvöll út og þurfti hann að standast meiri kröfur en aðrir flugvellir, sem ekki er flogið reglubundið áætlunarflug á, vegna þess að tvær brautir hans af fjórum eru lengri en gengur og gerist, önnur 880 metrar nettó og hin 1180 metrar netto.

P1010696

Þær eru í raun 120 metrum lengir hvor um sig því að 60 metrar á hvorum enda þessara brauta eru skilgreindir sem öryggissvæði.  

Í júní næsta ár stendur til að ljúka við löggilta merkingu brautanna og ljúka skráningu og viðurkenningu vallarins.

Það er mikilvægt skref, því að annars geta menn ekki lent þar nema að kaupa sér sérstaka tryggingu til þess.

Með löggildingu vallarins er hann líka opnaður sem stærsti og mikilvægasta lendingarstaðurinn á hálendi Íslands sem gagnast gæti sem lendingarstaður fyrir Fokker F50 flugvélar ef í nauðir ræki á leið til Egilsstaða. 

P1010115

Ég skoða nú möguleika á því að setja upp ljós á miðjan völlinn og við enda lengstu flugbrautarinnar, sem flugmenn gætu kveikt á með farsímum sínum og væru ljósin með sjálfvirkum búnaði, sem slekkur ljósin eftir 10-15 mínútur.

Þar með væri hægt að nota völlinn í myrkri allan sólarhringinn sem lendingarstað í neyð.

Þetta getur verið mikilvægt atriði, til dæmis ef stór flugvél þyrfti að nauðlenda þar í myrkri, og það jafnvel þótt einhver snjór væri á vellinum, því að mun skárra er að lenda í snjó með sléttu undirlagi en í snjó í urð eða bröttu eða ósléttu landslagi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkilegt Ómar, hvar er þessi flugvöllur? Líka áhugavert fyrir þá sem hafa talað fyrir heilsársvegi yfir hálendið, að þar geti verið snjólétt.

Andri Teitsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 08:36

2 identicon

Værir þú til í að gefa GPS hnit á báðum völlunum?

Eru brautirnar frostfríar? (einhver hætta á aurbleytu)?

Örn Karlsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 09:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi flugvöllur er við Sauðá, um 15 km fyrir suðvestan Kárahnjúka, beint vestur af Hálslóni.

Hann liggur mjög miðsvæðis. 18 km akstur er til Kárahnjúka, um sjö kílmetrar að Brúarjökli, 15 km í Grágæsadal, ca 10 kílómetrar að Fagradal og um 30 km niður á Kverkfjallaleið fyrir innan Möðrudal.

Hnitið er: 64:50 norður 16:02 vestur. Þetta er einn völlur með fjórum merktum brautum, brúttólengd 1300, 1000, 700 og 700 metrar og í miðjunni er vindpoki á um 5000 fermetra flughlaði þar sem hægt er að binda flugvélar niður.

Völlurinn er með alveg hæfilega fínni og rennsléttri möl, engar umtalsverðar hindranir eða fjöll umhverfis og hann er það langt frá öllum stærstu fjöllum norðausturhálendisins að þar er aldrei neitt visvindi.

Brautirnar eru harðar allan ársins hring og frost í þeim á veturna.

Aðeins um mánaðamótin maí-júní þegar völlurinn er að þiðna, er í honum aurbleyta.

Ómar Ragnarsson, 1.12.2009 kl. 11:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi flugvöllur gefur ekki algilda mynd af snjóalögum á hálendinu. Til dæmis er yfirleitt snjóþungt á stórum hluta Gæsavatnaleiðar enda nær hún upp í 1000 metra hæð yfir sjó, og stundum eru mikil snjóþyngsli i kringum Snæfell, þótt fjallið myndi úrkomuskugga vestur af sér.

Ómar Ragnarsson, 1.12.2009 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband