Misræmi í aðstöðu fyrirtækja.

Ölgerðin er eitt þeirra fyrirtækja sem nú berst harðri baráttu fyrir tilveru sinni í kreppunni. 

Sum fyrirtæki glíma nú ekki aðeins við kreppuna sjálfa og afleiðingar hennar, heldur þurfa einnig að keppa við fyrirbæri, sem er afar ósanngjarnt, en það eru fyrrum einkafyrirtæki sem nú eru rekin á kostnað ríkisins, þ. e. bankanna.

Svo virðist sem lítið aðhald sé af hálfu hinna raunverulegu eigenda gagnvart því hvernig þessi fyrirtæki haga sér mörg hver.

Auðvitað eru bankarnir upp fyrir haus í að bjarga ótal málum en í mínum huga er það grafalvarlegt mál, sem verður að sinna, en ekki ánægjuefni að heyra og sjá í fjölmiðlum hvernig sum hinna ríkisreknu fyrirtækja eyða miklu meiri peningum í auglýsingar en keppinautarnir.

Hér er kominn fram svonefndur pilsfaldakaptílismi af verstu sort, eigendurnir hirða gróðann en ríkið borgar tapið.

Í sumum tilfellum er um það að ræða að fyrirtæki, sem var illa rekið og fór því á hausinn, nýtir nú aðstöðu sína til þess að sauma að fyrirtækjum sem voru vel rekin og tókst því að halda velli við erfiðan kost.

 


mbl.is Uppsagnir hjá Ölgerðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Ómar,

ekki fæ ég séð hvernig aðgerðir eða aðgerðaleysi hins opinbera í þessu máli eigi nokkuð skylt við s.k. pilsfaldakapítalisma. Mergur málsins er sá að aukin skattlagning bitnar á sumum en ekki öðrum. Neyslustýringin er með þeim hætti að sykur er óhollur en bara ekki allls staðar. Sykraðir OG ósykraðir gosdrykkir eru skattlagðir aukalega, en ekki t.d. kókómjólk eða aðrar sykraðar mjólkurvörur.

Fyrirtækin,sem þú væntanlega vísar í eru í eigu hins opinbera og því geta fyrri eigendur ekki hirt gróðann. Hins vegar er það hárrétt hjá þér að benda á hve sum yfirtekin ríkisfyrirtæki geta leyft sér að fara fram á markaði í samkeppni við fyrirtæki, sem hafa staðið af sér hrunið. Hér er vitanlega um að kenna að hið opinbera er ekki búið að setja bönkunum og skilanefndunum skýrar reglur. Hvers vegna það er ekki gert er mér fyrirmunað að skilja.

En Ölgerðin er í vanda stödd án atbeina nýrrar skattlagningar í anda misheppnaðrar forsjárhyggju. Það er einmitt þess vegna að hin aukna skattlagning er vanhugsuð. Fjöldi fyrirtækja starfar í kringum núllið og sérhverjar auknar álögur á vörur þeirra eða rekstur ýta undir verri stöðu; uppsagnir, lækkun launa og samdrátt - og í versta falli gjaldþrot.

Ólafur Als, 1.12.2009 kl. 13:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Síðan hvenær urðu kolsýrðir drykkir eins og Kristall svona óhollir?

Víða má finna mikið ósamræmi og ósanngirni í þessari skattlagningu.  

Það að hin yfirteknu fyrirtæki geta neytt aflsmunar og aukið hlutdeild sína á markaðnum í skjóli ríkiseignar er í raun gróði fyrir þá sem reka þau. 

Þeir hafa hag af því að fyrirtækin hafi meira umleikis á sama tíma og eigendur þeirra fyrirtækja, sem berjast í bökkum, verða fyrir barðinu á versnandi stöðu.  

Ómar Ragnarsson, 1.12.2009 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband