12.12.2009 | 20:16
Fimm ára senuþjófur.
Hún er aðeins fimm ára en kom, sá og sigraði á jólatónleikum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í kvöld.
Hún heitir Rósa Guðbjörg Guðmundsdóttir og söng eins og engill svo að alllir urðu heillaðir.
Amma hennar, Rósa Þorláksdóttir, var viðstödd en óljósar minningar mínar frá barnæsku komu í hugann, því að fyrir Rósu, þá unga stúlku, söng ég fjögurra ára á eldhúsborðinu að Sandhóli í Ölfusi lagið "Rokkarnir eru þagnaðir" og líklega eitthvað fleira.
Rósa og móðir mín voru nefnilega systrabörn og hún rifjaði þetta upp fyrir mér eftir tónleikana.
Þetta er lítið land því þegar sungið var nýtt og skemmtilega gospelkennt lag organistans, Skarphéðins Hjartarsonar við ljóð Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka rifjuðust upp minningar minnar úr bernsku þegar hann hann og Ingólfur Guðbrandsson voru kennarar í Laugarnesskólanum.
Ingólfur Guðbrandsson bað Ingólf nafna sinn um að gera ljóð við hið erlenda lag. Ingólfur Guðbrandsson og móðir mín voru bræðrabörn og Ingólfur Jónsson og faðir minn voru systkinasynir.
Athugasemdir
Virkilega gaman að heyra.
Sjálfur ætlaði ég í Fríkirkjuna mína í Hafnarfirði - en annað hindraði.
En eitt Ómar :
Hann Ingólfur frá Prestbakka , var hann einhvern tímann kennari í Laugarnesskóla ? Ekki man ég það- þó var ég um tíma heimgangur hjá Ingólfi- þessum ljúfa manni, á árunum 1948-1952 þegar hann átti heima í Skipasundi 30 og leigði hjá frænda mínum- og ég nemandi í Laugarnesskóla með þeim frægu félögum; Styrmi, Halldóri, Ragnari og Jóni Baldvin- ásamt mínum kæra vini Magnúsi Jónssyni, kvikmyndaleiksstjóra..
Kannski.
En ekki gerði ég mér grein fyrir því þá að Ingólfur frá Prestbakka væri mikill listamaður...-það birtist mér löngu seinna
En sá mikli tónlistarmaður -hann IngólfurGuðbrandsson-hann svo sannarlega uppfræddi okkur krakkana í Laugarnesskólanum-um æðstu tónverk sögunnar.
Því gleymir enginn sem upplifði það ...
Sævar Helgason, 12.12.2009 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.