"Sjá hve hér illan enda..."

Sjá hér hve illan enda   /

ótryggð og svikin fá.  / 

Júdasar líkar lenda   /

lagsbróður sínum hjá.   /

Andskotinn illskuflár   /

oft hefur snöru snúna,  /

snögglega þeim til búna   /

er fara með fals og dár.  

 

Hallgrímur Pétursson var ekkert að skafa utan af því í Passíusálmum sínum þegar hann fjallaði um svikakoss Júdasar og síðar það þegar hann hengdi sig.

Ég vona að ég fari rétt með, hef ekki sálmana við hendina þegar ég set þetta á blað.

En Hallgrímur fjallaði líka í Passíusálmunum um iðrun, bót, betrun, yfirbót og fyrirgefningu, náð Krists og Guðs.

Hann var ekkert að skafa utan af því heldur að sjálfur væri hann breyskur og syndugur maður og þyrfti á náð og miskunn að halda og leggja sig fram um að verða betri maður.   

Það sem hent hefur Tiger Woods þætti ekki nokkurs virði fyrir almenning né fjölmiðla né nema vegna þess hver maðurinn er.  

Í því hærri söðli sem setið er, því hærra verður fallið ef jafnvægið raskast.  

Ég sé á blogginu að menn kalla hann ónefnum eins og "druslu" og þar fram eftir götunum. Ég held að við ættum að fara varlega í því að kasta steinum úr glerhúsum okkar.  

Síðdegis í dag verður lag sem heitir "Fyrirgefningin" flutt í fyrsta sinn opinberlega af kór og hljóðfæraleikurum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Viðeigandi væri að tileinka það Tiger Woods og okkur öllum hinum, sem þurfum að verða betra fólk.

Ég hef birt þennan texta áður en ætla að gera það aftur í tilefni dagsins.

Þegar lagið er sungið er fléttað inn í textann viðeigandi erindum úr Faðirvorinu, sem kórinn allur syngur.

 

FYRIRGEFNINGIN.  (Með sínu lagi) 

 

Án fyrirgefningar friðlaus verður hver maður.  /

Fær ekki lifað lífinu sáttur og glaður.   /

Batnandi manni er best að lifa og deyja, -  /

bæta fyrir sín afbrot, sig auðmjúkur beygja.    

 

Breyskleikinn leikur menn illa á ýmsa vegu, - /

ágirnd og sjálfselska, systurnar hættulegu,  -  / 

syndirnar lúmsku, losti, græðgi og hroki   /

líf okkar eitra, oft verða að þrúgandi oki.   /

 

Misgjörðir okkar og mistök á vegum hálum   /

meinvörp og sár geta skapað í viðkvæmum sálum.  /

Allir menn eiga einhverjum skuld að gjalda.   /

Öll þurfum við á fyrirgefningu´að halda.  

 

Vont er að vera fullur af hefndarhuga.   /

Heiftúð og skynsemi´og hugarró buga.  /

Enginn er bættari náungann auri að ata,  /

því oftast fer hatrið verst með þá sem að hata.    /

 

Fyrirgef oss vorar skuldir   /

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.   /

Eigi leið þú oss í freistni   /

heldur frelsa oss frá illu.  

 

Þú, sem ég braut gegn, þér á ég skuld að gjalda.   /

Þungbær er sökin og erfitt er henni að valda.  /

viltu fyrirgefa mér það sem ég gerði.  

Ef framvegis gegn syndinni verð ég á verði   /  

 

Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita.   /

Fyrirgefningar Drottins ég verð að leita    /

en víkja þó ekki frá verknaðinum hálfum, -   /

ég verð að geta fyrirgefið mér sjálfum.  

 

Er endirinn nálgast áfram ég trúi og vona  /

og ósk mín til þeirra sem braut ég á móti er svona:  /

:,: Þótt sakbitinn muni ég síðustu rimmuna heyja,   /

að sáttur við Guð og menn ég fái að deyja:,: 

 

Fyrirgef oss vorar skuldir   /

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.   /

Eigi leið þú oss í freistni    /

heldur frelsa oss frá illu.  

 

 

P. S.  Eins og sést í einni athugasemdinni voru tvær innsláttarvillur í passíusálminum, sem ég rek til þess að vera að blogga þetta þreyttur og syfjaður klukkan hálf þrjú um nótt eftir stranga ferð að norðan.  

 


mbl.is Tiger hættir keppni ótímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég held að Tiger Woods sé enn eitt dæmið um misnotuð börn frá Ameríku, hann hefur örugglega verið fyrirvinna foreldra sinna frá unga aldri vegna þrælkunar föður síns.  Sem píndi hann áfram, svipað og Britney Spears og Lindsey Lohan hafa þurft að upplifa að vera fyrirvinnur fjölskyldu frá unga aldri.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.12.2009 kl. 02:53

3 identicon

Takk fyrir fallegan pistil Ómar. Og til hamingju með það að kunna Passíusálmana utanbóka.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 09:54

4 identicon

Að sönnu slæddust tvær villur inn í versið úr Passíusálminum.  Júdasar líkar lenda einhversstaðar og andskotinn er illskuflár.  Það passar einhvern veginn ekki vel við þá viðkynningu sem ýmsir telja sig hafa af honum að hann sé illskufár, þ.e.a.s. svona frekar illskulítill.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 12:28

5 identicon

Góður Ómar,það er ótrúlegt hvað fólk getur verið dómhart.Eins og þú segir "köstum ekki grjóti úr glerhúsi"Fjölmiðlar ættu nú að gefa honum frið í einhvern tíma til að koma lagi á líf sitt.

magnús steinar (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 12:45

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það eru sláandi líkindi með uppeldi Michael Jackson og Tiger Woods. Báðir aldir upp í að verða ofurmenni og foreldrarnir orðnir vellauðugir þeirra vegna. Eini munurinn er að Tiger Woods lét kylfu fylgja kasti. Ef Tiger Woods hefði verið í skemmtanabransanum væri hann með öðruvísi nef.

Guðmundur St Ragnarsson, 12.12.2009 kl. 13:25

7 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Gleymum svo ekki Ikarusi...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 12.12.2009 kl. 14:36

8 identicon

Flottur pistill hjá þér  og ég tek heils hugar undir með þér.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 15:35

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar það er eins og Hallgrímur Pétursson sé hér að skrifa beint til ríkisstjórnarinnar um Icesavesamninginn. Sjá hve hér illan enda..."

Nú er bara fyrir þjóðina að taka völdin aftur og hefja uppbyggingu. Þá fyrirgefum við þessu fólki af heilum hug.

Sigurður Þorsteinsson, 12.12.2009 kl. 18:58

10 Smámynd: Snæbjörn Björnsson Birnir

Er ekki hægt að taka upp neina umræðu í þessu landi, án þess að Icesave sé blandað inn..?? Fyrir alla muni, koma sér uppúr "litlu holunni" og líta aðeins í kringum sig...! :-/

Snæbjörn Björnsson Birnir, 12.12.2009 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband