15.12.2009 | 01:00
Hræsni hinna frelsiselskandi Vesturlandabúa.
Við Vesturlandabúar berjum okkur á brjóst og segjumst vera mikið baráttufólk fyrir frelsi, réttlæti og jöfnuði.
Við höfum notað þetta elskaða frelsi til að sitja lengst af ein að því að blása svonefndum gróðurhúsalofttegundum út í loftið.
Í Kaupmannahöfn er nú fjallað um það hvernig þetta geti valdið þjóðum sunnar á hnettinum miklum búsifjum, ýmist drekkt láglendi þar sem hundruð milljóna búa eða valdið þurrkum og vexti eyðimarka.
Læt fylgja hér með myndir úr ferðum mínum til Eþíópíu 2003 og 2006, en þar geysuðu þá miklir þurrkar og varð að útdeila vatni til fólksins úr tankbílum til að koma í veg fyrir frekara mannfall vegna þurrkanna.
Bandaríkjamenn, 5% mannkyns, blæs út 25% af útblæstrinum.
Deilt er að vísu um umfang loftslagsbreytinga en það breytir ekki því að 110 þjóðarleiðtogar ætla varla að ómaka sig til Kaupmannahafnar út af engu.
Vestrænar þjóðir hafa einnig barist fyrir verslunarfrelsi en gætt þess að það nái ekki til landbúnaðarvara, sem eðli máls samkvæmt er hagkvæmara að framleiða í heitari löndum.
Skekkjan, sem með þessu hefur myndast, er margfalt meiri en nemur allri aðstoð Vesturlandabúa við fátækt fólk í þróunarlöndunum.
Vesturlönd hafa ekki staðið sig betur en það í að uppfylla skilmála Kyotobókunarinnar að í áætlunum er oftast miðað við árið 2005 en ekki 1990 til þess að hægt sé að fá út hærri prósenttölu.
Ég ræddi um umhverfismál við sendiherra Indlands á dögunum og spurði hann hvort honum fyndist það réttlátt að sleppa þróunarlöndunum við að minnka útblástur svonefndra gróðurhúsalofttegunda.
Hann sagði að Indverjar og Kínverjar ætluðu sér að taka á í þessum efnum en benti á að hver Íslendingur blési sex sinnum meira af þessum efnum út í andrúmsloftið en hver Indverji.
Út um gluggann horfðum við á umferð mest mengandi bílaflota í Evrópu sem við höfum komið okkur upp sem hluta af fjórföldun skulda heimilanna á örfáum árum í "gróðærinu" mikla.
Þróunaraðstoð Íslendinga bar sem betur fer ekki á góma í viðtali okkar og vonandi veit Indverjinn það ekki að Íslendingar hafa verið og ætla sér að vera áfram nískasta þjóð á Vesturlöndum í því efni.
Fjögur frelsi sem Roosevelt Bandaríkjaforseti nefndi sem keppikefli heimbyggðarinnar voru:
Skoðana- og tjáningarfrelsi. Trúfrelsi. Frelsi frá skorti. Frelsi frá ótta.
Frelsi frá skorti heyrist sjaldan nefnt.
Gagnrýna danska formanninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
sammála þér Ómar
Birgitta Jónsdóttir, 15.12.2009 kl. 06:50
Þakka þér fyrir Ómar. Ég vil þó benda á að hér í Kaupmannahöfn eru þúsundir sem krefjast þess að hinar ríku þjóðir taki fulla ábyrgð á þeim skaða sem þær hafa valdið og með útblæstri gróðurhúsalofttegunda allt frá iðnbyltingu.
Lykilhugtak í samnigaviðræðum hér í Kaupmannahöfn er "climate justice", þ.e. að aðgangur Jarðarbúa að andrúmsloftinu verði jafn - a.m.k. þegar fram í sækir - og að takmarkinir á útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefti ekki möguleika hinna efnaminni þjóða að þróa hagkerfi sín. Til að það gangi eftir er brýnt að ríku þjóðirnar deili með sér af fjármagni og tækniþekkingu því þrónuarlöndin geta ekki - mega ekki - brenna kolum og olíu í sama mæli og gert var í Bretlandi, Þýskalandi eða Bandaríkjunum til að auðgast.
Skortur á trausti milli samningsaðila er stærsta hindrunin hér í Kaupmannahöfn. Iðnríkin verða að ganga á undan með góðu fordæmi og taka á sig skuldbindingar um að draga verulega úr útstreymi gróðuhúsalofttegunda um leið og þau aðstoða þróunarríkin við þróa hagkerfi sín með sjálfbærum hætti. Það kostar bæði peninga og tækniaðstoð. Við bætist svo að mörg þróunarríki þurfa aðstoð við að fást við allvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, t.d. hækkun yfirborðs sjávar.
Ísland hefur gengist undir svipaðar skuldbindingar og önnur Evrópuríki og við ráðum yfir tækni við nýtingu jarðhita sem nýta má víðsvegar í þriðja heiminum.
Það er mín skoðun að samkomulag geti náðst hér í Kaupmannahöfn. Til þess er góður vilji ráðamanna og mikill stuðningur almennings. Valkosturinn er óbærilegur.
Bestu kveðjur,
Árni Finnsson.
Árni Finnsson (IP-tala skráð) 15.12.2009 kl. 08:57
Léttasta leiðin til að minnka losun gróðurhúslofftegunda er að hella steypu ofan í allar eldfjallaglufur Jarðar. Ódýrt, fljótlegt og enginn þarf að senda lífskjör sín aftur í miðaldir fyrir "málstaðinn". Nema jú auðvitað ef Jörðin kólnar í kjölfarið (en kólnun er mun hættulegri fyrir lífríki Jarðar og manna en hiti og aukinn raki).
Geir Ágústsson, 15.12.2009 kl. 09:37
Geir: Þetta er mikil mýta hjá þér, lestu þetta: Mýta: Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg.
Þar segir meðal annars:
Höskuldur Búi Jónsson, 15.12.2009 kl. 10:17
Ja hérna. Og hver reiknaði þessar tölur, sem hljóta að vera algjört bull. Það veit hreinlega engin hvaða magn metans tildæmis lekur úr jarðskorpunni um allan heim. Svo gleimist eitt, hve mikið CO2 og þá metan fellu til jarðar árlega úr geimnum.
Alveg eins og ánamaðkurinn bætir jörðina með því að blanda næringarefnunum í moldina, grænkum við jörðina með því að dæla CO2 út í andrúmsloftið, einu áhrifin, grænni jörð!
Þú segir Ómar: 110 þjóðarleiðtogar ætla varla að ómaka sig til Kaupmannahafnar út af engu.
En þetta eru að sjálfsögðu engin rök. Eins má segja: 30.000 nornir voru varla brenndar í Evrópu út af engu.
Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 15.12.2009 kl. 14:39
Mæli með fyrirlestri Bob Carter, súmmar því glæsilega upp hvað er í gangi, mikið verið reynt að ófrægja þennan hugrakka snilling. http://www.youtube.com/watch?v=FOLkze-9GcI
SeeingRed, 15.12.2009 kl. 15:10
Ég get ekki stillt, verð að rökstyðja þetta að jörðin verði aðeins grænni. Nú er ég ekki vísindamaður þó ég sé brúfræðingur frá Hvanneyri, en leifi mér samt að setja fram þessa vísindakenningu, ætti að koma beint við þig Ómar sem ferðast um staði þar sem þurrkar eru vandamál.
Ef þú ímyndar þér jurt sem vex í jaðar eyðimarkar, lengra frá eyðimörkinni verður grænna en lengra inn í henni auðn. Þessi jurt okkar hangir með bláþræði í lífið, hvern einasta dag þarf hún að anda andrúmsloftinu til þess að vinna úr því CO2. En við öndunina missir hún raka. Hún í jafnvægi, rétt skrimtir.
Og hver yrðu áhrif aukins CO2 í andrúmsloftinu, jú jurtin missti minni raka vegna þess að hún þyrfti ekki að anda eins mikið til þess að vaxa og þess vegna næði gróðurinn lengra inn í eyðimörkina. Gróður gefur af sér raka sem gefur af sér rigningu. Ergó grænni jörð. Við getum kallað þetta "Kjarvalskenninguna" , nema að ég er nokkuð viss um að einhver annar hefur bent á þetta.
Eins og þú veist Ómar er hálendi Íslands sumstaðar eyðimörk vegna rakaleysis. Sama lögmál ætti að gilda þar.
Ingimundur Kjarval, 15.12.2009 kl. 16:03
Sæll Ómar.
Það er alveg rétt hjá þér að það er kominn tími til að gömlu nýlenduveldin í Evrópu taki sig til og aflétti tollum af landbúnaðarafurðum frá fyrrum nýlendum sínum í Afríku.
Kv. Sigurjón
Sigurjón, 15.12.2009 kl. 17:46
Viðskilnaður nýlenduveldanna var náttúrulega viðbjóðslegur eftir áratuga arðrán og valdníðslu.
SeeingRed, 15.12.2009 kl. 17:49
Akkúrat eins og ég vildi sagt hafa...
Sigurjón, 15.12.2009 kl. 20:44
Það er ævinlega hægt að finna dæmi um einhvern náttúrulegan útblástur gróðurhúsalofttegunda.
En það sem gerir útblástur af mannavöldum öðruvísi er það að hann er hrein viðbót.
Ómar Ragnarsson, 15.12.2009 kl. 20:55
Nei. Ég er á því að það megi færa rök fyrir því að svo sé ekki. Maðurinn getur ekki búið til CO2 úr engu. Olían og kolin sem maðurinn brennir í andrúmsloftinu jú hluti af jörðinni. Og það sem meira er, jarðflekar jarðarinnar í sífelldri endurnýjingu og allt í þeim endanlega brennt upp í iðrum jarðar, olían og kolin líka. Sterkan grun hef ég um að þær hamfarir geri puð mannsins að nærri því engu. Og þessi endurnýjun er í gangi í dag. Enginn veit hvað mikið magn olíu streymir stöðugt úr hafsbotni þar sem lífverur breyta henni svo jafnóðum í CO2.
Og svo má heldur ekki gleyma að alvöru vísindakenningar eru til um að uppruni olíu sé ekki lífrænn heldur jarðfræðilegur og þá ekki vitað hvað mikil olía er til á jörðinni.
Eða eins og ég sagði, því meira sem við brennum af henni í andrúmsloftinu, því betra verður allt, grænna og fallegra, meiri matur og velsæld.
Ingimundur Kjarval, 15.12.2009 kl. 22:53
Kjarval: Það tók jörðina tugir milljónir ára að binda það CO2 sem er nú búið að losa á rúmri öld með brennslu á jarðefnaeldsneyti.
Höskuldur Búi Jónsson, 16.12.2009 kl. 12:49
Má vel vera, en það er ekki vitað hvað jörðin sjálf losar árlega af CO2 út í andrúmsloftið, óþekkt tala. Maðurinn hefur ítrekað fallið í þá gröf að þykjast vita eitthvað sem hann veit ekki og haldið sig mikilvægari í veröldinni en hann er.
Einu sinni var talið fullvíst að jörðin væri miðja alls og þá líklega að Guð væri eingöngu handa okkur. Meira en 80% jarðar er þakið hafi og á öllum þeim hafsbotni lekur metan og þá CO2 út í hafið. Enginn veit þessar tölur. Mestur hluti CO2 í andrúmsloftinu og þá hafinu er brotið niður af grænþörungum í sjónum og engin veit þær tölur heldur, bara ágiskanir og þær stórar, hreinlega bullað út í loftið um hvað mikið af CO2 sé snúið í höfunum.
Stærstur hluti úthafanna er lífræn eyðimörk, ekkert vex þar vegna vöntunar á næringarefnum. Ef það væru alvöru áhyggjur af magni CO2 í andrúmsloftinu væri lítið mál að bera á þessar eyðimerkur hafsins og auka þannig framleiðsluna í höfunum sem gæti þá fætt milljarða um leið og hafið drægi CO2 úr andrúmsloftinu.
En þetta má auðvitað ekki, Ómar búinn að banna allt slíkt, segir það að fikta við náttúruna. Eða hvað?
Og þá segir þú, maðurinn getur ekki getur ekki borið nóg á hafið til þess að fjarlæga það CO2 sem hann setti í andrúmsloftið. En það er auðvitað rökleysa hjá þér, því ef að hann gat sett eitthvað einhverstaðar getur hann að sjálfsögðu tekið það aftur og þá er ég ekki að tala um hugmynd forsetans um að dæla CO2 ofan í jörðina. Vildir þú búa á stað þar sem CO2 hefði kannski verið dælt ofan í jörðina í áratugi, eins og að eiga heima ofan á gos flösku.
En svo má líka benda á að við erum auðvitað að bera á hafið í dag og alla daga með því að fara á klósettið. Allt skolp úr öllum stórborgum allra landa verður svo endanlega að fiski handa borgurum heimsins. Er heimurinn ekki stórkostlegur þó þú viljir aðeins sjá dökku hliðarnar á honum.
Ingimundur Kjarval, 16.12.2009 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.