Alkinn játar en hættir ekki.

Líkja má Kaupmannahafnarráðstefnnunni við það að alkóhólisti drattist til að halda fjölskyldufund vegna augljósrar fíknar sinnar sem allir sjái að muni leiða til ófarnaðar. 

Hann hélt slíkan fjölskyldufund fyrir níu árum en í ljós kom að niðurstaða þess fundar hafði litlu sem engu skilað.  

Þegar á hólminn er komið játar alkinn að vísu að hann hafi valdið tjóni og muni valda vaxandi tjóni sem bitni mest á þeim sem hann á samskipti við.

Hann lofar að leggja einhverja peninga fyrir til að reyna að gera hlut þeirra eitthvað skárri sem verða fyrir barðinu á drykkju hans.  

Hann lofar líka að taka það til alvarlegrar athugunar að minnka drykkjuna.

En hann hafnar því algerlega að fara í meðferð, hvað þá að hætta að drekka.  

Þessi niðurstaða fundarins er færð til bókar og nefnt samkomulag.

Fundurinn sjálfur getur að vísu verið áfangi, rétt eins og fundurinn fyrir níu árum. En ætlunarverkið misftókst og það er í hrópandi ósamræmi við stóru orðin sem látin voru falla í aðdraganda fundarins.

Það versta við fundinn er það að nú læðist sá grunur að öllum að síðari fundir muni ekki verða árangursríkari og að jafnvel þótt þá náist bindandi samkomulag verði það ekki virt.

Aldrei muni takast að stöðva drykkjuna.  

 


mbl.is Samkomulagið vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er í raun ótrúlegt. Mælinar sýna að stöðva verður allan útblástur nú þegar og helst spóla nokkur ár aftur í tímann. Þetta mun bitna mikið á suður- og norðurhveli jarðar og þar er Ísland meðtalið. Jöklarnir okkar eru að hverfa og sjávarmál hækkar, hvar fáum við þessa ómetanlegu hluti bætta ? Ekki er rætt um bætur til landa eins og okkar. Heldur er verið að styrkja þróunarríkin enn frekar í neyslunni. Með þessu áframhaldi á þetta bara eftir að enda illa og það mjög illa!

Matthías (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 02:19

2 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Þessi miðurstaða eru vissulega vonbrigði en alltof fyrirsjáanleg. Við vitum svo sem hvernig búið er um slíka umræðu hér heima. Umhverfismat er blótsyrði en síðan móðgast menn ógurlega ef bent er á hversu lítið við í raun gerum sjálf til að geta kallast umhverfisvæn. Líking þín við alkoholistann og þetta stóra vandamál segir allt.

Andrés Kristjánsson, 19.12.2009 kl. 02:22

3 identicon

Þetta er mjög flott samlíking sem, eins og áður grípur þú til sjúkdómsins alkóhólisma til að skýra málin, og er það vel og oft mjög fyndið!

Það sem ég ekki skil er hversu oft þú gerir þetta, þar sem þú ert ekki alkóhólisti og að mér skilst, hafir aldrei drukkið. Bara pæling sem ég hef lengi viljað fá svar við.

Takk takk

PS: Hversvegna ertu með einkanúmerið EDRÚ á litla bílnum þínum? Gaman að þessu.

Arngrímur (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 02:27

4 identicon

Sæll Ómar. Þetta var vel ritað og af mikilli skynsemi. Til gamans eða ekki sendi ég þér hér tvær vísur eftir mig sem snerta þó frekar efnahagsmálin og eru nú meira gaman en alvara.

Gordon Brown
 
Heimur allur hrósa má
og hylla vel og lengi
Gordon Brown sem ullar á
íslensk þjófagengi.
 
Icesave
 
Hnipinn í buddu hundrað kall
hímir og eftir gengisfall
vart er að verðleik metinn;
af honum greiddi ég eitt sinn skatt,
ávöxt hann bar og fékk mig glatt;
hirðir hann bráðum Bretinn.

Bestu kveðjur, Jón Ingvar Jónsson, fyrrverandi Stórhyltingur.

Jón Ingvar Jónsson (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 02:53

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Ef við aðgætum hina hliðina á þessu máli, mætti þá ekki allt eins segja að menn sem ætlast hafi til mikils af þjóðum heims á þessum tímapunkti í hruni heilu samfélaganna, kunni að vera haldnir umhverfisfíkn, þ.e einhliða áhorfi á það mál ...... sem aftur gæti þá  fallið undir sjúkdómsgreininguna ?

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.12.2009 kl. 03:06

6 identicon

Góð samlíking. Flestir sem drekka sig til dauða vita t.d vel að þeir eru alkóhólistar...

Gunnar (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 10:30

7 identicon

Góð grein hjá þér Ómar og Guðrún María það sem þú bendir á er einmitt nákvæmlega sama afsökun og alkóhólistinn notar til að halda áfram að drekka í stað þess að takast á við vandamálið. Alkinn notar hluti eins og að það sé svo erfitt í vinnunni núna að þetta sé ekki rétti tíminn til að hætta að drekka, það árar of illa fjárhagslega og þess vegna getur hann ekki hægt að drekka nú eða að það séu vandamál í hjónabandinu og þess vegna geti hann ekki hægt að drekka.

Það sem vantar inn í myndina er að þrátt fyrir öll önnur vandamál sem hann þarf að takast á við, þá verður hann að takast á við drykkjuvandann jafnhliða því annars magnast bæði alkóhólisminn og hin vandamálin upp í að verða eitthvað sem ekki verður leyst.

Nákvæmlega það sama gildir um umhverfismálin, þau mega ekki verða eitthvað sem geymt verður þar til kreppunni er lokið, þau eru og þurfa að vera nauðsynlegur hluti af því að vinna sig út úr þeirri fjárhagskreppu sem nú ríkir.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 11:01

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Besta leiðin til að draga úr losun lofttegunda af mannavöldum er að drepa fólk með skipulögðum hætti.  Fækka fólki um 80-90%.  Fólk sem hefur í raun engan rétt á að vera hér á jörðinni.  Jörðin var hérna á undan okkur og á þess vegna allan rétt. 

Ef ykkur finnst þetta aðeins og róttækt hjá mér getið þið byrjað á öðrum hlutum.  Hætt að prumpa, ropa, kveikja ljós, keyra bíla, anda frá ykkur, horfa á sjónvarpið, kaupa föt, reyna á ykkur, borða kjöt, borða gras, borða, anda.

Fyllibyttur!

Björn Heiðdal, 19.12.2009 kl. 12:34

9 identicon

Ég lofa að minnka drykkjuna um helming fyrir árið 2050.

Einar (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 13:15

10 identicon

Vel mælt að venju, Ómar.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 18:48

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í foreldrahúsum, þar sem ég ólst upp, kynntist ég alkóhólismanum, Arngrímur.

Sjálfur tel ég mig hafa verið óvirkan alkóhólista alla tíð.

Fyrir rúmum áratug var rætt um fjölskyldu minni hvort einkanúmer væru réttlætanleg.

Ég taldi þau geta verið það ef þau flyttu góðan boðskap

Afstaða mín til áfengisvandamálsins var börnum mínum kunn og þau færðu mér einkanúmerið umrædda að gjöf þegar ég varð sextugur.

Síðustu ár hefur númerið "Edrú" fengið víðari merkingu varðandi það efnahagsfyllerí sem er landlægt hér og þjóðin hefur orðið meðvirk í.

Auk þess tek ég undir með Páli Óskari Hjálmtýssyni um það hvað þessi meðvirkni hefur slævt vitund manna um þennan vanda sem er alvarlegasti fíkniefnavandi okkar tíma.

Ómar Ragnarsson, 19.12.2009 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband