Mikill og áleitinn "persónuleiki".

Nú er komið á annan mánuð síðan Bárðarbunga tók að minna okkur á það hver er yfireldstöð Íslands. 

Ég hafði áður en skjálftahrinan mikla og umbrotin hófust fylgst með henni af vaxandi áhuga vegna þess að hún virtist smám saman vera að komast í hægt vaxandi skjálftaham og mér fannst því vissara að taka af henni sérstakar myndir.

Viku síðar hófust lætin og þá kom sér vel að eiga þessar myndir, svona nýteknar.

Allan tímann síðan hefur hún verið leyndardómsfull, bæði seiðandi og ógnvekjandi í senn, og þessi stórbrotni "persónuleiki" hennar sest smám saman á mann og síðast inn í vitundina eftir því sem hún blasir oftar við og er til alls líkleg, jafnvel með hamfaraflóðum sem geta farið í fimm vatnasvið og geyst niður í sjó við Skjálfanda, Öxarfjörð, Þjórsárósa, Skaftárósa og ósa ánna sem renna niður á Skeiðarársand.

Að ekki sé minnst á allar eldstöðvarnar, gamlar og nýjar, sem hún getur kveikt í, nú siðast Tungnafellsjökli, þó án goss þar í bil. Bara til þess að auka á óvissunar og spennuna.  

Á flugi framhjá henni í gær var engu líkara en hún hefði sett upp risavaxna ullarhúfu til að dyljast undir á meðan hún væri að bralla sín stórbrotnu ráð af einstakri undirferli og dulhyggju.

Set mynd af henni á facebook síðu mína sem fylgihlut þessa pistils.

Viðeigandi gætu verið ljóðlínur úr laginu "Jezebel" og hljóðað svona:

"Like a demon you posess me,

you obsess me constantly

forsaken dreams and all

for the siren call

of your arms. "  


mbl.is Askjan sígur um 40 cm á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í hrun. Þarf langtímasamning.

"Mene, mene, tekel", skriftin á vegg heilbrigðiskerfisins á Íslandi, blasir við. Sérfræðingum fækkar jafnt og þétt og í raun hraðar en sýnist á yfirborðinu, því að þeir sem hanga hér enn, verða sífellt eldri. Sama er að segja um heimilislækna. 

Hrunið í fjármálakerfinu 2008 var slæmt en snerist þó að mestu um efnisleg gæði. Hrunið, sem nú er í gangi í heilbrigðiskerfinu, er allt annað og verra, því að þar er um að ræða líf og heilsu þjóðarinnar.  

Þegar horft er á ástandið sést, að smíði risavaxins hátæknisjúkrahúss fyrir tugi eða jafnvel hundruð milljarða króna verður gagnslaus ef engir fást til að vinna þar.

Spurningin er einföld: Ætlum við að vera samkeppnisfær við nágrannalöndin varðandi lífsnauðsynlegan starfskraft eða ætlum við að láta heilbrigðiskerfi okkar drabbast niður í það að hér verði senn svipað ástand og í vanþróuðu löndunum með þjónustuskorti af áður óþekktri stærð.

Fram að þessu hafa fjármálaráðherrar mismunandi flokka staðið einir í slagsmálum stund og stund í einu um kjör heilbrigðisséttanna án nokkurrar framtíðarsýnar eða lausnar, sem breytir einu eða neinu.

Slík stefna skammsýni, ófriðar og óánægju mun óhjákvæmilega stefna heilbrigðiskerfinu í hrun.

Við vitum að það er erfitt að bæta þannig kjör heilbrigðisstéttanna í einu vetfangi að hruninu verði aftrað og það hefur verið meinið, - enginn einn fjármálaráðherra hefur megnað þetta.

Nú þarf að koma til langtímaáætlun, studd af þverpólitískri samstöðu, þar sem læknum og hjúkrunarleiði verði tryggð nógu kjör til frambúðar til að stöðva landflóttann og komast hjá hruni.

Rétt eins og menn sáu á sínum tíma að gera þyrfti vegaáætlanir til allt að tíu ára, þarf að gera hið sama í heilbrigðiskerfinu. Annar blasir við hrun þess, sem ekkert þjóðfélag getur verið án á okkar tímum: Hrun heilsunnar.

Afleiðing þess eru ótímabær veikindi og dauði þúsunda manna og landflótti þeirra sem til þess hafa heilsu og atgerfi.

 


mbl.is Liðlega 110 færri læknar en 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband