Fáránleg margföldun skulda oft á tíðum.

Nú munu vera á vel annað þúsund manns við lögfræðinám á Íslandi og það bendir til þess að ungt fólk telji að eftir miklu sé að slægjast á þeim vettvangi.  

Kannski er það vegna þess að í Hruninu sköpuðust ótal ný viðfangsefni við að sinna öllum þeim málaflækjum og málaferlum, sem því fylgdu.

Eitthvað verða þeir að hafa uppur krafsinu, sem farið hafa í langskólanám eins og laganám er, og þess vegna er viðbúið að kostnaðurinn við málarekstur verði mikill.

Þegar um er að ræða smávægileg mál eins og tiltölulega litlar skuldir, verður hlutur lögfræðskrifstofa og innheimtufyrirtækja hlutfallslega mikill, oft himinhár í samanburði við það sem verið er að innheimta.

Ég veit um nýlegt dæmi þar sem skuld upp á rúmlega tíu þúsund krónur var komin upp í 85 þúsund krónur nokkrum mánuðum eftir að hún var komið á borð innheimtufyrirtækis.

Það er að sjálfsögðu fáránleg margföldun skuldar, en skuldarinn er varnarlaus ef engu verður þokað gagnvart innheimtufyrirtækinu.  


mbl.is Sat eftir með aðeins 72 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endilega 14 atkvæði í stað 10.

Eitt einkenni svonefnds kannsellístíls í ræðu og riti á dögum konungsveldis Dana hér á landi var meðal annars það, að flækja og lengja textann, helst með hrúgu af nafnorðum. 

Þessi árátta gengur nú í endurnýjun lífdaga með miklum orðalengingum og sókn í það að hlaða upp nafnorðum.

Lítið dæmi er tengd frétt á mbl.is um fjölgun nýrra fólksbíla.

Raunar er fyrirbærið ekki orðað með þremur stuttum orðum heldur notuð löng orðaruna:

"aukning í nýskráningum fólksbíla."

10 atkvæði.  

í stað þess að segja einfaldlega

"nýjum fólksbílum fjölgar." 

7 atkvæði.  

Þegar komið er lengra inn í fréttina elnar sóttin, til dæmis í þessari setningu:

"Fjöldi bílaleigubíla af heildar nýskráningu er..." 

 - 16 atkvæði - 

í stað þess að segja einfaldlega

"nýskráðir bílaleigubílar eru".

- 11 atkvæði  -  

Og áfram elnar sóttin: 

"Aukning hefur verið í nýskráningum fólksbíla."

-  14 atkvæði - tyrfinn og stirður texti - . 

Í stað þess að segja:

"Nýskráðum fólksbílum hefur fjölgað."

- 10 atkvæði.  

 


mbl.is 58% aukning í nýskráningum fólksbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband