Skilningsleysi á vandanum.

Eins og ævinlega í vinnudeilum er nú hafin umræða um það að ekki megi hækka laun lækna nema eitthvað smávegis, vegna þess fordæmis sem það muni gefa á öðrum sviðum vinnumarkaðarins að kröfum þeirra verði mætt. 

Þetta sýnir skilningsleysi og afneitun á vandanum og þeirri sérstöðu sem læknarnir hafa og allt heilbrigðiskerfið. Alla nýliðun skortir í stéttinni og afleiðingar þess munu verða hinar sömu og þegar nýliðun skortir hjá dýrategundum eða á öðrum sviðum:

Stéttin deyr smá saman út og heilbrigðikerfið hrynur, en forsenda þess að viðhalda byggð í landinu er að heilbrigðiskerfið sé viðunandi.

Eina leiðin til lausnar vandans er að slá því strax föstu með skýrum rökum, að launahækkun lækna og annarra í heilbrigðiskerfinu, sem nú er að fækka vegna öldrunar, af því að margfalt betri kjör bjóðast erlendis, verður að skoða sem undantekningu og alls ekkert fordæmi fyrir aðra.

Því að auðvitað verða læknar og þar með heilbrigðiskerfið engu betur sett, ef launahækkun þar á að fara yfir allan vinnumarkaðinn með starti á víxlhækkunum launa og verðlags.   


mbl.is Helsta áskorun að manna spítalann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í anda Einars Ben?

Einhver lífseigasta þjóðsaga síðustu aldar var um tilraun Einars Benediktssona til að selja Norðurljósin. 

Sagan hefur rifjast upp síðustu ár þegar Norðurljósin eru orðin tugmilljarða króna virði á hverju ári fyrir okkur Íslendinga.

Ef einhver hefið spáð því fyrir þótt ekki sé nema fyrir 15 árum hefði verið hlegið að honum fyrir að láta sér detta í hug "eitthvað annað" en stóriðju.  

Tekjurnar af Norðurljósun um hafa sýnt að verðmæti felast ekki aðeins í því sem hægt er að mæla í tonnum og megavöttum heldur einnig í því sem orkar á huga okkar og auðgar bæði andlegt og líkamlegt líf okkar og vellíðan, - yrði mælt í unaðsstöndum ef menn endilega vilja bregða fjárhagslegum mælikvarða á alla skapaða hluti. 


mbl.is Syngur um norðurljósin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Dana var samofin okkar sögu.

Þættirnir 1864 snerta okkur Íslendinga á margan hátt, ekki síst vegna þess að á þeim tima vorum við hluti af Danaveldi. Stríðið 1864 kom Dönum harkalega niður á jörðina.

Gríðarleg þjóðernishyggja fór um Danmörku eins og glögglega kemur fram í þessum fanta vel gerðu þáttum og svo undarlegt sem það kann að virðast, átti Jóns Sigurðsson mikinn þátt í því með verkum sínum, sem snertu uppruna og menningu bæði Dana, Íslendinga og annarra norræna þjóða.

Leitun mun vera að nokkurs konar nýlenduveldi eins og Danir voru gagnvart Íslendingum, þar sem aðal sjálfstæðishetja hjálendunnar var á kaupi hjá herraþjóðinni og haldið uppi af henni.

Einnig er merkilegt að sjálfstæðisbarátta okkar skyldi ekki kosta neitt mannslíf, og aðstoð Dana við okkur í Móðuharðindunum og afhending handritanna síðar, var einsdæmi í samskiptum þjóða, hvort atriðið á sinni tíð.

Í þáttunum er samning stjórnarskrárinnar 1849 mikið montmál fyrir Dani að vonum, og það snertir okkur Íslendinga, því að okkur var meinað að semja okkar eigin stjórnarskrá á þjóðfundinum 1851 og sitjum enn uppi með stjórnarskrána frá 1849 í öllum megindráttum.

Aðalsmenn danskir voru skyldir til að senda syni sína í herinn fyrir konunginn en í staðinn fengu synirnir ókeypis langskólanám.

Styrjöldin 1864 var mikil blóðtaka fyrir danska aðalinn en íslenski aðallinn, embættismenn, stórbændur og klerkar, fengu ókeypis nám við fyrir syni sína í Kaupmannahöfn, en slapp við það að þurfa að senda syni sína í herinn og láta þá úthella blóði sínu eins og gerðist í hinu hræðilega stríði 1864.

Enn eimir eftir af þessu sérstæða sambandi. Sonur minn fékk sérstaklegan og ríflegan afslátt af skólagjöldum við danskan háskóla á grundvelli hinnar gömlu hefðar, af því að foreldrar hans höfðu verið þegnar Danakonungs sín fyrstu ævi ár.

Tap Dana í stríðinu 1864 kom Íslendingum til góða 1918, þegar Danir urðu að gefa Íslendingum kost á að kjósa um framtíðarskipan sambands landanna til þess að vera samkvæmir sjálfum sér í því að krefjast þess að íbúar í Slésvík fengju líka að kjósa um sína framtíð.  

 

 

 


mbl.is Og þess vegna er danska óskiljanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband