Aðeins tap leiðir í ljós, hvort um sannan meistara er að ræða.

Allir bestu afreksmenn og meistarar (champions) sögunnar hafa einhvern tíma tapað á ferlinum, sumir jafnvel furðu oft. En án taps kemur aldrei í ljós hvað raunverulega býr í þeim besta, vegna þess að ræður úrslitum á mati á honum, hvort og hvernig hann vinnur úr ósigri sínum.

Þegar Muhammad Ali dró sig í hlé hafði hann áður verið afskrifaður þrisvar eftir töp fyrir Frazier, Norton og Leon Spinx, en alltaf komið aftur og afsannað það. Það nægði til að skipa honum á stall sem hinum besta, þótt hann færi síðar sem skugginn af sjálfum sér í bardaga sem hann tapaði.

Grettir laut í lægra haldi fyrir Hallmundi, og Jón Páll var ekki ósigrandi. Nú fyrst á eftir að koma í ljós hvort sannur meistari leynist í Gunnari Nelson. Þess vegna er þessi ósigur mikilvægasti áfanginn á íþróttaferli hans.  


mbl.is Gunnar tapaði fyrir Story
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um að beisla þennan mikla unga kraft.

Rígur milli nemenda M.R. og Verslunarskóla Íslands á sér uppruna frá þeim tíma þegar skammt var á milli skólanna í miðbæ Reykjavíkur á fyrri hluta síðustu aldar. 

Landsmenn hafa séð hann blómstra í heilbrigðri keppni í Gettu betur og hann hefur gefið borgarlífinu lit. 

Margt af því, sem gert hefur verið í nafni hans í gegnum tíðina, hefur sjálfsagt hneykslað ráðsett eldra fólk, og kannski mun nýtt myndband frá einni af myndbandanefndum Versló gera það.

Það er hins vegar ekkert nýtt að hneysklast sé yfir djörfum skotum, sem hafa gengið á milli skólanna.

Þannig fór djarflegt svar eins af bekkjarfélögum mínum í M.R. við spurningunni um menningarlífið í Versló fyrir brjóstið á mörgum þegar það varð opinbert:  "Maður spyr ekki að menningaráhuga í dýragarði."

Sjálfur var ég á stundum glannalegur unglingur sem hristi sem M.R.- ingur og kornungur skemmtikraftur upp í eldra fólki og hneykslaði það, svo sem með óvenju beittri stjórnmálalegri háðsádeilu eða með því að gera grín að vesalings gamla fólkinu. Er einmitt að rifja það upp í hluta af ævisögu sem er efni uppistands með tónlistarívafi í Landnámssetrinu í Borgarnesi um þessar mundir.

Ég hneykslast því ekki yfir myndbandinu sem þessi pistill er tengdur við, því að ég dáist að þeim krafti og hæfileikum, sem þarna eru að fá dálítið glannalega útrás, en gefur bjartsýni til þess að búast miklum afrekum þessa unga fólks í þágu lands og þjóðar og menningar okkar.

Efnistökin og tæknileg útfærsla á myndbandinu gefa fyrirheit um það sem hægt er að búast við af þessu hæfileikamikla, klára og kröftuga fólki í framtíðinni, þegar tekist hefur að beisla þennan mikla kraft og hæfileika sem í því býr, land, þjóð og menninginni til heilla.

Það finnst mér fagnaðarefni.      


mbl.is Sprengja MR í loft upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var kominn tími á Stjörnuna.

Það er ástæða til að óska Stjörnunni til hamingju með fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu karla. 

Ég hef látið þá skoðun í ljósi undanfarin ár að í liðinu í Garðabænum blundaði möguleiki á því að þetta gerðist, - spurningin gæti hins vegar verið hvenær það gerðist.

Það var kominn tími á þessi tímamót sem gera umhugsunina um mótið næsta sumar ennþá skemmtilegri. 

Í knattspyrnu geta smáatriði og heppnisatriði ráðið úrslitum í viðureign tveggja góðra og ósigraðra liða þar sem það er synd að annað þeirra skuli þurfa að lúta í lægra haldi. 

Markstengurnar og dómarinn eru hluti af leikvellinum og þannig reyndist það vera í þessum leik þar sem gæfan og "meistaraheppnin" féllu Stjörnumegin.    


mbl.is Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn er betri en mótherjinn leyfir.

Það var ekki skortur á skoruðum mörkum sem felldi Fram niður úr úrvalsdeild í dag. Liðið skoraði álíka mörg mörk og og jafnvel fleiri en liðin í efri hluta deildarinnar.

Það fékk hins vegar á sig á sig langflest mörk allra. 

Nú er komið í ljós að tapleikur Fram gegn Fjölni um daginn var úrslitaleikurinn fyrir Fram.

Þann leik vann Fjölnir örugglega, endurtók þetta á móti ÍBV nú og sýndi styrk sinn.

Fram sýndi hins vegar í mótinu að geta náð jöfnu eða unnið hvaða lið sem er á góðum degi. En illu heilli gerðist það ekki gegn Fjölni og enginn er betri en mótherjinn leyfir.

Engin ástæða er til að barma sér við fallið. Þegar talað er um "falldraug" Fram fólst hann fyrst og fremst í því hér um árið að liðið bjargaði sér ár eftir ár á ævintýralegan hátt á lokamínútum keppninnar í úrvalsdeildinni og setti í eitt skiptið heimsmet í heppni.

Það má alls ekki fara að trúa á slíkt, heldur er betra að takast strax á við viðfangsefnið, að sigra í hverjum leik fyrir sig.

Ung og efnileg lið hafa áður fallið og komið tvíelfd til leiks næstu tvö árin á eftir,  fyrst árið sem þarf að vinna sig upp og síðan árið, þar sem liðið getur í ljósi góðrar reynslu og úrvinnslu úr góðum efniviði leikmanna látið ljós sitt skína í úrvalsdeildinni.   


mbl.is Reimleikar í Safamýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt, þetta með alkóhólistana ?

Það er ekkert nýtt varðandi álfatrú Íslendinga og meira að segja David Lettrman finnst ekkert óeðlilegt við það. Hitt er nýtt þegar fullyrt er að Íslendingar séu mestu alkóhólistar í heimi, því að Rússar og Frakkar hafa lengi verið taldir vera þar fremstir í flokki eða öllu heldur aftastir á merinni. tEn það er svo sem ekkert nýtt að drykkjuvenjur Íslendingar rugli útlendinga í ríminu.

Á allra fyrstu árum Sjónvarpsins vann þar danskur maður að nafni Finn. Margt skemmilegt datt út úr honum. Honum undraðist drykkjuvenjur Íslendingar og þótti þær tröllslegar þegar þeir "duttu í það" heldur hressilega um hverja helgi og urðu svo oft blindfullir. 

Enn meira hissa var hann á því þegar hann las í blaði einn daginn að væri hér drukkið minna áfengismagn á hvern mann en í öðrum löndum.

Þá varð honum að orði:

"Íslendingar eru skrýtin þjóð. Íslendingar drekka lítið, - en oft, og þá mikið."  

 


mbl.is Íslendingar trúa á álfa og eru alkóhólistar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spólur og snuningsdiskar á undanhaldi?

Spurningin um að spólur og diskar, sem snúast, séu á undanhaldi fyrir "föstum" kortum og minniskubbum, virðist svarað jákvætt um þessar mundir. 

Mjög hratt undanhald hefur verið varðandi kvikmundatökuvélar með spólum, jafnvel þótt gæðin eigi að hafa verið góð og HDV stimpill á vörunnni.

Í staðinn eru komnar vélar með hörðum diskum og kortum.

Enginn endir virðist sjáanlegur í framþróuninni og það sem áður þótti best og flottas er orðið úrelt og stenst ekki síauknar gæðakröfur.

Gallinn við diska og spólur sem snúast eins og til dæmis DVD, DV, HDV, DVCAM og DVCPRO felst í ýmsum erfiðleikum við afspilun og yfirfærslur auk þess sem lítið má út af bregða hvað nákvæmni snertir í flóknum búnaði með legjum og hjólum, þar sem millimetrar eða brot úr millimetrum geta ráðið úrslitum.

Tækniþróunin hefur verið og er enn svo hröð að milljarðar fara i súginn vegna þess hve ört verður að henda tækjum og endurnýja þau.

Ævinlega þegar menn halda að komið sé á endastöð kemu eitthvað nýtt til sögunnar.

Eða muna menn kannski eftir DAT hljóðspólunum á sínum tíma sem áttu að verða framtíðin en urðu úreltar á undra skömmum tíma?  


mbl.is DVD sömu leið og VHS?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband