Drifkraftur óánægjunnar.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart þótt hryðjuverkasamtök af mismunandi toga taki upp samvinnu og baráttuaðferðir og stefna svona samtaka séu villimannleg.

Fyrir um 90 árum náðu fasistar völdum á Ítalíu og leiddu þá þjóð út í miklar hremmingar í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Óánægja almennings í Þýskalandi var næg uppspretta og fóður fyrir hinn skelfilega Adolf Hitler og glæpagengi hans og er kannski eitt besta, eða eigu við að segja versta, - dæmið um það hvert drifkraftur mikillar óánægju getur leitt fólk. 

Drifkraftur óánægju hryðuverkasamtaka og villimannasamtaka í nafni trúarbragða á okkar dögum felst í uppreisn gegn arðráni og misrétti, sem uppreisnarfólkið rekur til hegðunar vestrænna stórvelda mestan part allt aftur til tíma nýlenduveldanna, sem að vísu slepptu tökum sínum á nýlendunum á yfirborðinu, en hafa síðan farið aðrar leiðir til þess að viðhalda óviðunandi heimsástandi sér í hag. 

Náskyld óánægjunni eru hefndarhugur og öfund, og er hefndarhugurinn verri, því að drifkraftur hans getur leitt jafnvel siðað fólk alveg ótrúlega langt, jafnvel til þess að hefna atburða sem gerðust fyrir mörgum öldum.  

 


mbl.is Hryðjuverkasamtök mynda bandalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast menn að.

Mér er enn í minni þegar ég sem barn var að átta mig á eðli þjóðfélagsins. Ég var oft hjá ömmu minni og afa, sem bjuggu í lítilli tveggja herbergja íbúð í Verkamannabústöðunum við Ásvallagötu. 

Aðeins þurfti að ganga smáspöl suður Hofsvallagötu til að vera kominn inn i braggahverfi Kamp Knox, þar sem þeir sem minnst máttu sín í þjóðfélaginu bjuggu í húsnæði, sem ná á tímum myndu vera kölluð óíbúðarhæf hreysi. 

Í útvarpi söng Elsa Sigfúss ljóð Davíðs Stefánssonar um hlutskipti sumra í braggahverfunum, um verkamannsins kofa, þar sem bæri að lofa "dagsins þreytta barni að sofa", þar sem byggju hetjur bak við lágar dyr, þar sem "hin sjúka móðir brosti í gegnum tárin" og "börnin fá mat, en foreldrarnir svelta". 

Við Ásvallagötu bjó Þórarinn hafnarverkamaður í litlu koti, sem hét Melur, og hafði örfáar kindur þar á smábletti. 

Ofar við Hofsvallagötu voru einhver dýrustu og flottustu íbúðarhús landsins, hús manna, sem börðust fyrir félagshyggju, samvinnu og samhjálp. 

Þetta voru þeir Jónas frá Hriflu og Vilhjálmur Þór. Einkum var hús hins síðarnefnda glæsilegt, svo flott að margir kölluðu það lúxusvillu á þeirri tíð. 

Vestar við Ásvallagötu bjó Eysteinn Jónsson, einn af forystumönnum og síðar formaður flokks þessara manna, og barst lítt á í snotru og íburðarlitlu húsi, sem var smáhýsi miðað við hús hinna tveggja. 

Eysteinn virtist hugsa líkt og Warren Buffet um gildi þess, sem ekki verður metið til fjár, og lifði persónulega í samræmi við hugsjónir sínar um hófsemi. 

Kynni mín við þann mann á ferðalögum um landið voru einstaklega ánægjuleg að öllu leyti. 


mbl.is Einn ríkasti maðurinn hefur búið í sama húsinu síðan 1958
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband