"Hratt kólnandi veðurfar..."!

Þessa dagana hafa verið að birtast pistlar á netinu pistlar manna, sem ég hef kosið að kalla "kuldatrúarmenn" þess efnis að óyggjandi rannsóknargögn og staðreyndir sýnir að loftslag á jörðinni fari alls ekki hlýnandi heldur kólnandi. 

Með því einu að breyta hlýnun,sem er eindregin niðurstaða hjá Sameinuðu þjóðunum, í kólnun virðast kuldatrúarmenn telja nauðsynlegt að snúa vörn í sókn. Hafa greinilega ekki talið nógu sterk rök, sem þeir héldu fram í fyrra, að ef janúar og febrúar hefðu verið teknir út úr útreikningi á meðaltalshita ársins 2013 á Íslandi hefði það ár verið kaldasta árið á þessari öld. 

Nei, nú er greinilegt að þeir láta ekki þar við sitja enda þyrftu þeir að krefjast þess að margir mánuðir þessa árs yrðu teknir út úr útreikningi meðalhitans til þess að þetta ár á Íslandi yrði viðurkennt sem ár kólnunar .

Þeir fullyrða nú að veðurfar á jörðinni fari ekki einasta kólnandi heldur segja þeir fullum fetum: "Það kólnar hratt"! 

Eitt af því sem þeir nefna eru vetrarhörkur í Norður-Ameríku í fyrravetur og má nærri geta hve núverandi vetrarríki þar er þeim kært, ekki hvað síst hið gríðarlega fannfergi í Buffalo.

Í veðurfréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld var sýnt hvernig það eru óvenjulega harðvítug átök kalds heimskautalofts, sem streymir fyrirstöðulaust suður yfir sléttlendi meginlands Norður-Ameríku, við rakt og hlýrra loft yfir Vötnunum miklu, sem veldur hinni miklu snjókomu.

Í öllum skýrslum vísindasamfélagsins um loftslagsbreytingar er þess getið að hlýnun lofthjúps jarðar valdi auknum átökum og öfgum í veðurfari.

Þótt þessi átök geti valdið tímabundnum eða staðbundnum "vetrarhörkum" er það meðaltal hita lofthjúps allrar jarðarinnar sem skiptir máli en ekki staðbundnar sveiflur og öfgar.

Þetta virðast kuldatrúarmenn alls ekki geta skilið eða þá að þrjóskan í málflutningi þeirra er svo mikil að þeir loka augunum fyrir því. 

Þeir skauta einnig fram hjá því að mikil snjókoma þarf ekki að vera dæmi um mikinn kulda. 

Sem dæmi má nefna svæði, þar sem meðalfrost yfir háveturinn er 6-10 stig. Þar getur snjóað gríðarlega mikið í miklu hlýrra veðri, eða í 0-3ja stiga frosti. 

Dæmi um þetta eru mikil og aukin snjóalög á Harðangursheiði yfir háveturinn eftir að meðalhitastig ársins hækkaði. 

En það voraði fyrr en áður, sumrin voru hlýrri og votviðrasamari og það haustaði síðar, og þetta varð til þess að jöklarnir í Noregi svo sem Folgefonn, Harðangursjökull, Jóstadalsjökull og Svartisen, uxu ekki, heldur minnkuðu. 

Það finnst mér undravert, hvernig jafn vel menntaðir og fróðir, sem margir kuldatrúarmannanna eru, flestir miklir ágætismenn, hvernig þeir geta barið hausnum við steininn í þessu máli.

Með fullyrðingum sínum um að loftslag fari hratt kólnandi eru þeir reyndar orðnir að fágætum heittrúarmönnum.   

 

 


mbl.is Hlýnunin gæti valdið kuldakasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áherslan loks á heitasta svæði landsins.

Skipulag nýrrar Vogabyggðar getur orðið umdeilt eins og allar framkvæmdir, þar sem menn hafa mismunandi sjónarmið og mismunandi smekk. 

En eitt atriði ætti að vera óumdeilt. Skammt sunnan við hið nýja hverfi eru langstærstu krossgötur landsins.

Annars vegar liggja um þessar krossgötur leiðirnar frá Vestfjörðum og Norðurlandi í gegnum höfuðborgarsvæðið til Suðurnesja - og öfugt, - og hins vegar leiðin frá Austur- Suðausturlandi og Suðurlandi í gegnum sömu krossgötur allt út á Seltjarnarnes. 

Allar raunverulegar krossgötur soga til sín byggð með verslun og þjónustu og mynda "heitt svæði" sem í þessu tilfelli nær frá Ártúnshöfða um Mjódd og Smárahverfið í Kópavogi. 

Ný Vogabyggð yrði hluti af þessu komandi miðjusvæði.

Mikilvægt er að standa vel að frárennsli frá hinni óhjákvæmilegu vaxandi byggð við Elliðavog svo að tryggt sé að lífríki Elliðaánna sé ekki ógnað. 

Aðrar spurningar um eðli hverfisins og skipulag munu væntanlega verða efni í umfjöllun og skoðanaskipti sem nauðsynlegt er að leiði til farsællar lausnar.

Austan við voginn bíður síðan enn mikilvægara svæði þess að vera tekið til rækilegrar meðferðar, en það er Ártúnshöfðahverfið, sem býður upp á gríðarlega möguleika til endurskipulagningar og uppbyggingar.

Það hlýtur að koma að því að stórfellt malarnám og steypustöð víki á svona dýrmætu svæði nálægt raunverulegum þyngdarpunkti höfuðborgarsvæðisins.

Malarnámið og steypustöðin hafa vafalaust risið á afar heppilegu svæði til slíkrar starfsemi sem erfitt kann að vera að endurnýja á jafn góðum stað.

En sjáið þið fyrir ykkur slíkt nálægt helstu krossgötum í umferð Lundúnaborgar, Kaupmannahafnar eða annarra erlendra borga, sem risið hafa á krossgötum?  

 


mbl.is 100 milljarðar í nýtt hverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara að þeir leiti annað, - þeir eldast og hætta samt.

Þegar rætt er um að vaxandi hætta sé á að íslenskir læknar, sem útskrifast hér heima eða vinna hér heima, gleymist að geta þess, að alla nýliðun skortir, þannig að jafnvel þótt enginn núverandi starfandi læknir leiti til útlanda, eldast þeir um einu ári eldri á hverju ári og falla síðan vegna öldrunar úr vinnu.

Ef rétt er, að meðalaldur lækna sé um 55 ár, eiga þeir að meðaltali ekki eftir nema í mesta lagi 13-15 ár eftir í starfi.

Það þýðir að innan tiltölulega fárra ára verður fækkun þeirra orðin ígildi hruns.

Það er bara einfaldlega þannig.    


mbl.is Hrýs hugur við ástandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband