Akureyringar skjóta Reykvíkingum ref fyrir rass.

Í Vatnsmýri fór fram fyrsta flug á Íslandi 1919. Þar ákvað bæjarstjórn rétt fyrir stríðið að gera skyldi aðalflugvöll landsins, gerð var teikning og hafin gerð flugbrauta.

Þar gerðu Bretar stóran flugvöll sem þeir gáfu Íslendingum eftir stríðið með öllum mannvirkjum hans.

Eðlilegt hefði verið að þarna hefði risið Flugsafn Íslands, gert hefði verið veglegt minnismerki á þeim stað, þar sem fyrst var flogið, varðveitt mannvirki svo sem valdir braggar, gamli flugturninn og vígin í Öskjuhlíðinni og flugsafnið verið hluti af stóru stríðsminjasafni í stíl við söfn erlendis svo sem í Noregi og Englandi.

Myndarlegt safn og vel varðveittar minjar hefðu dregið að sér þúsundir erlendra ferðamanna eins og títt er um svipuð söfn og minjar erlendis. 

 

Af einhverjum ástæðum bar starf áhugamanna um þetta ekki ávöxt, því miður, hér í Reykjavík. Miklu réði vafalaust undarlegt tómlæti samborgara minna um flugið og jafnvel andúð margra á fluginu og flugvellinum, skilningsleysi á hinni merku flugsögu, stríðssögu, flugminjum og stríðsminjum.

Mikil verðmæti og minjar hafa farið forgörðum að óþörfu. 

Á Akureyri hefur hins vegar ávallt verið gott andrúmsloft, velvild og flugáhugi meðal bæjarbúa gagnvart fluginu og flugvellinum þar. Þar á ég marga af mínum bestu flugvinum, svo sem Arngrím Jóhannsson, sem þar hefur gert flugsafnið að lífshugsjón sinni og notið samtakamáttar flugáhugamanna á staðnum og verið fremstur meðal jafningja um hið merka björgunarstarf.

Akureyringar hafa gert okkur Reykvíkingum skömm til með því að bjarga því sem bjargað varð. 

Fyrir sína miklu elju og ræktarsemi eiga Arngrímur og allir hans samherjar á Akureyri miklar þakkir skildar og héðan að sunnan eru þeim sendar árnaðaróskir í tilefni 60 ára afmælis Akureyrarflugvallar, sem þeir halda auðvitað upp á á veglegan hátt. 

 


mbl.is Flugsagan kristallast á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðfangsefnin vaxa hraðar en fjárveitingarnar.

Þjóðin eldist hratt. Barnsfæðingum hefur fækkað síðustu áratugi en risastóriri árgangar frá stríðsárunum og öðrum uppgangsárum á síðari hluta 20. aldar eru nú að koma inn í raðir aldraðra og eftirlaunaþega í stórum skömmtum. 

Æ færri eru á besta vinnualdri og við bestu heilsu en æ fleiri eru sama marki brenndir og gamlir bílar, það er, að bilanatíðnin vex. Ekki bæta úr skák afleiðingar offitu og reykinga sem koma fram á efri árum.

Viðfangsefni heilbrigðiskerfisins vaxa mun hraðar en fjárveitingarnar til þess og þeim, sem eiga að borga brúsann fækkar hlutfallslega.

Allt tal um "mestu fjárframlög til LSH frá 2008" er byggt á algeru skilingsleysi á eðli málsins.

Auk þess eldast húsnæði og tækjakostur líkt og sjúklingarnir og kalla á alveg sérstök útgjöld, því að við Íslendingar virðumst eiga afar erfitt með að skilja það að það er ekki nóg að reisa hús og kaupa búnað og tæki, það verður líka að huga að viðhaldinu.

Bjarni Benediktsson var varla búinn að sleppa orðinu um "hæstu fjárframlög" þegar Sigmundur Davið segir það sama.

Það er ekki gott þegar oddvitar þjóðarinnar virðast ekki hafa kynnt sér þær staðreyndir, sem um allan heim er verið að skoða og draga ályktanir af.    


mbl.is Mestu fjárframlög til LSH frá 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleg atorka og frumkvæði skapa verðmæti.

"Hraust sál í heilbrigðum líkama!" er gamalkunnugt kjörorð. Algengt er hins vegar hjá þeim, sem lítið þekkja til, að tala niður til íþrótta á þeim forsendum sem þeir gefa sér, að árangur í þeim sé aðeins að þakka hráum meðfæddum líkamlegum hæfileikum og að andlegt atgerfi sé þar víðs fjarri. 

"Hann er með vitið í vöðvunum" var einhvern tíma sagt. 

Þegar keppni í rallakstri var að slíta barnsskónum hér á landi heyrði maður glósur eins og: "Það er nú ekki mikill vandi að sitja kyrr á rassinum og dútla við að stýra bíl. Það getur hver sem er stundað slíka kyrrsetuíþrótt. 

Það kom mér hins vegar á óvart þegar keppt var í þessari grein hve mikið líkamlegt álag fylgdi henni.

Maður var kófsveittur eftir hverja sérleið og varð að vara sig á vökvatapi þegar leið á keppnisdagana.

Á þeim tíma voru ekki vökvastýri í keppnisbílum og í lengri röllunum varð að hafa hanska á höndum, því að annars slitu átökin við stýrið upp skinnið í lófunum, svo að blæddi úr.

Gagnrýnendur litu hins vegar á hanskana sem tepruskap og dæmi um "vettlingatök".  

Þegar ég sá í fyrsta sinn mynd tekna beint framan á bílinn undraðist ég hve sviptingarnar við að stýra voru samfelldar og miklar. Í hita leiksins tók maður ekkert eftir því.

Það þarf að sönnu líkamlega burði til að vera góður handboltamaður, en ekkert lið og enginn keppnismaður kemst áfram á því einu.

Íslensku handboltaþjálfararnir, sem hafa vakið athygli fyrir gott gengi erlendis, voru sjálfir landsliðsmenn á sínum tíma og líkamlega öflugir.

En það skipti engu ef leikskipulag, útsjónarsemi, aðlögunarhæfni og tæknileg atriði voru ekki öll í hæsta gæðaflokki.

Og starf þjálfaranna byggist eingöngu á mikilli andlegri vinnu og skýrri og klárri hugsun.

Velgengi þeirra er því gott dæmi um það hvað frumkvæði, andleg atorka og vísindaleg hugsun geta skilað mönnum og heilum þjóðum langt þegar lögð er áhersla á þessi atriði.

Einn besti listflugmaður heims, Sean Tucker, lítur út eins og vaxtarræktarmaður. Hann eyðir drjúgum tíma í líkamsræktarstöð á hverjum degi til þess að halda sér í hámarks líkamlegu formi til að framkvæma ótrúlega vandasöm, nákvæm og snilldarleg listflugsatriði.

Hann er eitt af fjölmörgum dæmum um gildi þess að það fari saman að heilbrigð sál sé í hraustum líkama.  


mbl.is Af hverju eru þeir eftirsóttir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingagjöf líkt við hatur.

Forsætisráðherra okkar talar um að læra af lekamálinu. Erlend samtök fréttamanna hafa metið það svo að íslensk fjölmiðlun sé að veiklast í því að sinna höfuðskyldu sinni að upplýsa um mikilvæg mál. 

En forsætisráðherra kemst að þveröfugri niðurstöðu, sem sé þeirri að slík viðleitni séu verk hins illa, haturs og ofsókna, gengið hafi verið fram af mikilli grimmd og að slíku eigi að linna.

Það er kallað "grimmd" að blaðamennirnir, sem ekki létu bugast fyrir þrýstingi um að hætta að fjalla um málið, skyldu halda áfram að kanna það og upplýsa.  

Af slíku hátterni telur forsætisráðherra að þjóðin og einkum fjölmiðlarnir eigi að læra, því að þeir komi illa, grimmilega og jafnvel ódrengilega fram við ráðamenn og beiti meira að segja lygum.  

Sérkennilegt að tala aðeins um lygar í fjölmiðlum um mál, þar sem málsaðilar sjálfir hafa orðið margsaga og einn þeirra heldur meira segja áfram að verða tvísaga eftir að hafa hlotið dóm.  

Hins vegar minnist forsætisráðherra ekki á það að ráðamenn og embættismenn þurfi að læra neitt af málinu, það virðist vera alger óþarfi í hans augum, ja, - nema þá auðvitað stjórnarandstöðuþingmennirnir. 

Þjóðin og fjölmiðlarnir eigi ekki að fjalla um svona neikvæð mál heldur allt hið jákvæða og uppbyggilega, sem verið sé að gera. 

Hann Birna talaði í vor um "ljótan pólitískan leik". En þegar hún segir af sér segist hún gera það af persónulegum ástæðum, ekki af pólitískum ástæðum.

Og samkvæmt ummælum forsætisráðherra er það vegna þess að það voru svo margir vondir við hana. 

Hanna Birna er að vísu ekki öfundsverð að hafa lent í svona langvinnu og erfiðu máli, sem hún sjálf og aðrir málsaðilar áttu þó mestan þátt í að framlengja með undanbrögðum og vandræðagangi.

Vonandi mun hún jafna sig og nýta hæfileika sína og dugnað til góðra verka í framtíðinni.

En fyrst verða hún og þeir ráðamenn sem lifa í þeim hugarheimi sem ummæli forsætisráðherra lýsir, að ná áttum í þessu máli og líta í eigin barm eins og erlendir ráðamenn gera oft.

Óskandi væri að slíkt gerist þegar rykið hefur sest.

Að þessu sögðu er sjálfsagt að huga að því að við fjölmiðlamenn dettum ekki í þann pott að telja okkur óskeikula, heldur nálgast hið mikilvæga hlutverk upplýsendanna af virðingu og auðmýkt ekkert síður en af hugrekki og réttlætiskennd. 

Bendi að lokum á ágætan pistil Jóns Þórs Ólafssonar um það hvernig svipað mál í Nýja-Sjálandi var höndlað af þarlendum forsætisráðherra.    


mbl.is Þjóðin læri af lekamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband