Þakklæti fyrir minningar úr þessu húsi.

Sjallinn skipar stórt hlutverk í hjörtum margra Íslendinga og ég er einn af þeim. Ekki hef ég tölu um þau hundruð skipta sem ég kom fram í þessu mesta skemmtanahúsi landsbyggðarinar, en í þessu húsi kviknaði einhver ólýsanleg stemning sem vekur þakklæti fyrir það að þetta hús skyldi vera til. 

Það skipti ekki máli hvort um var að ræða árshátíðir og aðrar tilfallandi samkomur eða héraðsmót og síðar Sumargleði, alltaf stóðu Sjallinn og samkomugestirnir þar fyrir sínu. 

Þarna var jafnan tilhlökkunarefni að njóta krafta akureyrsku píónósnillinganna Hauks Heiðars Ingólfssonar og Ingimars Eydals, sem þróuðu spilatækni, sem fékk heitið "Skálm", en það vísaði til þess hve listilega þessir píanóleikarinar notuðu vinstri hendina til þess að koma í stað bassa og fleiri hljóðfæra, þegar þau voru ekki tiltæk, og gerðu þar með píanóið að ígildi heillar hljómsveitar. 

Hápunktur minninganna eru þó aldarfjórðungsskemmtanirnar svonefndu, sem ég hélt þarna veturinn 1984-85 til að kvitta fyrir 25 ára feril sem skemmtikraftur. 

Þær urðu alls 17 fyrir fullu húsi, og tóku 3 klukkustundir og 40 mínútur hver! 

Með mér að sunnan komu Hemmi Gunn og Ragnar Bjarnason, Hemmi sem kynnir og Ragnar sem sönggestur, en að öðru leyti sá hljómsveit Ingimars með söngkonunni Ingu Eydal um að aðstoða mig við þetta ljúfa verkefni. 

Þessi skemmtun varð meira en klukkustund lengri en samsvarandi skemmtun í Reykjavík eingöngu vegna framlags samkomugesta sem gerðu þetta mögulegt. 

Ég kveð því Sjallann með söknuði og djúpu þakklæti fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem hann gaf mér og öðrum.  


mbl.is Mætir með Helenustokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef önnur bæjarfélög fara í þetta tryllta far, hvað þá?

Bæjarstjóri Garðabæjar telur eðlilegt og æskilegt að íbúatalan þar í bæ tvöfaldist þar á 15 næstu árum og verði um 30 þúsund árið 2030. Hann felur tryllingslega hugmynd sína inni í fullyrðingu um að þetta sé langur tími.

En þetta er ekki lengri tími en svo, að menn hefðu árið 2000 talið eðlilegt og æskilegt að fólksfjöldi tvöfaldaðist í bæjarfélögum á borð við Garðabæ fram til 2015.

Ef þetta er talið æskilegt og eðlilegt vaknar spurningin um það hvort hið sama hljóti ekki eiga við um Mosfellsbæ, Hafnarfjörð og Kópavog.

Það myndi þýða að vinna þyrfti að því öllum árum að fjölga samanlagt íbúum Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Kópavogs um 76 þúsund þúsund manns á 15 árum, og samt yrði engin fjölgun í Reykjavík ! Hvaðan ætti allt þetta fólk að koma? 

Gunnar reynir að fela eðli málsins í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar með því að segja að bæjarfélög eigi helst ekki að verða stærri en 30-40 þúsund.  

En jafnvel þótt það ætti að gilda myndi það þýða að æskilegt væri að engin fjölgun yrði í Reykjavík, en ef Mosfellsbær og Hafnarfjörður ættu að stækka upp í 30 þúsund manns hvert eins og Garðabær yrði fjölgunin samt meira en 40 þúsund manns samtals í þessum bæjarfélögum á aðeins 15 árum!  

Stórveldishugmyndir Gunnars eru í takt við það sem bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ hefur "afrekað" hingað til, að fá Alþingismenn til að samþykkja einungis lagningu nýs Álftanesvegar á sama tíma og engin vegaframkvæmd í Reykjavík verður leyfð fram til 2020 á hliðstæðum vegarköflum, sem eru bæði með miklu meiri umferð og miklu hærri slysatíðni en Álftanesvegur.

Ef öll hin bæjarfélögin hefðu átt að fá það sama í sinn hlut og Garðabær í vegagerð hefði verið um minnst fimm stórframkvæmdir að ræða sem ætlaðar væru vegna íbúafjölgunar upp á alls 100 þúsund manns! 

Það er út af fyrir sig eðlilegt að Garðabæjarmeirihlutinn haldi áfram að gera jafn fáránlegar kröfur og skína út úr trylltum stórveldishugmyndum hans. Hingað til hefur hann komist upp með hluti sem sýna hve firrtir menn geta orðið eftir margra áratuga völd, sem hafa staðið látlaust síðan Garðabær byrjaði að byggjast upp.

Það er dæmigert fyrir stórveldisfirringu að blása upp útþenslu í fyrirhruns stíl.   

Við siglum nú inn í öld þar sem talað er um nauðsyn þess þétta byggð og gera hana hagkvæmari gagnvart samgöngum. Við okkar aðstæður er að vísu rétt að fara þar með ákveðinni gát og huga að raunverulegum möguleikum til þess á réttum stöðum og svæðum. Í því efni hef ég sett fram ákveðna gagnrýni á sum atriði þeirrar stefnu hjá Reykjavíkurborg, svo sem að leggja flugvöllinn niður.  

Þegar litið er á höfuðborgarsvæðið í heild blasir við að þetta miðjusvæði í landsamgöngum er í kringum stærstu krossgötur landsins á svæðinu Ártúnshöfði - Árbær -Elliðaárvogur - Skemmuhverfið- Mjódd-Smárinn.

En í keisaraveldinu í Garðabæ eru uppi hugmyndir í stíl við óframkvæmdar loftkastalahugmyndir 2007 og frekjuhugmyndirnar sem skína út úr gerð Álftanesvegar og fyrirhugaða tvöföldun fólksfjöldans þar á 15 árum hafa meira að segja sótt magnast.

Menn hafa greinilega ekkert lært af Hruninu og sápukúluþenslunni fram til 2008.

Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu kröfu um að tvöfalda íbúatölu sína á 15 ára fresti, myndi íbúafjöldinn bara hér á þessu svæði verða orðinn 6,4 milljónir á þessari öld !  

 

 


mbl.is 175 milljarða uppbygging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laga nám og starf að sólargangi !

Í bloggpistli í gær hér á síðunni í fyrradag var fjallað um að laga starf í skólum og á vinnustöðum að sólarganginum í stað þess að fara inn í gamla hvimleiða hringlið með klukkuna með vetrartíma og sumartíma.

Nú er verið að gera tilraun með það í Ingunnarskóla og Hagaskóla að seinka byrjun skólastarfsins í skammdeginu og hefur það gefist vel. 

Ef þetta verður almennt gert, er hægt að nota svona sveigjanleika bæði hvort sem klukkan verði á sama stað og nú eða henni seinkað allt árið um klukkustund. 

Jafnvel þótt klukkunni verði seinkað verður hádegi sólargangsins ekki fyrr en í kringum klukkan hálfeitt. 

Þegar dagurinn er orðinn lengri seint í febrúar eða byrjun mars, er hægt að flýta starfi og námi, svo sólin nýtist betur utandyra síðdegis, þegar sólskin er að á annað borð. 


mbl.is Líkar vel að mæta seinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband