Mera en 80 þúsund manns muna líka eftir þessu.

Það er oft skemmtilegt hvernig yngri kynslóðin metur reynslu og þekkingu hinna eldri. 

Því finnst til dæmis oft merkilegt hvernig ýmsu var háttað fyrir þann tíma sem þau muna sjálf eftir og að það fólk, sem man lengra aftur, sé orðið að einhvers konar fornmönnum. 

1968 voru um 150 þúsund manns lifandi á Íslandi. Af þeim voru í mesta lagi 40 þúsund undir fermingu og afgangurinn, um 100 þúsund manns, því kominn á þann aldur að þeir upplifðu helstu atburði ársins.

Vegna þess að meðalaldur Íslendinga er um 80 ár er vart við því að búast að meira en 20 þúsund af þessum 100 þúsund hafi látist eða misst minnið eftir 1968.

Það er því ekki stór frétt að einhver sem var uppi á Íslandi fyrir 46 árum muni eftir helstu atburðum þess árs eins og tveimur breytingum í grundvallarvenjum á Íslandi, að skipta úr vinstri umferð í hægri umferð og hætta "hringlinu með klukkuna."    


mbl.is Man þegar sumartíminn var festur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju velti bíllinn?

"Augljóst var að sumir bílarnir áttu erfitt með að festa grip á veginum og einn velti..."

Stundum má deila um hvort sumar svonefndar málvillur séu svo slæmar. Stundum ráða íhaldssemi og smekkur för.  

Hitt ætti að vera ljóst að þegar málvilla er líka rökvilla sé varla hægt að mæla henni bót. 

Það á við þau orð í ofangreindri tilvitnaðri setningu úr tengdri frétt á mbl.is: 

"Einn (bíll) velti..."

Spurningin er: Hverju velti bíllinn? Ökumanninum? Sjálfum sér? 

Eða hvernig líst mönnum á setninguna: "Eitt skip sökkti..."? 

Einfaldast hefði verið að segja í tilvitnaðri frétt: "..og einn (bíll) valt.."

Í þessum orðum um bílinn, sem velti sjálfum sér, speglast sú tihneiging fjölmiðlafólks að láta fjöll, skörð, hús og ýmislegt fleira vera gerendur í frásögnum.  

Dæmi: "Hlíðarfjall opnaði."  "Oddsskarð opnaði." "Húsið opnaði.."

 


mbl.is Velti bílnum á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldishlaðin fjölgun og veitir ekki af.

Sú var tíðin að langur tími, jafnvel ár, liðu á milli þess sem nýjar gerðir rafbíla eða eitthvað nýtt gerðist á þeim örlitla markaði.

Síðustu misseri hefur orðið veldishlaðin fjölgun rafbíla bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, bæði hvað snertir framboð á bílum og sölu.

Samt er salan enn ekki nema lítið brot af þeim tugum milljóna bíla, sem eru framleiddir árlega í heiminum.

Ekki þarf annað en líta á það sem hefur verið kynnt allra síðustu dagana, e-Golf, Kia Soul og Renault Zoe, til að sjá hve mikil breyting hefur orðið á þessum bílum frá því sem áður var, bæði tæknilega og ekki síst útlitslega.

Fyrstu árin voru rafbílarnir oft sérkennilegir í útliti og rafgeymarnir og vélbúnaðurinn tóku mikið rými, sem bitnaði bæði á farangursrými og rými fyrir farþega.  

Tesla rafbílarnir jörðuðu endanlega þessa ímynd og nýjustu bílarnir líta þannig út að engin leið er nema fyrir sérfræðinga að sjá mun á þeim og venjulegum bílum, og gildir það jafnt um innanrými og útlit.

Þetta á til dæmis við um Kia Soul og e-Golf, en kannski er Renault Zoe besta dæmið um það hve fallegir þessir bílar geta verið. Ætlal að skutla mynd af honum inn á faceboo síðu mína á eftir.

Nú fer fram vinna við stefnumótum í rafbílamálum í kjölfar heimsóknar norsks sérfræðings um þau mál hingað til lands og yfirlýsinga forsætisráðherra á ráðstefnunni, sem þessi norski sérfræðingur talaði á.  


mbl.is Með 58% hlutdeild í rafbílamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhríð í Reykjavík um áttaleytið. Beint frá Norðurpólnum.

Sjá má á vedur.is að veður í Reykjavík var orðið mun verra nú klukkan átta en það hafði verið í nótt, rakastigið óð upp í 91% og vaxandi vindur. Þreifandi bylur.  

Á "beinu útsendingunni" af veðrinum má sjá að þetta kalda, raka loft, er komið rakleiðis frá Norðurpólnum, stystu leið á hámarks hraða og síðari hluta leiðarinnar yfir rakan sjó, sem er hlýrri en hann var áður. 

Það, hve mikill hluti leiðarinnar liggur yfir sjó, stærri en var þegar ísbreiðan var meiri á árum áður, skýrir hvers vegna það er blindþreifandi snjókoma í þessu veðri. 

"Kuldatrúarmenn" halda að aukin snjókoma, eins og til dæmis metsnjókoman í Buffalo í Bandaríkjunum, stafi af því að lofthjúpur jarðar fari "hratt kólnandi" á sama tíma og stefnir í það að árið 2014 verði það heitasta að meðaltali á jörðinni frá upphafi mælinga. 

En snjókoman er fyrst og fremst merki um meiri úrkomu, ekki meiri kulda, og vaxandi fjöldi fárviðra merki um aukin átök milli heits og kalds lofts vegna hlýnunarinnnar. 

Því að í skammdeginu er myrkur á Norðurpólsvæðinu allan sólarhringinn vikum og mánuðum saman og þar með sami efniviður þar í hefðbundinn vetrarkulda og ævinlega. 


mbl.is Búið að loka Þrengslunum líka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband