Flóknari, - en líka fjölhæfari en venjulegir bílar.

Það er mikil og óhjákvæmleg gerjun í bílasmíði í heiminum um þessar mundir. Bílaframleiðendur eru eðlilega tregir til að fara út á nýjar brautir í notkun orkugjafa vegna kostnaðar og fyrirhafnar.

En smám saman er að renna upp fyrir mönnum hinn napri veruleiki 21. aldarinnar að auðlindir jarðarinnar eru það takmarkaðar að stefnir í mesta bakslag allra tíma í kjörum jarðarbúa ef ekkert verður að gert.

Fyrsta kynslóð rafbíla hafði ýmsa ókosti, fyrirferðarmikla og þunga rafgeyma, sem langan tíma tók að hlaða og gáfu bílunum svo stutt drægi að þeir nýttust ekki nema í borgarnotkun.

Fátt er ömurlegra en að vera á bíl sem verður orkulaus og orðinn að ígildi bilaðs bíls.

Auk þess skorti innviði í formi hleðslustöðva og þjónustu fyrir rafbíla. 

Fyrsta kynslóð tvinnbíla hafði þann ókost að vera með mun flóknari, þyngri og dýrari vélbúnað en venjulegir bílar og vera lítið sparneytnari en dísilbílar af svipaðri stærð.

Merkilegt má telja hve langan tíma tók að þróa tvinnbíla, þar sem hægt væri að hlaða rafgeymana án þess að nota afl bensín- eða dísilhreyfils bílsins við það.

Nú eru þeir að ryðja sér til rúms með síbatnandi rafgeymum, léttari og langdrægari, sem og kerfi hraðhleðslustöðva, sem nýta nýja tækni til að hlaða rafgeymana á innan við klukkustund.Chevrolet Volt

Með notkun hraðhleðslustöðva er hægt að komast nærri því á nýjustu tvinnbílunum að aka innanbæjar á rafmagninu nær eingöngu og komast jafnframt allra ferða sinna úti á landi. 

Ný geymatækni hefur líka gagnast rafbílunum sjálfum sem hafa áfram þann kost fram yfir tvinnbíla að vera með mun einfaldari og ódýrari vélbúnað en bensín- eða dísilbílar og þar með minna viðhald í viðbót við tífalt minni orkukostnað miðað við venjulega bensínbíla.

Nú er byrjað að sækja að dísilbílum vegna aukinna krafna um mengun úr útblæstri þeirra, og þar að auki hafa bensínbílar orðið sparneytnari en áður var hin síðari ár með tilkomu nýrrar forþjöppu- og innspýtingartæknki.

Þetta mun ýta undir framþróun í gerð rafbíla tvinnbíla með hraðhleðslumöguleikum.

Fróðlegt verður líka að sjá hvað kemur út úr vetnisvæðingunni, sem Toyota ætlar að skoða.   


mbl.is Þýskir halla sér að tvinnbílatækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjart yfir þessum manni.

Ég kynntist Tómasi Árnasyni í Lionsklúbbnum Ægi og þau kynni voru gefandi og góð. Þrátt fyrir annir í krefjandi embættum, sem hann gengdi, gaf hann sér ævinlega tíma til að sinna félagsstarfinu í klúbbnum og vinna að líknarmálum klúbbsins á Sólheimum í Grímsnesi.  

Hann hafði afar jákvæða og þægilega útgeislun, húmorinn var ávallt með í för, var hvers manns hugljúfi og afar vinsæll meðal félagsmanna í klúbbnum og vistmanna á Sólheimum.

Skemmtiatriði hans á hinum árlegu litlu jólum á Sólheimum, sem fólust í græskulausum töfrabrögðum, voru í minnum höfð því að hann tók sjálfan sig aldrei of hátíðlega og umgekkst alla sem jafningja.

Slíkt er ekki öllum gefið. 

 Það er því bjart yfir minningum mínum um Tómas Árnason og ég sendi ættingjum hans, vinum og vandamönnum einlægar samúðarkveðjur.   


mbl.is Andlát: Tómas Árnason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum reynast "rangar ákvarðanir" réttar.

Sumar ákvarðanir í lífinu virðist ómögulegt að taka af skynsemi, hvað þá ef umhugsunartíminn er nánast enginn. Fyrir rúmri hálfri öld tók ég ákvörðun á sekúndubroti sem var kolröng miðað við þær aðstæður sem virtust blasa við. NSU Prinz R-10804

Skammt austan við Reykjavík kom ég á minnsta bíl landsins á mikilli ferð á leið til borgarinnar að breiðri brú yfir lítinn læk skammt vestan við Grafarholt, og var brúin á að giska 10 metra löng. 

Ég ók á móti sígandi kvöldsól og á undan mér var amerískur fólksbíll á löturhægri ferð, en rými virtist feyki nóg til að fara fram úr honum á þessari breiðu brú, sem var með um það bil 40 sentimetra háa steinkanta sitt hvorum megin í stað járnhandriða. 

Allt í einu byrjaði bíllinn fyrir framan mig að beygja í veg fyrir mig og síðar sagði ökumaðurinn mér að hann hefði blindast af sólinni.

Ég var á miklu meiri hraða en hann og svo stutt var á milli okkar að útilokað var að hemla, heldur stóð valið um það að reyna að komast framhjá bílnum framundan í gegnum hratt minnkandi opið á milli hans og steinkantsins.Chevrolet 55

Á allra síðusta sekúndubroti var ljóst að bilið yrði of mjótt og að valið stæði um að lenda á bílnum sem ég var að fara fram úr eða á steinhandriðinu.

Enginn tími var til minnstu vangaveltna og steinhandriðið varð fyrir valinu, sem var kolröng ákvörðun miðað við þær forsendur sem virtust ríkja, því að á þessum minnsta bíl landsins var aðeins fet frá tánum á mér fram á stuðara og þetta þýddi að á þessum hraða myndi bíllinn fara í mask á hörðum steinvegg.

Eina útskýringin á þessari ákvörðun eftir á er sú að í undirmeðvitundinni búi viðleitni til að komast hjá því að lenda á lifandi veru sem var undir stýri á bílnum, sem ég var að fara fram úr og í þann veginn að fara inn á brúna og lenda frekar á dauðum hlut.

Augnablikið, sem steinstólpinn blasti við mér, er ógleymanlegt, því að í stöðunni gat það ekki verið annað en síðasta andartak lífsins.

En í þann veginn sem bíllinn var að skella á handriðinu, lyftist hann upp og fór upp á rönd á tveimur hjólum fram úr bílnum með hjólin hægra megin rétt yfir handriðinu ( það var vinstri umferð á þessum tíma ).

Ég smaug því framhjá stóra bílnum, örfáa sentimetra frá honum á tveimur hjólum, án þess að snerta hann né steinhandriðið, sem hjólin strukust yfir án þess að snerta það !  

Það munaði litlu að bíllinn ylti en ég náði stjórn á honum og var svo felmtri sleginn að ég ók án viðkomu alla leið vestur á Seltjarnarnes á meðan ég var að átta mig á því að hafa sloppið svona ótrúlega frá bráðum bana. Þar sat ég dágóða stund í sjokki.  

Ökumanninn á hinum bílnum hitti ég fyrir tilviljun nokkrum vikum síðar og hitt hann síðan enn og aftur fyrir fáum árum í ökuferð Fornbílaklúbbsins þar sem við rifjuðum þetta upp saman í hópi klúbbfélaga. 

Við athugun á vettvangi nokkrum dögum eftir atvikið kom í ljós, að við enda steinhandriðanna á brúnni leyndust lágar malarhrúgur, sem þar urðu eftir þegar vegheflar fóru yfir brúna og lyftu tönninni og færðu hana til við brúarendana til að komast framhjá steinhaköntunum.

Þessar malarhrúgur hækkuðu smám saman við endurtekna heflun.

Í blindandi sólinni sá ég aldrei malarhrúguna sem þeytti Prinzinum mínum upp á rönd á tvö hjól og bjargaði bæði lífi mínu og forðaði bílstjóranum á hinum bílnum frá árekstri við minn bíl.

Vegna tilvistar hennar, reyndis kolröng ákvörðun rétt þegar upp var staðið. Annars væri ég ekki til frásagnar nú.  


mbl.is Þurfti að velja á milli barnanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband