Aðeins hugsanlegt í Reykjavík?

Til umhugsunar fyrir okkur Íslendinga: 

Ef Íslendingur verður fyrir járnbrautarlest gerist það erlendis. 

Ef Íslendingur er skotinn er hann lang líklegast staddur í Bandaríkjunum.

Ef Íslendingur verður fyrir tilefnislausri líkamsárás og er beinbrotinn og laminn í klessu er hann staddur í Reykjavík.

Ég hef sjálfur orðið fyrir tilefnislausri líkamsárás þar sem árásarmaðurinn öskraði, að hann ætlaði að drepa mig og kýldi með berum hnefanum í gegnum bílrúðu svo að blóðug glerbrotin dreifðust yfir mig. Þarf þetta ástand virkilega að vera svona í minni kæru fæðingarborg?   


mbl.is Aron varð fyrir líkamsárás í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV komið í markvissa "meðferð"?

Einhverjir myndu segja að DV væri fjölmiðill ársins 2014, þótt ekki nema fyrir það eitt að tveir blaðamenn á blaðinu skyldu ekki heykjast á því að klára það verk, sem þeir höfðu hafið og kom í ljós að var þjóðþrifaverk. 

DV hefur siglt í ólgusjó undanfarin ár, oft bryddað upp á nauðsynlegum málefnum eins og til dæmis byssumálinu og lekamálinu á síðasta ári, en einnig kollsiglt sig og farið fram úr sér í einstaka máli, eins og gengur og gerist þegar dirfska er með í för. 

En það eru gömul sannindi að sendiboði válegra tíðinda sé skotinn í stað þess að tíðindin sjálf og þeir, sem þau hafa skapað, séu krufin til mergjar og lært af þeim. 

Aftaka hins gamla DV eða umbreyting yfir í nýtt DV virðist ætla að verða hæg kæfingar-"meðferð", unnin í áföngum. Einn þessara áfanga var í dag og fleiri eru líklega eftir. 

Það er vel mögulegt að nýir ritfærir og reynslumiklir ritstjórar eins og Kolbrún og Eggert geti gert blaðið áhugavert á grundvelli alveg nýrrar ritstjórnarstefnu og markað því nýjan bás og verðugt hlutverk. 

Ég óska þeim alls hins besta í starfi. 

En á móti kemur að skilið verður eftir skarð í fjölmiðlaflórunni þar sem hið gamla DV var.

Kannski koma þá einhverjir aðrir fram með blað af því tagi.   


mbl.is Ritstjóra DV sagt upp störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg viðbrögð. Vonandi halda menn haus.

Það þyrfti ekki að spyrja að því að óvænt útspil fjármálaráðherra í læknadeilunni í útvarpsfréttum í hádeginu á þeim tíma, sem í frétt hér á mbl.is er sögð "úrslitastund", myndi strax vekja viðbrögð lækna og neyða þá til þess að fara að eyða tímanum í andsvör.

Því að þegar lesið er hvað þeir segja og horft á þau gögn sem þeir birta, vekja ummæli ráðherrans einn meiri furðu en lýst var í næsta bloggpistli á undan þessum. 

Þessi snemmbúna áramótasprengja gerir ekkert nema taka tíma manna frá því að einbeita sér að lausn deilunnar við samningaborðið, sannarlega dýrmætan tíma.  

Nú er bara að vona að menn beggja vegna borðsins haldi haus og láti ekki koma sér úr jafnvægi. 


mbl.is „Lúaleg tilraun“ fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengju varpað inn á viðkvæmri stundu.

Fjármálaráðherra tekur mikla og vanhugsaða áhættu með því að varpa þeirri sprengju inn í viðkvæmt ástandið í læknadeilunni sem hann gerði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. 

Hann gat ósköp vel látið þetta sprengjukast sitt vera og sagt pass á þeim grundvelli að það væri samninganefndanna að finna lausn á þessum mikilvæga tímapunkti. 

Þess í stað kom þessi harkalega yfirlýsing frá honum, sem stórhætta er á að æsi menn upp og hleypi öllu í bál og brand. 

Nú vonar maður bara heitt og innilega að það gerist ekki og að menn andi í gegnum nefið. 

En það á ekki þurfa að vera slíkt ástand í deilunni að það þurfi heitt bænahald til þess að biðja um rósemi hugans. 


mbl.is Komi með svör klukkan þrjú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugöryggi aldrei meira og líka flughræðslan?

"Öruggur staður til að vera á" var sagt í umdeildri auglýsingu. Það slagorð gæti áttt við um farþegaþotur heimsins sem eru víst mun öruggari staður til að vera á en önnur samgöngutæki. 

En sú staðreynd að manninum er ekki áskapað sjálfum að fljúga heldur einungis að ganga, hlaupa og synda, truflar allt mat.

Og þegar sagt er í fréttum frá fólki sem hefur orðið flughræddara en fyrr á sama ári og flugöryggi hefur aldrei verið meira, bara vegna þess að þessi fáu flugslys, sem um ræðir, voru svo óhugnanleg, sýnist það vera mótsögn en er þó skiljanlegt. 

Eitt þessara flugsllysa varð vegna styrjaldarátaka og þegar litið er á hryðjuverkin í heiminum, ætti fólk að vera hræddara en fyrr við að vera á ferli í erlendri borg en áður.

En það er einhvern veginn öðruvísi en að stíga upp í flugvél.  

Á fyrstu árum skemmtanaferils míns var ég mjög flughræddur enda þótt ég væri jafnframt heillaður af fluginu og hefði mikinn áhuga á því. 

Ef mögulegt var ók ég til dæmis frekar hina seinförnu og erfiðu leið, sem þá lá til Ísafjarðar, heldur en að fljúga þessa vegalengd á l5 sinnum styttri tíma. 

Ástæðan hefur hugsanlega verið hin tíðu flugslys á litlum flugvélum á þeim árum, bæði hér heima og ekki síður erlendis. Einkum virtust skemmtikraftar og frægt fólk vera i áhættuhópi og nafnalistinn var sláandi: Ricki Valens, Buddy Holly, "Big Bopper" Richardson, Rocky Marciano, Jim Reeves, Patsy Cline og fleiri og fleiri. 

Að lokum fór svo að ég varð að gefast upp gagnvart fluginu, því að öðruvísu gat ég ekki sinnt starfi mínu að gagni. Og ekki sé ég eftir því, heldur hef ég stundum sagt: Flugið er það næst besta sem hefur rekið á fjörur mínar í lífinu. 

Gagnvart því og þeirri staðreynd að það er 100% lífshættulegt að lifa varð að tileinka sér orð Shakespeares: "Enginn má sköpum renna og best er það." 

Og síðar að leggja út af því með þessum söngtexta: 

Ljúfur Drottinn lífið gefur, - 

líka misjöfn kjör, -

og í sinni hendi hefur

happ á tæpri skör. 

Feigðin grimm um fjörið krefur. 

Fátt er oft um svör. 

Enginn veit hver annan grefur. 

Örlög ráða för. 


mbl.is Hröpuðu, hurfu og voru skotnar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fótspor Eisenhowers.

Obama Bandaríkjaforseti má hafa sig allan við ef hann ætlar að skáka golfáhuga Eisenhowers forseta Bandaríkjanna 1953-1961, ef marka má umfjöllun fjölmiðlanna í forsetatíð hans,sem tíunduðu þau skipti sem karlinn var á golfvellinum í stað þess að púla við að leysa vanda þjóðarinnar og sinna Kalda stríðinu. 

Í ofanálag var Eisenhower hjartveikur og undir smásjá lækna, og gott ef hann fékk ekki eitt áfallið þegar hann var sveifla kylfunni. 

Golfíþróttin er prýðis íþrótt og um hana gildir það sama og flestar aðrar íþróttir, að það liggur oft mikil ástundun að baki því að ná góðum árangri í henni, auk þess sem iðkendurnir þurfa að búa yfir líkamlegum og andlegum hæfileikum til að ná góðum árangri. 

Samt hef ég dottið í þá gryfju að daðra við fordóma gagnvart henni. 

Á tímabili voru tvö systkini mín mjög hrifin af golfi og hvöttu mig óspart til að prófa að vera með. 

Ég svaraði því til að ég skyldi koma og spila þetta með þeim þegar þannig yrði komið fyrir mér að ég gæti ekkert annað. 

Þetta var hrokafullt fordómasvar, sem ég bið að sjálfsögðu alla golfunnendur afsökunar á. 


mbl.is Obama golfóður á Havaíeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband