Nútíma skrifræði: Tækifæri fyrir geðþóttafull möppudýr.

Mál Svifflugsfélags Íslands gegn innanríkisráðuneytinu vekur til umhugsunar um ýmis atriði í stjórnsýslu, til dæmis um það, að þegar opinberar stofnanir eru orðnar mjög stórar, geta einstakir starfsmenn innan þeirra, sem gangast upp í að beita valdi sínu, ná aldeilis ótrúlegum völdum og valdaaðstöðu.

Vilmundur heitinn Gylfsson fann upp hið dásamlega heiti "möppudýr" yfir slíka starfsmenn hins opinbera.

Dæmi um slíkt var möppudýr eitt í þljónustu Tollstjóraembættisins fyrir um 20 árum, sem fékk þá flugu í höfuðið að tónlistarmenn og listamenn væru almennt skattsvikarar.

Hann deildi út úrskurðum á báðar hendur í þessu skyni, svaraði ekki bréfum né símtölum og girti sig af og víggirti með pappírshaugum í skrifstofuvígi sínu.

Áður en hann hætti störfum hafði honum tekist að valda listamönnum miklu tjóni, svo miklu, að þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson ræddi um þann möguleika að skipa embætti sérstaks umboðsmanns skattgreiðenda.

Eitt dæmi um afrek þessa möppudýrs var það að uppreikna meinta vangoldna skattaskuld skattgreiðanda eins upp í rúmar 22 milljónir króna á þáverandi verðlagi.

Þegar möppudýrið hætti störfum var herbergi hans fullt af óafgreiddum bréfum og sá, sem tók við af honum, komst að þeirri niðurstöðu að meint skattaskuld listamannsins næmi 200 þúsund krónum en ekki 22 milljónum.

Valdasjúkt og geðþóttafullt möppudýr nýtir sér stærð stofnunar sinnar og það, hve yfirmenn hennar hafa litla möguleika á að vera með nefið niðri í hvers manns koppi.

Möppudýrið býr til víggirðingu utan um sig í skrifstofu sinni, sem gerð er úr ótal möppum af reglugerðum og tilskipnum, sem það hefur yndi af að búa til .

Ekki dregur úr möguleikunum á þessu eftir því sem kröfur berast um slíka skriffinnsku. Þegar möppudýrið fær tilmæli utan frá, til dæmis frá erlendum stofnunum, um að gera íslenska reglugerð upp á um það bil 10 blaðsíður, skrifar möppudýrið reglugerð sem er minnst 30 blaðsíður.

Möppudýrið vinnur tvennt með þessu: Annars vegar gengur það í augun á þeim sem lagði verkefnið fyrir hann, sem einstaklega duglegt möppudýr, og hins vegar býr það smám saman til svo stórt bákn af reglugerðum og tilskipunum, að engir aðrir hafi möguleika á að setja sig inn í það allt.

Þar með er möppudýrið orðið friðheilagt, því að hver sá yfirmaður þess, sem reynir að láta einstök mál dýrsins til sín taka, er rekið út til baka með skottið á milli lappanna af vanmetakennd þess sem er rekinn á gat.

Fyrst eftir stríð voru til ráðherrar með sérstakan titil," flugmálaráðherra." Síðustu ár hefur verið mikil tilhneiging til að "spara og hagræða" með því að stækka ráðuneyti sem allra mest og fækka ráðherrum.

Þetta getur verið ágætt út af fyrir sig, en á móti kemur að hver ráðherra veit æ minna um málefni ráðuneytanna, þegar þau verða æ umfangsmeiri og flóknari.

Þess vegna kemur úrskurður umboðsmanns Alþingis, sem opinberar vanþekkingu ráðuneytis á flugi, mér ekki á óvart.

Ef á fleti fyrir er möppudýr líkt því, sem ég var að lýsa sem dæmi, er sívaxandi hætta á slíku.  


mbl.is Segja ráðuneytið skorta þekkingu á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hómópatía gerði víst gagn og nálarstungur gera það !

Fréttin um að hómópatía og "lyfjalausar lækninar" geri ekki gagn felur í sér ansi mikla alfhæfingu og getur skapað misskilning. Mér rennur blóðið til skyldunnar gagnvart bæði hómópatíu og þeirri "lyfjalausu lækningu" sem felst í nálastungum.

Runólfur Bjarnason í Hólmi, langafi minn, var hómópati eða smáskammtalæknir, hafði til þess tilskilin leyfi og bjargaði áreiðanlega lífi og heilsu fjölda fólks í Vestur-Skaftafellssýslu meðan hans naut við.

Um 1890 var sýslan vegalaus með óbrúuð stórfljót, ekkert rafmagn og engin samgöngutæki nema hestinn. Fólkið bjó í torfbæjum og lífsbaráttan var afar hörð í landi, sem ekki gat brauðfætt vaxandi þjóð.

Þegar á bjátaði var ekki hægt að hringja á hjúkrunarfræðing eða lækni eða þyrlu Landhelgisgæslunnar eða fara á heilsugæslustöð. Köllun Runólfs Bjarnasonar átti hug hans allan, allur tími hans fór í lækningar og lækningaferðalög og Rannveig Bjarnadóttir, langamma mín varð að sjá um búskapinn að mestu.

Börnin voru átta og sulturinn svo mikill að þau Runólfur og Rannveig neyddust til að skipta á Ólöfu, ömmu minni, þá sjo ára, og kú. Langafi fór með ömmu austur í Öræfi og kýr var leidd til baka.

Líknandi starf hómópatans varð að hafa forgang og lækningar hans voru ekki lyfjalausar, heldur bjó hann sjálfur til ýmis lyf og fékk eitt þeirra meira að segja alþjóðlega viðurkenningu. 

Enginn skyldi því tala niður til lækninga hómópatanna þótt nú sé öldin önnur.

Kátlegt er þegar sagt er um hinar "lyfjalausu" lækningar sem felast í nálastungum, að það séu "óhefðbundnar lækningar" og því að litlu hafandi, en að vestrænar lækningaaðferðir, sem eru kannski sumar ekki nema nokkurra ára eða áratuga gamlar séu nefndar "hefðbundnar lækningar."

Ég get vitnað um það af reynslu sjálfs mín, að nálastungulækningar geta gert gagn í tilfellum þar sem ekkert annað dugði.  

Fyrir um áratug fóru frammámenn í íslenskum lækningum í heimsókn til Kína og þegar heim kom far sagt frá því að hugsanlega væri hægt að nýta kínverska þekkingu.

Mætti hugsa sér að einhverjir íslenskir læknar færu á stutt námskeið þangað.

Nálastungulæknirinn, sem bjargað hefur mér þurfti hins vegar fram undir þetta að sæta því að litið væri niður á margra ára háskólanám hans í Bandríkjunum á sviði nálastungulækninga sem óhefðbundnar skottulækningar sem "gerðu ekki gagn".

Það sýnir mikið yfirlæti og dramb þegar sagt er að lækningaaðferðir, sem eiga þúsunda ára reynslu að baki séu "óhefðbundnar lækningar" og hindurvitni á sama tíma og nokkurra ára eða áratuga gamlar lækningaaðferðir á Vesturlöndum séu "hefðbundnar lækningar" og það eina sem geri gagn.      


mbl.is Hómópatía geri ekki gagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi og firring stjórnmálamanna.

Ábyrgðarleysi íslenskra stjórnmálamanna er greypt í framkomu þeirra árum og áratugum saman.

Nýjasta dæmið er hvernig þeir haga sér gagnvart starfsemi flugskóla og einkaflugs á Reykjavíkurflugvelli.

Á næsta ári á að reka fólk út úr Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli með 85 flugvélar og starfsemi á annað hundrað manna hið minnsta og gera byggingarnar upptækar án nokkurra bóta og án þess að hafa haft neitt samráð við viðkomandi, þrátt fyrir allan fagurgalann um "samræðustjórnmál" og "þátttöku almennnings í stjórnvaldsákvörðunum.  

Á sínum tíma reistu þeir, sem þarna starfa, byggingarnar á þessum reit (sem er minni en bílastæðin ein við Háskólann) fyrir eigið fé, lögðu akbrautir og yfirborð, skólplagnir og raflagnir á eigin kostnað með fullu samþykki þáverandi yfirvalda.

Þessu á öllu að eyða og reka fólkið burt bótalaust.

Að vísu er vitnað í undirritað samkomulag borgar og ríkis um að starfseminni verði fundinn annar staður, en ekkert er farið að gera í því og verður að sjálfsögðu ekki mögulegt, enda engir peningar til og eru ekki í sjónmáli.

Enginn annar staður hefur fundist með þeirri nauðsynlegu aðstöðu sem bóklegt og verklegt flugnám þarf, enda virðist stjórnmálamönnum ekki varða neitt um það og tala jafnvel um að allt nám í flugi verði flutt til útlanda.

Ætli næsta skref í þéttingu byggðar verði ekki að flytja starfsemi ökuskóla,  Sjómannaskólans og Vélskólans til útlanda, rífa niður húsin sem þetta hefur verið í, og reisa íbúðabyggðir í staðinn ?


mbl.is Enginn vill einka- og kennsluflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband