Löngu úrelt skipting og skipulag höfuðborgarsvæðisins.

Ef litið er á kort af höfuðborgarsvæðinu sést að hverfin þrjú, Grafarvogur, Árbær og Breiðholt ættu miklu frekar að vera saman í sérstöku, stóru sveitarfélagi því að Kópavogur liggur nær Reykjavík.

Þyngdarmiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er aðeins nokkur hundruð metra fyrir norðvestan Skemmuhverfið í Kópavogi.

1954 gafst gullið tækifæri til að sameina Reykjavík og Kópavog en eingöngu þröngir pólitískir hagsmunir tveggja flokka, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, komu í veg fyrir það.

Í Reykjavík voru Sjálfstæðismenn með meirihluta í bæjarstjórn en "kommarnir" voru í meirihluta í Kópavogi.

Sameining hefði þýtt að báðir þessir flokkar hefðu misst bæjarstjórnarmeirihluta, kommarnir vegna þess að þeir réðu ekki lengur sem meirihlutaafl í sérstöku sveitarfélagi, og Sjallar hefðu misst meirihlutann í Reykjavík við það að fá hina vinstri sinnuðu kjósendur í Kópavogi inn á kjörskrá í Reykjavík.

Að vísu hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau skipulagsslys, sem síðan hafa orðið á þessu svæði með því að drífa í því að nota lagasetningu til að skapa sérstakt sameiginlegt skipulagsvald fyrir höfuðborgarsvæðið, en það var aldrei gert.

Gott dæmi um ruglið er það, að til þess að komast á bíl hundrað metra vegalengd milli húsa, sem eru annars vegar í Salahverfinu í Kópavogi og hins vegar í Seljahverfinu í Breiðholtinu, þarf að aka fjögurra kílómetra vegalengd !

Milli landamerkjum þessara tveggja hverfa liggur sem sé á stærstum kafla svæði, sem líkist helst einskis manns hlutlausu svæði á milli tveggja óvinaríkja !

Í græðgisbólunni í aðdraganda Hrunsins ríkti stjórnlaus og skipulagslaus keppni milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sölu lóða og byggingu nýrra hverfa.

Raunar hefur þetta ástand verið að miklu leyti viðvarandi árum saman á svæðinu. Þannig hefur Garðabær byggt blekkingar sínar varðandi Álftanesveg á þeirri draumsýn að reisa með hraði 20 þúsund manna byggð á Álftanesi með tilheyrandi hraðbraut og lengi vel var það draumsýn á Seltjarnarnesi að reisa stórbyggð þar til að geta selt nógu mikið af lóðum til að auglýsa "lægsta útvar á Íslandi."

Hugsunin á bak við er sú, að ef byggðin haldi ekki áfram að vaxa hratt, fækki þar yngra fólkinu og þar með myndu tekjurnar af því fyrir bæjarfélagið minnka.

Allir sjá, að á Seltjarnarnesi hlýtur að koma að því að ekki verði hægt að fjölga fólki og raunar er komið að því þegar.  

En ef Seltjarnarnes væri hluti af Reykjavík og íbúar þar borguðu útsvar til Reykjavíkur, væri engin ástæða fyrir því kröfunni um hinn endalausa vöxt byggðarinnar þar.

Klaufagangur hlýtur að ráða því að framboð til borgarstjórnar í Reykjavík setji upp auglýsingu í Kópavogi og tali í henni um "hverfi borgarinnar".

Væri hins vegar höfuðborgarsvæðið eitt sveitarfélag með 3-5 nokkuð sjálfstæðum einingum drjúgrar sjálfsstjórnar, væri svona auglýsing hins vegar fullkomlega eðlileg.  


mbl.is „Er þetta upphaf óvinveittrar yfirtöku?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er á þingi vegna þingmannseiðsins.

Pétur Blöndal hefur setið óvenju lengi á þingi miðað við umrót síðustu sjö ára. Þetta hefur honum ekki tekisti vegna þess að hann sé leiðitamur forystu síns flokks eða öflugum valdahópum innan hans heldur vegna þess, að nógu stór kjósenda hefur treyst honum í öll þessi ár til þess að efna þingmannseiðinn um að fara eingöngu eftir eigin sannfæringu.

Það getur varla verið neitt annað sem viðheldur fylgi hans, vegna þess skoðanir hans á mörgum málum eru bæði sérstakar og oft umdeilanlegar, bæði meðal almennings og meðal ráðandi afla í flokki hans.

Við Hrunið hrundi ekki aðeins bankakerfið, heldur traust fólks á stjórnmálamönnum og stjórnmálastarfi.

Traust almennings á Alþingi hefur farið vel niður fyrir 20% og er með því lægsta, sem nokkur opinber stofnun má sæta.

Í ýmsum efnum er ég innilega ósammál Pétri, til dæmis varðandi sum atriði umhverfis- og náttúruverndarmála.

Hef þó tekið eftir því að það stafar oft af því að hann virðist ekki hafa sökkt sér nægilega niður í þann málaflokk og í flestum málum erum við þó í raun sammála.

En um Pétur er hægt að segja það sem einhvern tíma var sagt um stjórnmálamann: "Ég er þér innilega ósammála um sumar þeirra skoðana, sem þú heldur fram og hef á þeim skömm, en ég mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að þú fáir tækifæri til að láta þær í ljósi."

Ég held að það séu fáir ef nokkrir sem setið hafa á þingi jafn lengi og Pétur að því er virðist fyrir það eitt að sýna í verki að hann hefur fyrst og fremst þingmannseið sinn í heiðri.

Fyrir það á hann heiður skilinn.  

  


mbl.is Felur í sér óásættanlega mismunun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband