Fjórar hliðstæður frá fyrri tíð.

Enginn furða er þótt vangaveltur vakni vegna hins dularfulla hvarfs MM370 á dögunum þess efnis, að þotan hafi fyrir mistök verið skotin niður af herflugvél.

Að minnsta kosti fjórum sinnum  áður hefur slíkt komið upp og í tvö þeirra skipta voru það hervélar sem skutu viðkomandi þotur niður.

Rússnesk herþota skaut niður kóreska farþegaþotu sem fór fyrir mistök inn í sovéska lofthelgi norður af Japan 1. september 1983 og Bandaríkjamenn skutu niður íranska farþegaþotu fyrir mistök yfir Persaflóa 1988.

Þriðja skiptið af þessu tagi gerðis þegar ítölsk rannsóknarnefnd sló því föstu eftir margra ára rannsókn að herþota frá Líbíu hefði skotið niður farþegavél norður af Sikiley.

Mjög reyndur og snjall sænskur sérfræðingur í flugslysarannsóknum komst að lokum að þeirri niðurstöðu að sprengja í farangri vélarinnar hefði grandað henni. Þegar gögnin, sem sú niðurstaða grundvallaðist á, eru skoðuð verður sú niðurstaða að teljast sennilegri en niðurstaða Ítala.   

Fjórða tilfellið var þegar farþegaflugvél fórst á Norðursjó á áttunda áratugnum á sama tíma og orrustuþotur voru þar að heræfingum.

Í upphafi var leitt getum að því að herþota hefði farið svo nálægt henni á ógnarhraða að það hefði valdið því að vélin hrapaði stjórnlaus í hafið.

Í ljós kom að þetta var röng tilgáta. Bilun í stéli vélarinnar olli slysinu.  

Í öllum þessum fjórum tilfellum var vitað hvar vélarnar fórust en sú er ekki raunin varðandi MH370.

Þess vegna verður tilgátan um að herflugvél hafi grandað henni að teljast hæpin.


mbl.is Var þotan skotin niður á heræfingu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskulduð viðurkenning fyrir þarft og vel heppnað framtak.

Sjónvarpsþáttaröðin "Orðbragð" er eitt þarfasta og best heppnaða framtak í sjónvarpsþáttagerð og menningu okkar í langan tíma.

Þessa þáttaröð mætti vel endursýna með jöfnu millibili á næstu áratugum.

Íslensk tunga er einn af þremur hornsteinum tilveru okkar hér á þessari eldfjallaeyju við ysta haf.

Þessir hornsteinar eru nefndir í upphafi ljóðs Snorra Hjartarsonar: 

"Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein."  


mbl.is Móðurmálskennarar lofa Orðbragð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hef aldrei áður flutt flugvöll."

Jón Gnarr borgarstjóri varð þjóðþekktur fyrir það að vera orðheppinn maður með frumlega sýn á hlutina sem oft var þó svo einstaklega einföld.

Þegar hann tók við borgarstjórastöðunni voru fyrstu viðbrögð hans við hugmyndinni um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og flytja starfsemi hans annað fólgin í ummælum um það að hann skorti reynslu í að flytja flugvelli.

"Skrifaðu flugvöll" var fleyg setning frambjóðanda eins fyrir um 70 árum á framboðsfundi, sem hann sagði við fylgdarsvein sinn þegar talið barast að skorti á flugsamgöngum í héraðinu.

Sú setning lýsti þó mun einfaldari gerningi en þeim, sem Jón Gnarr taldi sig standa frammi fyrir í upphafi borgarstjóratíðar sinnar.

Því að hugmyndirnar um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og reisa annan eru þrefalt flóknari en að reisa nýja íbúðabyggð, sem sé þær að rífa í fyrsta lagi heilan flugvöll með allri þeirri flugtengdu starfsemi sem þar er, byggja í öðru lagi annan flugvöll á einhverjum öðrum stað sem enginn veit, hvort er til, og reisa síðan í þriðja lagi heila íbúðabyggð þar sem hinn rifni flugvöllur stóð.

Má merkilegt heita að hjá borg, sem ræður yfir óbyggðum svæðum nær þungamiðju byggðarinnar, skuli það ekki blasa við, að þrefalt einfaldara og hagkvæmara er að reisa íbúðabyggðir á þeim svæðum, heldur en að bæta því við að rífa flugvöll og byggja annan í ofanálag.

Ég fór að gamni mínum um Hólmsheiði í fyrradag og undraðist enn meira en fyrr hvernig mönnum dettur í hug að veifa því að reisa flugvöll þar, miðað við það hóla- og hæða-landslag sem er á svæðinu.

Um svæðið liggja hitavatnsleiðsla til borgarinnar og raflína, auk þess sem þar er stærsta spennistöð Reykjavíkursvæðisins og reisa á risafangelsi, sem er bráðnauðsynlegt, þar sem nú þegar ríkiri mismunun á milli þeirra sem hafa fengið fangelsisdóma, sem er fólgin í því að tugir þeirra þurfa ekki að afplána dómana vegna þess að þeir fyrnast.

Aðal aðflugflugið að Hólmsheiðarflugvelli yrði yfir þrjú stór íbúðahverfi í Reykjavík og í öllum áætlunum um þennan óra flugvöll er ekkert hugsað um þann tugmilljarða kostnað sem fylgir því að reisa allar þær byggingar og vegatengingar sem svona flugvöllur kallar á.

Síðan kóróna óhagstætt veðurfar og flugskilyrði vitleysuna.

Nýtt mat á afkastagetu dreifikerfis Orkuveitunnar, sem nú er upplýst um að fylgi nýrri íbúðabyggð, er aðeins eitt af mörgum framkvæmdaatriðum, sem hrúgast munu upp með því að rífa núverandi flugvöll og demba þar niður íbúðahverfum, sem kalla á aukna umferð og vaxandi umferðarteppur á sama tíma og búið er að samþykkja að engar nýjar vegaframkvæmdir verði í Reykjavik næstu tíu ár vegna fjárskorts.

Í áætlunum um þessi íbúðahverfi gefa menn sér þá gölnu forsendu að enginn íbúi þeirra muni nota bíl, heldur allir hjóla eða ganga og að það muni draga úr umferð og fækka umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu um 40% !! 

Meira að segja í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu gengu svona formúlur og ímynduð miðstýring ekki upp.

    


mbl.is Ný byggð kallar á mat á afköstum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband