Áhrifaríkar og eftirminnilegar stundir.

Þótt það sé hægt að fljúga meðfram ströndum landsins og njóta landssýnar, jafnast ekkert á við að sigla meðfram þeim. Sumir hlutar strandarinnar bjóða upp á sérlega áhrifaríkar stundir og sigling alla leið í kringum landið nýtur þess kannski mest, hve ólík landssýnin er.

Á leiðinni frá Reykjavík til Grundarfjarðar ræður Snæfellsjökull ríkjum mest allan þann áfanga, en eftir að komið er að Látrabjargi á leið til Ísafjarðar eru það brött Vestfjarðafjöllin sem njóta sín.

Það er einstakt að sigla meðfram Látrabjargi, ekki aðeins vegna gnæfandi bjargsins yfir skipinu, heldur ekki síður við það að sjá að helmingurinn af öllu þessu fuglageri er neðansjávar hverju sinni.  

Eftir að siglt er frá Ísafirði er einhver mesta dýrðin eftir, siglingin fyrir Hornastrandir, sem er alveg ólýsanlega tignarleg og eftirminnileg. Sigling fyrir Kögur, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg finnst mér hámarkið á þeim siglingum meðfram ströndum landsins sem ég hef átt kost á að fara í.

Það er einnig afar gaman að sigla inn og út Eyjafjörð og ég get ímyndað mér að sigling meðfram Austfjörðum gefi siglingu meðfram Hornsströndum lítið eftir.

Í lok siglingar sólarsinni í kringum Ísland er síðan siglingin meðfram suðurströndinni gerólík strandsiglingum í öðrum landshlutum. Þá er gefur hið mikla víðsýni og fjarlægðin til stóru jöklanna, Vatnajökuls, Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls alveg nýja vídd.

Ég ætla að enda þessar hugleiðingar með textanum "Að sigla inn Eyjafjörðinn" sem Ragnar Bjarnason söng fyrir mig á diskinum "Ómar lands og þjóðar" - Kóróna landsins með aldeilis sérlega vel heppnuðu undirspili Grétars Örvarssonar.

 

AÐ SIGLA´ INN EYJAFJÖRÐINN.  (Lag: Cruising down the river)     

 

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er yndislegt um vor

í björtu veðri er býr sig fugl

við bjarg og klettaskor. '

 

Er sólin heit í heiði

baðar haf og dal og fjöll.

Í háum hamraskörðum

heilsa okkur landsfræg tröll.

 

Hrísey, fjarðardjásnið frítt

mót fagurgrænum dal.

Við Múlann vaggar bátur blítt

við bjargsins hamrasal.

 

Um háreist hamraskörðin

hoppa lömb í ró og spekt.

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnanlegt.

 

Allir hérna afar vel

nú una sínum hag

á skemmtiferðaskipunum,

sem skríða inn í dag.

 

Þar ferðamannahjörðin

kyrjar hátt í ró og spekt:

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnanlegt.  

 


mbl.is Ætla að sigla umhverfis Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetar hafa flogið með litlum flugvélum fyrr.

Tveir síðustu forsetar Íslands, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson, hafa flogið með litlum einshreyfils flugvélum, ef ég man þetta rétt.

Þegar flogið var á tveimur litlum einshreyfils Piper PA-22 Tripacer 4 sæta flugvélum frá Reykjavík til Hólmavíkur sumarið 1966 minnir mig að Ólafur Ragnar hafi verið farþegi í annarri en ég ásamt undirleikara mínum í hinni.

Ólafur Ragnar var þá kornungur og flutti mergjaða ræðu á héraðsmóti Framsóknarmanna, svo mergjaða að hina gömlu og grónu Framsóknarbændur í Strandasýslu rak í rogastans og vart var um annað talað á Ströndum lengi á eftir.  

Það reyndist gefa tóninn fyrir það að nokkrum árum síðar fór Ólafur Ragnar úr flokknum.

Þess skemmtilegra er það fyrir hann nú, að vera af sumum kallaður guðfaðir ríkisstjórnar undir forsæti Framsóknarflokksins.

Vigdís Finnbogadóttir flaug sem farþegi í 4 sæta einshreyfils Cessna 172 fyrir rúmum tuttugu árum frá Reykjavík austur að Geysi í Haukadal til þess að aka þaðan að svonefndum Djúphólum, norðan við Gullfoss, og vígja tilraunareit um gróðureyðingu og uppgræðslu sem Stöð 2, RALA og Landgræðslan stóðu að.

Ákveðið var að nota flugvél vegna þess að klukkan tvö eftir hádegi átti forsetinn að afhenda bjartsýnisverðlaun Bröstes í Reykjavík.    


mbl.is Forsetinn með sjóflugvél á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið var fyrsta vers, svo kemur annað vers, það er alveg eins?

Það vantaði ekki stórar yfirlýsingar fyrir tólf árum þegar hrina virkjanaframkvæmda hófst, stórfelld loforð voru gefin um húsnæðislán og sala á ríkisfyrirtækjum brast á. Loforð var gefið um rétt söluverð fyrirtækjanna og að dreifð eignaraðild yrði í öllum tilfellum.

Ríkið átti að græða og allir áttu að græða á þenslu, sem færði okkur himinhátt gengi krónunnar svo að hver sá sem tæki sem mest lán og keypti eitthvað stórt frá útlöndum og græddi allt upp í 30% á hagstæðu gengi, yrði ríkari og ríkari.

Þetta var sæmilegur sölulisti varðandi söluna á fyrirtækjum, m. a. Búnaðarbankinn, Landsbankinn, Síminn og dreifikerfið, hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.

Og allt fór á eina lund: Loforðin stóru um rétt verð og dreifða eignaraðild gufuðu upp, - í stað dreifðar eignaraðildar spruttu allt í einu upp svonefndir "kjölfestufjárfestar" sem sagðir voru bráðnauðsynlegir, en var í raun dulnefni yfir einkavinavæðingu helmingaskiptaflokkanna.

Ekkert vandamál var fyrir einkavinina að útvega fé til kaupanna. Kaupendurnir lánuðu bara hvor öðrum fyrir þeim.  

Allt rann þetta út á gjafvirði, spottprís og reyndist hinn ágætasti eldiviður fyrir áframhaldandi uppbyggingu spilaborgarinnar ógnarstóru sem hrundi síðan framan í þjóðina í hruni upp á samtals meira en 5000 milljarða.

Við tóku ár þar sem reynt var að slökkva elda og hreinsa brunarústir og viti menn:  Eru ekki aftur komin árin 2002 og 2003 með sölu ríkiseigna, ný áform um stórfelldar virkjanaframkvæmdir, álver í Helguvík og sem mestan "orkufrekan iðnað" og húsnæðisgjafafé Framsóknar frá 2003 í nýju formi en sömu hugsun.

Einu sinni var sungin síbyljusöngurinn "Rúgbrauð með rjóma á, það er gott að fá" og síðan kom milliversið, "Þetta var fyrsta vers, svo kemur annað vers, það er alveg eins: "Rúgbrauð með rjóma á...o. s. frv.

Söngurinn sá var þannig hannaður, að hann gæti orðið endalaus með fyrsta versi, öðru versi, þriðja versi og svo áfram út í það óendanlega, og alltaf var étið sama rúgbrauðið með rjóma ofan á og ekkert annað.

Svipað virðist vera að gerast nú og meira að segja sum sömu fyrirtækin til sölu og forðum. Boðið er upp á rúgbrauð með rjóma á sem geti, alveg eins og síðast, orðið til þess að allir kasti upp, en heimti samt annað vers, sem sé alveg eins, - sama rúgbrauðið og rjóminn og sömu uppköstin o. s. fr. o. s. frv.

Þetta virðist ætla að verða það sem þjóðin elski mest.  


mbl.is Sala á Landsbankabréfum á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband