Man hvar ég var staddur þegar ég heyrði hann fyrst syngja.

26. maí fyrir 60 árum var ég staddur á Melavellinum i Reykjavík. Ég var að gutla um vorið við frjálsar íþróttir á námskeiði, sem hafði verið komið á fót til að að veita stráklingum í Reykjavík holla útrás fyrir orku sína, því að eftir sverðabardaga Tígrisklóarinnar og Sannra Vesturbæinga þótt nauðsyn á að beina orku okkar í annan farveg.

Ég man að mér gekk vel á þessu námskeiði og hljóp í lokakeppni þess 80 metra á 9,5 sekúndum á strigaskóm.

Ég var á leið í bað þegar spiluð voru tvö lög í hátalarakerfi vallarins og í eyrum mér hljómaði ný og spennandi rödd, sem ég hafði aldrei heyrt áður, Ragnar Bjarnason að syngja "Í faðmi dalsins".  

Svona gerist bara nokkrum sinnum á  ævinni.

Ég man að ég var að vaska upp á æskuheimili mínu þegar ég heyrði fyrst í Elvis Presley syngja "Do´nt be cruel" og var á leiðinni í flugferð til Öræfa til að heimsækja Jón bróður minn í sveit, þegar ég heyrði fyrst lagið "Singing the blues".

Ég heyrði fyrst í Bítlunum ofan í lúkar báts í Vestmannaeyjahöfn, og lagið var "From me to you".

Og ég var staddur uppi í litla flugvallarkofanum á flugvellinum í Eyjum þegar ég heyrði fyrst "Limbo rock", sem núna heyrist hljóma í sjónvarpsauglýsingu.

Raggi, Presley, Bítlarnir, í fyrsta sinn, það gleymist ekki, sem hljómaði í eyrunum og heldur ekki hvar né hvenær.   


mbl.is 60 ár liðin frá fyrstu plötu Ragga Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningsleysi á breytta tíma, rétt eins og fyrir öld.

Svo er að sjá sem stjórnmálamenn og áhugamenn um þau skilji hvorki upp né niður í því sem er að gerast í stjórnmálum samtímans.

Þeir undruðust gríðarlegt fylgi Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2010 og svipuð tíðindi á Akureyri og víðar, en héldu að þetta stafaði aðeins af því hve stutt væri frá Hruni og að það myndi ekki endast heldur líða hjá og gamla góða flokkamynstrið spretta fram að nýju.

Nú eru liðin sex ár frá Hruni en fjórflokkurinn er áfram í sárum, en Björt framtíð og Píratar mælast sífellt með fylgi um það bil þriðjungs kjósenda.

Ólafur Harðarson stjórnmálafræðiprófessor hefur í viðtali talið líklegt að þessi tvö framboð muni líða undir lok eins og svipuð fyrirbæri síðustu 100 árin, Bændaflokkurinn, Þjóðvarnarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn, Kvennalistinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn.

Þetta er alls ekki víst. Rétt eins og flokkaskipunin gerbreyttist fyrir tæpri öld, getur hún verið að breytast að nýju nú, og þá einkum í byggðakosningum.

Ástæðan er sú að það eru nýir tímar nýs veruleika samskipta- og upplýsingabyltingar nets, spjaldtölva og snjallsíma.

Í sveitarstjórnarmálum eru yfir 90% viðfangsefnanna á engan hátt bundin stjórnmálastefnum.

Sú spurning vaknar hvaða erindi stjórnmálaflokkar í litrófinu hægri-vinstri eigi yfirleitt í stjórn sveitarfélaga.

Vel er hugsanlegt að ofurvald gömlu flokkanna sé að ganga sér til húðar, og að við sé að taka vel menntuð kynslóð netmiðlanotenda, sem telur, að afskipti í formi hagsmunapots, spillingar og argaþrasins hjá gömlu fjórflokkunum geri ekkert gott fyrir stjórn sveitarfélaga, heldur þvert á móti, innleiði gamalkunnugan þrýsting og áhrif valda og peninga.

Þessi nýja kynslóð fer stækkandi eftir því sem árin líða og fleiri bætast við á sama tíma og hin gamla kynslóð fellur jafnt og þétt frá.  

Þannig vill til að vegna viðveru minnar vegna kvikmyndagerðar minnar og flugs undanfarin ár við Hvolsvöll fylgist ég nú með einu dæminu um þetta, tilkomu nýs stjórnmálaafls þar um slóðir, framboðs óháðra, sem telja sig hafa fengið sig fullsadda af pólitík gömlu flokkanna, sem þar hafa ráðið lögum og lofum í hátt í eina öld.

Dropinn, sem fyllt mælinn að dómi þessa fólks, er þegar peningaöfl hafi nú komið þannig ár sinni fyrir borð hjá gömlu flokkunum, að troða stóru hóteli niður beint fyrir framan Skógafoss.

Styrmir Gunnarsson gælir við þá hugmynd að sterkt flokkskerfi Sjálfstæðisflokksins muni geta snúið dæminu við á endasprettinum fyrir kosningarnar, rétt eins og því tókst stundum áður.

Þetta er draumsýn ein. Allt fram til ársins 2010, í næstum heila öld, höfðu Sjálfstæðismenn og fyrirrennari hans, Íhaldsflokkurinn, í kringum 50% fylgi í borginni.

Núna er fylgið í besta falli 20% og það, að eitthvert "flokkskerfi" frá gamla tímanum geti meira en tvöfaldað fylgi flokksins í átt að gamla góða veldinu er augljóslega borin von.  

Ég fæ ekki betur séð en að það verði ekki umflúið, að bæði "flokkskerfið" og framboðið muni hrynja og að að orðaval Styrmis um að flokkurinn hrynji í borginni og Framsóknarflokkurinn hverfi séu forspá.

Útspil oddvita Framsóknarmanna er örþrifaráð til að lokka til sín nógu stóran hluta þess fimmtungs kjósenda, sem eru andvígir innflutningi útlendinga til landsins.

En jafnvel þótt það takist, blasir við, að með því að tefla fram í örvæntingu máli, sem er andstætt stefnu flokksins til að bjarga við fylgi hans á síðustu stundu, er það ekki styrkleikamerki flokksins, heldur jafn mikið veikleikamerki og þótt framboðið bíði afhroð vegnasamþykktrar meginstefnu sinnar og falli þá með sæmd heldur frekar en að lifa við skömm.  

        


mbl.is Leitað verður skýringa og sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta vofir yfir öllum söngvurum.

Raddböndin, sem þrumuraddir bestu söngvara heims gefa frá sér, eru með minnstu líffærum mannslíkamans. Það er því ekki lítið lagt á þau þegar bestu og öflugustu söngvarar þurfa að ekki aðeins að reiða sig á þau í hvert skipti sem þeir koma fram, heldur byggja alla sína afkomu og tilveru á þeim.

Bryn Terfel er langt í frá eini stórsöngvarinn, sem þessi litlu grey hafa hrekkt illilega.

Raddböndin minna mig stundum á kerti í bílvélum, sem skila verða fullkomnum neista inn í brunahólfið, en get átt það til að verða óhrein eða "fálast upp" eins og flugmenn og flugvirkjar sletta þegar þeir tala um þetta fyrirbæri.

Þegar einhver allra besti tenórsöngvari allra tíma, Jussi Björling, hélt söngskemmtun í Þjóðleikhúsinu á sjötta áratugnum á leið sinni yfir hafið frá Bandaríkjunum, flaug fréttin um það eins og eldur í sinu, að bleik hefði heldur betur verið brugðið á konsertinum.

Sumir létu að því liggja að þarna hefði komið í ljós að of mikið væri látið með Björling og hann ofmetinn, - okkar eigin Stefán Íslandi væri jafnvel betri !

Já, gamli rembingurinn okkar kominn upp, rétt einu sinni.

Um Jussi Björling þarf ekki að deila. Helstu stórsöngvarar síðar á 20. öldinni voru sammála um snilli hans, hvernig hann virtist ekki hafa neitt fyrir því að syngja eins og engill, rétt eins og Pavarotti varð frægur fyrir að gera og sagðist taka Jussi sér til fyrirmyndar.

Svíinn var einfaldlega þreyttur og timbraður á tónleikunum eftir að hafa verið í á annan tug klukkustunda að hossast í hægfleygri íslenskri vél yfir hafið og þar að auki farinn að láta á sjá vegna óreglu, sem átti eftir að flýta fyrir dauða hans.

Okkar bestu hafa lent í þessu eins og dæmi frá síðasta hausti sýnir. 1985 var ég á Akureyri þegar Kristján Jóhannsson var upp á sitt besta, en hafði skotist frá Ítalíu alla leið norður til að endurlifa gamlar gleðistundir smiðsins góða á sinni tíð.

Allir gömlu vinirnir urðu að samgleðjast Kristjáni þessa helgi og helst upp á gamla mátann eins og siður er Íslendinga.

Fyrir hádegi sprakk hann á efsta tóni í Akureyrarkirkju og lenti aftur í vandræðum í Reykjavík á tónleikum eftir hádegið og varð að láta röddina falla um áttund til að komast í gegnum það erfiðasta.

Auðvitað hristi hann þetta af sér og ferilinn frækilegi hélt áfram erlendis.

Á tímabili varð Björk Guðmundsdóttir að aflýsa tónleikum um skeið meðan rödd hennar var að ná sér eftir bólgu í raddböndum og allir söngvarar hafa orðið að sæta því að jafnvel fullkomnustu læknavísindi nútímans ráða ekki við jafn aumingjalegan sjúkdóm eða sýkingu og venjulegt kvef er.

Úr því að stórsöngvarar verða að glíma við þetta má nærri geta hvað getur komið fyrir venjulega gutlara.

Mér er enn í minni þegar ég missti röddina algerlega á skemmtun á föstudagskvöldi fyrir 13 árum og voru góð ráð dýr, því að ég þurfti að fara beint af henni og skemmta á þorrablóti í Danmörku daginn eftir.

Kom sér vel að Haukur Heiðar Ingólfsson, undirleikari minn, er afbragðs læknir og tók mig í sérstaka meðferð, sem hann varaði mig þó við að að væri þess eðlis, að erfitt væri að gera slíkt nema jafnvel aðeins einu sinni.

Ég yrði að búa mig undir það að fá röddina aftur í nokkrar klukkustundir og missa hana síðan á ný.

Þetta heppnaðist, röddin kom rétt fyrir samkvæmið, en okkur báðum til undrunar fór hún ekki aftur eins og Haukur hafði búið mig undir.

Björgvin Halldórsson er fundvís á nöfn á fyrirbæri og Haukur sagði mér að hann kallaði þessa meðferð "Pavarotti".

Sem er réttnefni, sýnir að enginn er óhultur.   

 

 

 


mbl.is Röddin brast í sjöunda lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband