Hefur gerst áður í Evrópu.

Það er nokkuð langt síðan að í Evrópu hefur komið upp fylgi, sem efli flokka á jaðri hins ríkjandi pólitíska litrófs í krafti óánægju með ríkjandi ástand.

Nefna má nokkur dæmi um slíkar bylgjur svo sem fyrir rúmri öld þegar hreyfingar anarkista og sósíalista ruddu sér til rúms og stórir sósíaliskir flokkar urðu til.

Þessir flokkar komu að vísu umróti af stað með róttækni sinni, en kveikjan að fylgi þeirra var þó réttmæt gagnrýni á ríkjandi ástand.  

Eftir Fyrri heimsstyrjöldina áttu flokkar sem aðhylltust borgaralegt lýðræði í vök að verjast og fóru sósíaldemókratar ekki varhluta af því.

Þeir voru sakaðir um það sem aflaga fór í þjóðfélögunum og þá veikleika, sem til dæmis hrjáði Weimar-lýðveldið í Þýskalandi, auk þess sem stórir gallar og ýmis óréttlát ákvæði Versalasamninganna voru vatn á myllu róttækra hægri flokka svo sem fasista á Ítalíu og Spáni og nasista í Þýskalandi.

Það væri einföldun að segja að það, hvernig hörð þjóðernishyggja og fasismi breiddust út um Evrópu, hafi eingöngu verið af hinu illa, því að þessar hreyfingar hefðu ekki náð þessari útbreiðslu ef þær hefðu ekki getað nærst á réttmætri óánægju með ýmsa hluti, sem lýðræðislegu flokkunum tókst ekki að færa til betri vegar.

Á fyrsta áratugnum eftir Seinni heimsstyrjöldina óx mjög fylgi kommúnista í Evrópu, ekki aðeins með valdbeitingu Sovétríkjanna í Austur-Evrópulöndunum, heldur urðu kommúnistar mjög öflugir í nokkrum löndum Vestur-Evrópu, svo sem í Grikklandi og Frakklandi, og á Ítalíu.

Ekki má gleyma því að hér á Íslandi varði Sameiningarflokki íslenskrar alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, Stalín og kommúnismann í Austur-Evrópu í rúm tuttugu ár.

Mikið fylgi kommúnista á þessum árum þreifst aðallega vegna óánægju með bágborið ríkjandi ástand eftir eyðileggingu styrjaldarinnar.  

Kommúnistar á Grikklandi voru barðir niður í borgarastyrjöld í striðslok með inngripi Breta, enda hafði Grikkland fallið þeim í hlut í samningi Stalíns og Churchills í Yalta.

Með Marshall-aðstoðinni tókst Bandaríkjamönnum að slá á óánægjuna í Vestur-Evrópu og lýðræði hélt velli nema á Spáni og í Portúgal fram eftir öldinni og komst á um tíma í Grikklandi.

Helsti munurinn á óánægjufylginu nú og á fyrstu árunum eftir stríð er sá að nú eru það þjóðernissinnaðir flokkar yst til hægri sem helst nærast á óánægju með ríkjandi ástand, en eftir stríð voru það flokkar lengst til vinstri.

Ástæðan er líklega sú, að nú er það langt síðan flokkar með þjóðernishyggju og alræði sem stefnu biðu skipbrot í heimsstyrjöld, að fælingarmáttur styrjaldarinnar gagnvart slíkum flokkum hefur fjarlægst, enda er ekki hægt að segja að þessir flokkar haldi fasisma eða einræði stíft fram, heldur frekar harðri þjóðernisstefnu með andófi gegn fjölmenningarstefnu og innflutningi útlendinga.

Hátimbrað kerfi ESB og stefna þess er ákjósanlegt skotmark þeirra sem vilja breytingar og leita að blóraböggli.

Rétt eins og á árunum fyrir Seinni heimsstyrjöldina er mikið og viðvarandi atvinnuleysi skaðvaldur, sem skapar gróðrastíu fyrir róttæka flokka til hægri.

Nasistar sökuðu sósíaldemókrata um að hafa valdið ósigrinum í Fyrri heimsstyrjöldinni, af því að það kom í þeirra hlut að standa að vopnahléi og óréttlátum friðarsamningum.  

Það vill gleymast að skefjalaus gróðahyggja fjármálaaflanna, sem naut velvilja þeirra hægri manna, sem minnst taumhald vildu hafa á slíku, olli efnahagshruninu 2008 sem ekki sér enn fyrir endann á.

Það leiddi af sér ófarnað í Grikklandi og fleiri löndum í sunnanverðri Evrópu auk Írlands og Íslands sem höfðu tekið ástfóstri við hinn mikla átrúnað á ótakmarkaða möguleika fjármálakerfisins til að þenja sig út.

En nú reynist auðvelt að saka stefnu og tilvist ESB um vandamál nútímans, enda er óhjákvæmilegt fyrir sambandið að líta í eigin barm, enda valdhlutföllin á þingi þess orðin þess eðlis að ekki verður hjá því komist.

Fjórðungs fylgi róttækra þjóðernissinnaðra flokka í nokkrum löndum er merki um að umbóta sé þörf í stjórnmálum álfunnar.  

    


mbl.is Margir vilja að Clegg segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er satt hjá þeim öllum: Ólýsanleg tilfinning.

Maður fyllist stundum efa um að orð íþróttafólks um ólýsanlega tilfinningar segi nákvæmlega sannleikann um hugarstand þess í lok leikja, þar sem því hefur orðið ljóst að það standi uppi sem sigurvegarar.

Þetta getur virkað svolítið yfirdrifið í augum þess sem ekki hefur staðið í slíkum sporum svona eins og að viðkomandi íþróttamaður sé svolitið að ýkja.

Þetta kemur upp í hugann við lestur viðtals við Aron Pálmarsson í dag, vegna þess að ég veit af eigin reynslu að svona augnablik geta komið upp.

Þegar ég lít til baka yfir farinn æviveg efast ég stundum um hvort það hafi verið þess virði að taka 38 sinnum þátt í rallkeppni og eyða öllum þeim mikla tíma og peningum í það, sem gert var, - hvort ég hefði ekki átt að gera eitthvað þarfara en það.

En niðurstaðan verður ávallt sú að sjá ekki eftir neinu í því efni. 

Hvers vegna?

Af því að tilfinningin í einu af þessum 38 tilvikum var ólýsanleg. Það var þegar við bræðurnir vorum á leiðinni frá Gunnarsholti til Reykjavíkur á Simca 1110 bíl okkar  í lok fyrsta langa rallsins, sem haldið var á Íslandi og okkur varð ljóst að sigur okkar var í höfn nema eitthvað gersamlega ótrúlegt gerðist, vélarbilun á síðustu ferjuleiðinni til Reykjavíkur eða eitthvað slíkt.

Á ferlinum upplifðum við sigur í 18 skipti af þessum 38, en þetta eina skipti var algerlega sérstakt, af því að í safn minninganna bættist lífsreynsla, sem ég hefði ekki fyrir nokkurn mun vilja missa af, jafnvel þótt þetta hefði verið í eina skiptið sem okkur tókst það sem svona keppni snýst um.

Þessi tilfinning kom aldrei fyllilega aftur í þessum mæli við hliðstæð tækifæri í hin 17 skiptin, hvað þá í öll þau skiptið sem annað sætið varð hlutskipti okkar, og þetta eina skipti réttlætti allt það blóð, svita og tár, sem var óhjákvæmilegt að úthella í þau tíu ár, sem við kepptum saman í gegnum sætt og súrt.

Þetta virkar áreiðanlega hallærislega þegar ég segi þetta í augum þeirra, sem lesa það, en svona er það nú samt, og svipuð orð eru áreiðanlega sönn og rétt hjá öllum þeim, sem hafa upplifað svipað og sagt frá því opinberlega.

Rallið var afar lærdómsríkt og þroskandi, því að það er útilokað að taka þátt í því án þess að þurfa að sætta sig við mistök, ófarir og ósigra og reyna að læra af þeim og vinna úr þeim, - að geta stundum litið um öxl og séð, hvernig hægt hefði verið að komast hjá þeim mörgum og gera enn betur og fyllast þá jafnvel þeirri tilfinningu að sjá eftir því að hafa verið að standa í þessu.  

En eftir standa ótal skemmtilegar sögur af atvikum og lífsreynslu, sem maður deilir með fjölda annarra og hefðu annars hefðu ekki orðið til; - gaman að skrá og setja á blað, og síðan aðalatriðið: Við undirbúninginn og keppninni í hverju þessara 38 ralla, kynntist maður landi sínu og fólki enn betur og á annan hátt en í venjulegum ferðalögum, auk þess sem mörgum leiðunum og slóðunum, sem keppt var á, hefði maður aldrei kynnst nema vegna þessarar þáttöku.

Og einnig það að átta sig á því hve dýrmætt er að þakka forsjóninni fyrir það lán að sleppa í gegnum þetta án stóráfalla og fá að gleðja sig við heildarútkomuna siðar meir. 

Með því að upplifa landið á svona marga vegu í keppni, vinnu og í frístundum, gangandi, ríðandi, hljólandi, akandi og fljúgandi á öllum árstímum í öllum veðurskilyrðum, safnaðist í reynslusjóð sem reyndist mér ómetanlegur við að ljúka lífsstarfi mínu.

Það er bara þannig.  


mbl.is Sá langsætasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöglegt er alltaf ólöglegt.

Þegar núgildandi lög um dýravernd voru í meðferð Alþingis fyrir meira en ári, voru dragbítar í landbúnaðarkerfinu búnir að gera allt sem þeir gátu til að koma nokkrum atriðum frumvarpsins fyrir kattarnef og höfðu meðal annars komið því í gegn að leyfilegt væri að gelda svín án deyfingar.

Þetta vakti mikinn kurr og sem betur fer áttaði meirihluti þingmanna á þessu og tókst að samþykkja lög með ýmsum umbótum í dýravernd, meðal annars því að ódeyfðar geldingar væru bannaðar.

Ljóst er af þessu að dragbítarnir á umbætur hafa ekki látið sér segjast, heldur halda bara áfram ári síðar hinu ólöglega athæfi, allir sem einn, en neita því samt að það brjóti við lög með því að halda því fram að það taki svo langan tíma að framkvæma breytingarnar.

Ef í lögunum hefði verið sett ákvæði um ákveðinn umþóttunartíma, til dæmis einhver ár, til breytinganna, hefði verið hægt að halda fram svona fullyrðingum.

En ekkert í tilkynningu svínabændanna gefur til kynna neitt annað en að þeir geldi svínin á ólöglegan hátt og meðan svo er er það athæfi auðvitað ólöglegt.

Andspyrnan við það að stunda mannúðlega meðferð á dýrum er rík víða um lönd og einnig hér á landi.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá var sett ákvæði um dýravernd, líklega það fyrsta í heiminum, og nýjustu fréttir af þeim málum sýna, að á því er full þörf að binda slíkt ákvæði í stjórnarskrá.


mbl.is Svínabændur hafna fullyrðingum um lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband