Tvísýnn eltingarleikur lyfjanna við bakteríurnar.

Þegar penesillin kom til sögunnar fyrir um 70 árum héldu menn, að nú væri hin endanlega vörn fundin gegn bakteríum og veirum. Og lengi vel virtist þessi bjartsýni vera raunhæf. Á tímabili leit allt út með rósrauðum blæ.

Þegar ég spurði eitt sinn Sæma rokk, hvað hefði verið svona sérstakt við þann tíma, sem við vorum upp á okkar besta, svaraði hann:

"Þetta var tímabil sem kemur aldrei aftur, - eftir syfilis og fyrir AIDS."

Á síðustu áratugum hefur hallast á ógæfuhlið vegna þess að myndast hafa bakteríur sem skapað hafa sér ónæmi gegn sýklalyfjum.

Þetta hefði ekki þurft að gerast ef sýklalyfin hefðu verið rétt notuð, þ. e. aðeins þegar brýn þörf var fyrir þau og síðan ávallt þannig, að kúrinn var kláraður þannig að það lægi óyggjandi fyrir að búið væri að uppræta sýkinguna gersamlega.

En því miður var hvorugs alltaf gætt, heldur óft verið að nota lyfin í tíma og ótíma og slegið slöku við að taka þau reglulega inn eða að drepa sýkinguna alveg alla.

Einna stórvirkastan þátt áttu langt leiddir eiturlyfjaneytendur í þessu með því að taka lyfin svo óreglulega inn að bakteríurnar,sem lifðu af, höfðu myndað með sér ónæmi gegn lyfjunum.

Síðustu árartugina hefur staðið yfir dramatískur eltingarleikur sýkla og lyfja. Til að drepa sífellt ónæmari og sterkari sýkla hefur þurft ný og öflugri sýklalyf.

Þegar sýkingin er mjög heiftarleg eiga læknir og sjúklingur oft ekki um neitt að velja: Annað hvort að nota sterkasta lyfið, þrátt fyrir hugsanlega heiftarlegar hliðarverkanir, eða að hætta á algeran ósigur fyrir sýkingunni með dauða sjúklings sem endalok.

Ég lenti í þessu fyrir sex árum, og venjuleg sýklalyf höfðu ekki minnstu áhrif á stórfellda og hraðvaxandi sýkingu í stóru graftarkýli í baki, sem náði á nokkrum sólarhringum frá hrygg út í síðu og stefndi í að sprengja lífhimnuna, en þá var leikurinn tapaður.

Eina lyfið, sem von var til að gæti drepið sýkinguna heitir Augmentin, en er svo sterkt, að í mörgum tilfellum gengur inntaka þess fram af lifrinni, framkallar svonefndan lifrarbrest sem veldur stíflugulu og ofsakláða, sem rænir sjúklinginn öllum svefni í minnst tvo til þrjá mánuði.

Engin deyfilyf er hægt að taka við við kláðanum og þjáningunum, vegna þess að lifrin virkar ekki, getur ekki unnið úr lyfjagjöfinni.

Engum mannni óska ég svo ills að ganga í gegnum svona helvíti en þakka fyrir, að það fannst þó lyf sem gat unnið á hinum skæðu sýklum og bjargað lífi mínu.

Því miður virðist þetta kapphlaup sífellt sterkari sýkla og sífellt sterkari lyfja ekki vera á enda, og því er framtíðin í þeim efnum og möguleikar læknanna tvísýnir.

Það lítur ekki vel út ef einu lyfin, sem geta drepið viðkomandi sýkla, er svo sterkt að það drepur líka sjúklinginn.  

 Samt verður að halda í vonina.

Þegar alnæmi kom fyrst fram, var það þess eðlis, að það sýndist gersamlega vonlaust að ráða neitt við það og lífslíkur sjúklinganna engar.

Það hefur breyst til skárri vegar þótt endanlegur sigur hafi að vísu ekki unnist.

En þó sýnist það vera kraftaverk hve langt læknavísindin hafa samt komist í baráttunni við þann skelfilega sjúkdóm.    


mbl.is MÓSA berst aðallega með snertingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið, fuglarnir og stúdentarnir.

Maí er sá mánuður ársins sem að meðaltali er með hæsta loftþrýstinginn hér á landi, minnsta vindinn og minnstu úrkomuna.

Í maí hefst "nóttlaus voraldar veröld" eins og skáldið lýsti sumrinu íslenska.

Í maí springur allt út og fuglarnir eru komnir til að gera sér hreiður og verpa og stúdentarnir að fljúga úr sínu námshreiðri unglingsáranna til æðra náms.

Í síðustu viku eignaðist ég nýjan vin, Spóa Spóason, sem heilsaði upp á mig úti á túni við Hvolsvöll fyrir fimm dögum og kom síðan aftur, betur, oftar og lengur til mín í dag, spígsporaði spekingslegur á svip í kringum FRÚna og gamla Cuore-bílinn, sem ég sat í við vinnu á tölvu.

Hann kom alveg upp að bílnum og við horfðumst jafnvel í augu í gegnum framrúðuna.

Hann var þarna á vappi í þær klukkustundir sem ég var þarna. 

Það er staðreynd að margir fuglar laðast að flugvélum og er næsta umhverfi flestra flugvalla á Íslandi dæmi um það.

Kannski finnur Spói Spóason til einhverrar samkenndar með þeim, sem lyftir sér á málmvængjum til flugs, flýgur lengur eða skemur og sest aftur.

Að minnsta kosti finn ég til samkenndar með Spóa Spóasyni og er ákaflega glaður yfir því að hafa eignast svona náinn vin úti í náttúrunni í fyrsta sinn í 60 ár, eða allar götur síðan ég var strákur í sveit að Hvammi í Langadal.

Kannski þekkir Spói Spóason eða skynjar þann mannlega veruleika sem birtist í máltækinu að tvisvar verði gamall maður barn.

Að minnsta kosti fór um mig gamalkunnugur æskustraumur í dag í nærveru þessa skemmtilega fugls, sem nú verður náinn vinur minn í sumar ef Guð lofar. Þetta flaug mér í hug:

Lifna mýri og mói.

Minnir unaðslegt vorið á sig.

Spekingslegur spói

sprangar í kringum FRÚna og mig.  

Ætla að reyna að setja nokkrar myndir að austan inn á facebook síðu mína, sem voru teknar í dag.  


mbl.is „Góðir kennarar kveikja áhuga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannauðurinn í sveitunum.

Það hefur lengi loðað við íslenska bændur, að furðu margir innan þeirra raða hafa verið sjálfmenntaðir heimsborgarar, sem fylgdust jafnvel betur með heimsmálunum en háskólamenntað fólk erlendis.

Í bók minni, Manga með svartan vanga, segi ég frá Þorvaldi Péturssyni, "kotbónda" á Strjúgsstöðum í Langadal, sem ég kynntist fyrir 60 árum og reyndist vera allt annar maður en fátækleg kjör hans og útlit gáfu til kynna.

Þetta var ekki algengt fyrrum en miklu algengara en erlendis á sama tíma.

En nú er þetta orðið algengt.

Ég skrifa þennan pistil á túninu í landi Vestari-Garðsauka við Hvolsvöll. Skrifa hann um borð í TF-FRÚ en skýst líka yfir í gamla örbílinn minn til að sinna öðrum tölvu- og netverkum.

Svona er nú tækni nútímanst búin að opna fjarskipti og samskipti og eyða einangrun.  

Bóndinn, Jón Logi Þorsteinsson, er ekki heima þessa dagana heldur hefur annríkt við að vera leiðsögumaður.

Í því starfi getur hann auðveldlega notað að minnsta kosti fjögur tungumál, sem hann talar reiprennandi, og ekki skortir þekkinguna fyrir ferðamennina, því Jón Logi er heimsborgari í hugsun og einhver fróðasti maður á mörgum ólíkum sviðum, sem ég þekki.  

Yfir bústörfunum og barnahópnum þeirra unga vakir því kona hans, Kristín, sem er skráður lögmaður í símaskránni, þýsk að uppruna, en talar íslensku svo vel, að það er algerlega óaðfinnanlegt.

Hún er líka með meirapróf á rútu og sjálfsagt sitthvað fleira tiltækt til að sýsla við. 

Þau hjónin reka bæði búskap á jörðinni en einnig gistiheimili og ferst allt vel úr hendi.

Unga fólkið, sem er að alast upp á landsbyggðinni, er vel menntað og snjallt. 

Næsta fimmtudag mun ég líta við hjá hóp þeirra, sem ætlar í óháð framboð hér í sveitinni og vill nálgast sveitarstjórnarmálin, - en meira en 90% af viðfangsefnum þeirra eru þverpólitísk, - á nýjan og ferskan hátt, þar sem þau vilja brjótast út úr aldargömlum viðjum hinna hefðbundnu íslensku  stjórnmálaflokka.

Ég er sannfærður um að mannauðurinn í dreifbýlinu eigi mikla möguleika til þess að bæta og bylta mörgu hér á landi og hlakka til að sjá hann taka til hendi og sjá hvað getur gerst.     


mbl.is Systirin sló bræðrunum við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Áunnin fáfræði".

Einn af stærstu göllum svonefndrar lýðræðislegrar umræðu er sá, að hún er oft skelfilega yfirborðskennd og byggist á því að þeir, sem hæst láta og mest heyrist í, varpa fram stórum fullyrðingum, sem fela ýmist í sér stórfellda einföldun, bjögun á staðreyndum eða hvort tveggja.

Umræða um húsnæðismál hefur áður verið uppi fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. 1958 varpaði Morgunblaðið, sem Bjarni Benediktsson ritstýrði, fram sprengju í umræðuna í formi svonnefndrar Gulu bókar, en í henni var að sögn blaðsins birt stefna vinstri flokkanna í borgarstjórn, þar sem stefna ætti að því að þvinga allra alþýðu inn í bæjarblokkir að sovéskri fyrirmynd og koma í veg fyrir að fólk gæti átt eigið húsnæði.

Svo fáir dagar voru til kosninganna að í krafti yfirburða sinna á blaðamarkaðnum tókst að gera þá mynd sem Mogginn dró upp að aðalatriði kosninganna. Nokkrar setningar og vangaveltur í Gulu bókinni sem var uppkast nefndar nokkurrar, sem enginn hafði áður heyrt um, urðu að stefnu minnihlutaflokkanna í borgarstjórn, hvernig sem þeir reyndu að berjast um á hæl og hnakka við að afneita því.

Ekki voru kosningarnar fyrr um garð gengnar en að Gula bókin hvarf jafn skjótt og hún hafði birst og hefur aldrei verið minnst orði á hana síðan. Þess vegna sagði ég í gamanvísunum "Bjargráðin" seinna sama ár um leit mína að Bjarna Ben:

"Ég leitaði að Bjarna Ben sem best veit hlutina

og sá hann fyrir utan sorpeyðingarstöðina, -  

hann var að fara með gömlu góðu Gulu bókina" 

 Og uppskar hlátur, því að eftir á var öllum ljóst hvað hafði verið á seyði, snjallt kosingabragð, sem fólst í því að enginn tími gafst til málefnalegrar umræðu og fólk hafði hvorki tíma né nennu til að setja sig inn í málið. En trix Bjarna virkaði á kjördegi.  

Nú eru húsnæðismálin aftur á dagskrá og upphrópanir á báða bóga. "Það á að troða öllum inn í sovéskar bæjarblokkir" er sagt um stefnu Samfylkingarinnar og um stefnu Sjálfstæðisflokksine er sagt: "Íhaldið vill að fólk verði á götunni".

Venjulegur kjósandi telur sig hvorki hafa tíma né nennu til að setja sig inn í flókin mál og í stað málefnalegrar og upplýstrar umræðu ríkir ástand sem ég upplifði þegar ég gafst upp á því árið 2006 að koma á framfæri staðreyndum og fróðleik varðandi virkjanamál.

Líkt og talað er um "áunna sykursýki" má lýsa þessu ástandi í hugum margra með hugtakinu "áunnin fáfræði," - fólk  lokar augunum fyrir því sem því finnst vera óþægilegar staðreyndir, - vill ekki vita allt það sem það þyrfti að vita.  

 


mbl.is Skortur á málefnalegum umræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband