Aðalkosningamálið: 9 metra spíra orðin að "helsta kennileiti borgarinnar."

Það vill svo til að frá barnæsku hef ég verið nörd í landafræði, sem stundum hefur virst smásmuguleg.

En fyrir bragðið þekki ég nokkrar staðreyndir án þess að þurfa að fletta þeim upp varðandi það mál, sem hefur orðið svo langmest umrædda málið fyrir borgarstjórnarstjórnarkosningarnar nú, að héðan af verður því ekki breytt.

Hér eru nokkrar staðreyndir:

Í rúm 20 ár, fram til ársins 1944, var Landakotskirkja "helsta kennileiti borgarinnar" af því turn hennar náði upp í 52ja metra hæð yfir sjó og sást í tuga kílómetra fjarlægð frá borginni. 

"Það er nú einu sinni þjóðkirkja hér á landi" segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir núna um 9 metra háa turnspíru í Sogamýri, en hvað hefði hún sagt í þá tvo áratugi sem kaþólsk kirkja var helsta kennileiti borgarinnar.

1944 bættist Sjómannaskólinn við með turn, sem náði upp í um 70 metra hæð yfir sjó og varð að öðru af tveimur helstu kennileitum borgarinnar, og þessi tvö kennileiti réðu ríkjum fram undir 1970, eða í tæpa hálfa öld, og annað þeirra var var kaþólsk kirkja, ekki þjóðkirkja.

Þegar Hallgrímskirkja kom til sögunnar er hún óumdeilanlega helsta kennileiti borgarinnar, með 74 metra háum turni, sem teygir sig upp í 112 metra hæð yfir sjó.

Hún sést um allan sunnanverðan Faxaflóa, sést ofan frá Mýrum, Akranesi, Kjalarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsheiði, Svínahrauni og af öllum norðvestanverðum Reykjanesskaga út á Suðurnes.

Nú bregður svo við að 220 manna trúfélag er talið svo hættulegt, án þess að nokkrar sönnur hafi verið færðar á það hafi í neinu brotið gegn siðum eða allsherjarreglu, að það eigi, eitt allra trúfélaga, skilið að verða svipt réttri trúfélaga til úthlutunar á lóð, og að eftir 14 ára bið þessa trúfélags eftir úthlutun, þurfi að afturkalla hana og láta kannski enn ein 14 ár í viðbót bætast við.

Turnspíran, sem nú er talin verða að "helsta kennileiti borgarinnar" nær í mesta lagi í einn sjöunda af hæð Hallgrímskirkju yfir sjó, og auðvelt væri, ef menn endilega vilja það, að "fela" hana með skógrækt í kringum þessa lóð.

Ég kleip mig í handlegginn fyrir viku þegar stóra moskumálið varð að aðalmáli heilla kosninga og ég klíp mig enn.   

 


mbl.is „Drögum ekki fylgi frá öfgahópum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túrbínutrixin.

Túrbínutrixið, sem ég kalla svo, var þegar stjórn Laxárvirkjunar keypti árið 1970 túrbínur í stórstækkaða virkjun sem byggjast átti á því að sökkva Laxárdal undir lón og veita Skjálfandafljóti í Kráká, Mývatn og nýja lónið.

Þegar andstaða varð við þetta hjá landeigendum og fleirum, sem ekkert hafði verið rætt við eða talað við, var þeim stillt upp við vegg sem ábyrgðarmenn á stórfelldu tjóni sem myndi verða ef túrbínurnar yrðu ónotaðar.

Sigurður Gizurarson verjandi andófsfólksins, sneri ábyrgðinni hins vegar við og benti á að eðlilegt væri að afleiðingarnar af siðlausu frumhlaupi og yfirgangr túrbínukaupendanna yrðu á ábyrgð þeirra sjálfra.   

Síðan hafa svipuð trix verið notuð aftur og aftur. Nýjasta afbrigðið kom fram í frétt Kristjáns Más Unnarssonar þess efnis, að Landvirkjun hefði ráðstafað 75 megavöttum frá hinni nýju Búðarhálsvirkjun með samningi við Ríó Tintó sem hefur samt komið þannig út, að Ríó Tintó getur komist upp með það að nota ekki nema 30 megavött af þessum 75 en halda 45 megavöttum í gíslingu, en það myndi nægja og vel það fyrir eina af þeim kísilverksmiðjum sem nú banka á dyrnar hjá okkur.

Og í morgun kom fram í fréttum að Landsvirkjun teldi sig verða að fara þegar í stað út í virkjanir í Þjórsá til að útvega orku fyrir þar kísilverksmiðjur sem nú banka á dyrnar.

Þegar litið er baka yfir síðasta áratug sést hvernig íslensk valdaöfl og ráðamenn hafa hamast við að selja mesta orku á útsölu- eða gjafverði til mestu orkubruðlara heims, álver.

Í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2007 héldum við í Íslandshreyfingunni því stíft fram, að þessi stefna væri hreint glapræði, því að til væru orkukaupendur, sem myndu vilja borga mun hærra verð, nota mun minni orku miðað við framleiðslu og framlegð og skapa betri og betur launuð stöf og miklu fleiri störf miðað við orkueyðslu en álverin sköpuðu.

Þótt við bentum þá strax á gagnaver og fleiri tegundir af verksmiðjum, töldu áltrúarmenn þetta rangt hjá okkur

En annað hefur nú komið í ljós, - nákvæmlega það sem við sögðum, að það hefði átt að bíða og hætta strax á þeirri braut að auka orkusölu til álveranna og eiga frekar orku til mun betri kaupenda.

En í því hvernig áltrúnaðurinn hefur mokað orkunni til álveranna hefur falist risavaxið túrbínutrix, sem felst í því að þegar reynt er að bjarga náttúruverðmætum, og að vísa ábyrgð af stöðunni til þeirra sem bjuggu þessa stöðu til, þá stilla áltrúarmenn andófsfólkinu og landsmönnum upp við vegg með því það taki afleiðingunum af alrangri og siðlausri stefnu stóriðjufíklanna.

  

    


mbl.is Framkvæmdir á Bakka hefjist í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smæð þjóðfélagsins getur verið kostur.

Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar. Slæmar fréttir?  Nei, góðar fréttir ef það er skoðað, að uppgangsfyrirtæki á Íslandi er hlutfallslega þúsund sinnum mikilvægara fyrir örþjóð eins og okkur heldur en stórþjóð eins og Bandaríkjamenn.

Þess vegna er gott gengi íslensks fyrirtækis á hinum stóra alþjóðlega markaði svo dýrmætur fyrir okkur og svo mikilvægt fyrir okkur að hlúa að slíkum rekstri.

En þá verður líka að búa svo um hnúta að fyrirtækið hafi aðstöðu til þessarar alþjóðlegu samkeppni, þótt það sé staðsett hér á landi, skapi störf hér á landi og skili arðinum hingað.

Meðan gjaldeyrishöft og þröngsýni ríkja hér er hætt við að um leið og vel fer að ganga fyrir íslenskt fyrirtæki á alþjóðlegum markaði, missum við það úr landi.  


mbl.is Sjá stór tækifæri um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband