Það var ekki púað á Vladimir Kuts í Melbourne.

Á Ólympíuleikunum í Melbourne í desember 1956 grúfði dimmt ský yfir heimsstjórnmálunum. Rússar höfðu fyrr um haustið sent herlið inn í Ungverjaland og bælt niður uppreisn þar gegn alráðum og spilltum valdhöfum, leppum Sovétríkjanna, og Bretar og Frakkar höfðu ásamt Ísraelsmönnum ráðist á Egypta til að hrifsa af þeim Súesskurðinn.

Sovétmenn áttu marga afburða íþróttamenn á þessum tíma, sem settu svip á Ólympíuleikana í Melbourne, svo sem Vladimir Kuts, sem hreppti gullið, bæði í 10 kílómetra hlaupinu og 5 kílómetra hlaupinu, Bretum til mikilla vonbrigða, af því að þeir höfðu árin á undan átt bestu millivegalengda- og langhlaupara heims, svo sem Gordon Pirie, Derek Ibbotson, Chris Chataway og Roger Bannister, sem fyrstu manna hljóp mílu á innan við 4 mínútum.

Í Melbourne var leitast við að blanda ekki saman íþróttum og stjórnmálum, og þar baulaði enginn á Kuts, þegar hann vann afrek sín. Né heldur minnist ég þesa að slíkt hafi verið gert gagnvart öðrum keppendum Sovétríkjanna. 

Mér fannst rússneska lagið gott í gærkvöldi og afar vel flutt, vonaðist til þess fyrirfram að það kæmist áfram og varð að ósk minni. Ég fæ ekki séð hvað rússnesku tvíburasysturnar gerðu svona mikið af sér til að verðskulda baul áhorfenda.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur hingað til verið haldin án þess að stjórnmál og erfiðleikar í samskiptum þjóða og þjóðarbrota hafi verið látin hafa áhrif á hana. 

Það hefur gefist illa og leitt til ósamkvæmni, til dæmis varðandi Ólympíuleikana 1980 og 1984 að blanda saman íþróttum og stjórnmálum og hef ég rakið það áður hér á bloggsíðunni.

Útskúfun Suður-Afríku frá leikunum meðan aðskilnaðarstefnan ríkti þar í landi var undantekning, sem stafaði af því að íbúum landsins var gróflega mismunað í þáttöku í leikunum, en það stríðir beint gegn Ólympíuhugsjóninni og reglum leikanna.

Það á að forðast það eins og hægt er að blanda saman annars vegar listum og íþróttum og hins vegar stjórnmálum, enda er það mjög oft vonlaust.

Nasistar reyndu að eigna sér og nota tónlist Wagners, sem auk þess er sagður hafa sýnt einhverja andgyðinglega tilburði, og sumum fannst þvi eftir á nasisminn beið afhroð, að þessi tónlist ætti að fara svipaða leið og hann.

Sem betur fer var hin stórkostlega tónlist Wagners þess eðlis að hún mun um alla framtíð standa af sér alla misnotkun eða árásir.

Sama á við við þjóðsöngva Sovétríkjanna og Þýskalands, sem reynt var að víkja til hliðar og meira að segja gerður nýr þjóðsöngur fyrir Rússland eftir að Sovétríkin féllu.

En það var vonlaust og báðir þjóðsöngvarnir lifa, einfaldlega af því að það er ekki hægt að drepa þá, þeir eru svo góðir!

Að maður nú ekki tali um þann breska og þann franska !

 

 


mbl.is Púað á rússnesku tvíburana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sama og Eichmann sagði.

Það getur verið göfugt að setja sér það mark að útrýma einhverju, svo sem fátækt. Oftast er það þó þannig, að ómögulegt er að ná takmarkinu. 

Mikilvægast er að missa aldrei sjónar á takmarki, sem fólk setur sér, eins og hinn slungni erlendi sölumaður benti á í fyrirlestri sínum, sem vitnað er í á mbl.is í dag.  

Tvær setningar þekkja allir Íslendingar sem hafðar eru eftir Jóni Sigurðssyni; "vér mótmælum allir" og "aldrei að víkja" eða öllu heldur "eigi víkja!".

Þá fyrri sagði hann en hina síðari aldrei. Honum var á stórafmæli gefið innsigli með kjörorðinu "eigi víkja!" en notaði áfram sama innsiglið og fyrr.

Hvergi eru til gögn um það að Jón hafi sagt eða skrifað "eigi víkja!"

Var hann þó sjálfstæðishetja okkar Íslendinga, sams konar brautryðjandi og listaverkið á fótstalli styttunnar af honum á Austurvelli táknar.  

En Jóni var ljóst að Íslendingar höfðu því miður enga burði á hans tíð til að vera algerlega sjálfstæð þjóð og að slíkt myndi ekki takast fyrr en löngu eftir hans dag. 

En jafnvel þótt hann segði aldrei "eigi víkja!" hefur það vafalaust verið honum efst í huga að missa aldrei sjónar á lokatakmarkinu, sama hversu langt það væri framundan.

Á tímabili var talið mögulegt að útrýma berklum og það takmark sett, en það hefur ekki tekist fullkomlega. 

Stundum dettur okkur í hug að útrýma meindýrum og ófögnuði úr hýbýlum okkar eins og flugum og rottum, en með ólíkindum er hvernig Hitler líkti Gyðingum við meindýr, sem þyrfti að útrýma og hve margir tóku þátt í því með honum að stefna að útrýmingu þeirra.  

Í viðtali sem tekið var einn helsta samstarfsmann Hitlers og Himmlers, Adolf Eichmann, áður en hann var gómaður og færður fyrir dómstól í Ísrael, sagði hann að það versta við Helförina hefði verið að aðeins hefði tekist að drepa 6 milljónir Gyðinga en ekki alla, alls 10,5 milljónir.

Skelfilegt er þegar lifandi manneskjur eins og bandarísku kynþáttahatararnir, sem dæmdir voru í lífstíðarfangelsi, segjast sjá mest eftir því að hafa ekki drepið fleiri.

En um hinn "hinn viti born mann", "homo saphiens" gildir víst það sem faðir minn heitinn sagði oft: "Svo er margt sinnið sem skinnið."  


mbl.is „Ég vildi að við hefðum drepið fleiri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Til hamingju, Ísland", - í gegnum "múrinn".

Í miklu áreiti yfirgengilega mikils upplýsingaflóðs fjölmiðlunar nútímans þarf mikið til að komast í gegnum þann þykka múr, sem bora þarf í gegnum til að eftir sé tekið.

Það er ekki alltaf það besta sem "slær í gegn" eins og það er kallað og oft tilviljun, hvað það er.

Vei þeim, sem ekki kemst í gegn.  

Lagið naut þess að vera ólíkt öðrum lögum en ekki síst þess hvernig múgurinn í höllinni sleppti sé alveg í lok þess og tók undir með strákunum. Sú massaða stemning skilaði sér heim í stofu hjá sjónvarpsáhorfendum og hafði ekki heyrst fyrr í þessum mikla mæli.  

Boðskapur Pollapönkara, einlægni þeirra, dugnaður, fjör og styrkur skilaði þeim þó í gegnum múrinn í gærkvöldi. Flutningurinn var sterkari, betri og vandaðri en nokkru sinni fyrr, og það er óhætt að segja það sem nú á við og Sylvía Nótt hóf söng sinn á fyrir átta árum, án þess að komast í gegnum múrinn: "Til hamingju, Ísland! "


Samkomulag byggt á forkastanlegum blekkingum.

Til ævarandi skammar vegna forkostanlegra blekkinga verður samkomulagið, sem gert var fyrir tveimur árum í samgönguáætlun þess efnis að engar alvöru samgöngubætur yrðu í Reykjavík næstu 10 ár, en jafnframt rokið í gersamlega óþarfa gerð nýs Álftanesvegar á þeim upplognu forsendum að hann væri hættulegasti vegarkaflinn á höfuðborgarsvæðinu og orðinn allt of fjölfarinn.

Hvort tveggja reyndist alrangt þegar flett var ofan af því vegna Gálgahraunsdeilunnar. Vegurinn reyndist vera í 22. - 23ja sæti varðandi slysatíðni, eftir því hvaða aðferð var notuð, og umferðin um hann nær enn ekki 7000 bílum á dag, en 15000 bílar á dag er talin lágmarksumferð til að réttlæta breikkun vegar úr 1+1 í 2+1.

Þetta verður ævarandi hneisa fyrir íslenska stjórnmálamenn vegna þess að að henni stóðu stjórnmálamenn úr öllum flokkum, en þó fyrst og fremst meirihluti bæjarstjórnar Garðabæjar, sem beitti blekkingunum.

Aðrir virðast hafa samþykkt þetta sofandi en bera samt ábyrgð, enda þótt áróðurinn um hinn hættulega og allt of fjölfarna veg væri svo yfirþyrmandi, að búið var að blekkja alla þjóðina.

Kostir fulltrúalýðræðisins virka nefnilega ekki, ef fulltrúarnir vinna ekki vinnuna sína almennilega. 


mbl.is Engar stórframkvæmdir í samgöngumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband