Þúsundir stórslysa hefðu getað orðið.

Flugatvik, sem flokkast undir hugtakið "near miss" á ensku, eða "næstum árekstur" á íslensku, skipta þúsundum. Allir þeir, sem hafa verið í flugi að einhverju ráði kannast við atvik þar sem litlu hefur munað.

Sem betur fer verður ekki af árekstri nema í örfá skipti, en þá geta þau orðið mjög alvarleg vegna þess að tvö loftför eiga í hlut og oftast verða bæði stjórnlaus.

Mannskæðustu slys flugsögunnar hafa orðið við árekstur tveggja flugvéla og verst var slysið á Tenerifeflugvelli fyrir rúmum áratug þegar 583 fórust.

Fleiri slys á flugvöllum má nefna, bæði þegar flugvélar hafa lent á öðrum flugvélum í lendingu eða lent á annarri flugvél í flugtaki eins og á Tenerife.

Síðan eru árekstrar í mikilli hæð, og minnisstætt er hve það vakti mikinn óhug um allan heim árið 1958 þegar tvær vélar af stærstu gerð þess tíma rákust á yfir Miklagljúfri í Bandaríkjunum og fórust báðar með manni og mús.

Vaxandi flugumferð eykur slysahættuna en með aukinni staðsetningatækni ætti að vera hægt að koma í veg fyrir slysin þótt mannleg mistök eða bilanir geti ævinlega sett strik í reikninginn.

Dæmigert um það er þegar ný þota með nokkrum mönnum innanborðs rakst á stóra farþegaþotu yfir Amazon og ein af ástæðunum var sú, að þegar aðstoðarflugmaðurinn ætlaði að hvíla fæturna á sérstökum skemli, rakst hann ofurlétt utan í rofa fyrir tæki,  sem sendir út staðsetningu vélarinna til flugumferðarstjórnar.

Vegna slæmra skilyrða við radíósamband varð misskilningur um flughæð einmitt á þessum versta tíma og hinn ótrúlegi árekstur varð.  


mbl.is Lá við árekstri tveggja farþegaþota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um hliðstæðar og stærri byggingar?

Húsin, sem brunnu í skeifunni í gær og í nótt voru byggð á sjöunda og níunda áratug síðustu aldar.

Tvennt vekur því sérstaka athygli varðandi bruna með tjón upp á hátt í tvo milljarða króna.

Annars vegar hve hratt eldurinn breiddist út og hins vegar hve gríðarstórt húsnæði brann.

Hvort tveggja kallar á ítarlega rannsókn, því að til eru miklu stærri byggingar af svipuðum toga, og það er fásinna að halda að eldur geti ekki kviknað hvar sem er í hvaða húsi sem er á Íslandi.

Ástæða þess að mannsöfnuður myndast við svona atburði er skiljanlegur. Það er ekki á hverjum degi sem meðaljóninn verður vitni að svona myndrænum og stórum atburði, þótt eldgos séu auðvitað enn meira sjónarspil.

Þetta er allt afstætt. Sú var tíðin að ég lagði mig fram sem fréttamaður til þess að komast sem fyrst á vettvang atburða, taka myndir og leggja mitt af mörkum til að miðla fréttum og myndum.

Eftir langa ævi vex maður upp úr þessu hvað eldsvoða snertir en er þó samt á tánum ef það gæti gerst að annað fjölmiðlamenn eru ekki nógu snarir í snúningum.

Og hvað snertir stóra viðburði varðandi náttúru Íslands er hins vegar allt óbreytt ennþá enda getur maður kannski gert meira gagn á því sviði en öðrum.   


mbl.is „Hlustið, færið ykkur!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband