Komið ansi langt fram úr samkomulaginu á Möltu.

George Bush eldri og Michael Gorbasjof leiddu Kalda stríðið til lykta á fundi á Möltu þar sem Gorbasjof féllst á sameiningu þýsku ríkjanna og sjálfsákvörðunarrétt Austur-Evrópuþjóðanna gegn því að NATO yrði ekki þanið út til austurs.

Austur-Evrópuþjóðirnar þrýstu hins vegar á að fá að komast undir verndarvæng NATO til þess að tryggja það að Rússar gætu ekki leikið sama leikinn aftur varðandi það að drottna yfir nágrannaríkjum sínum í vestri eins og þeir gerðu í Kalda stríðinu.

Það var að vísu eðlilegt að þær brygðust svona við því að fá frelsi frá oki kommúnismans, en  það verður að horfa á þetta tafl um Austur-Evrópu frá báðum hliðum en ekki aðeins frá hinum vestræna sjónarhóli.

Eftir afleiðingarnar af útþenslu áhrifa Þjóðverja í Austur-Evrópu fram að innrásinni miklu í Sovétríkin 1941 er ekkert óeðlilegt við það að Rússar eigi erfitt með að gleyma þessum aðdraganda þess að 20 milljónir Rússa fórust í hildarleik "Föðurlandsstríðsins mikla."

Vopnaskak og ófriðartal er ekki leiðin til þess að friður geti ríkt í þessum hluta Evrópu heldur mun það ýta undir aukna tortryggni og ótta sem er ekki það sem þessar þjóðir þurfa.  


mbl.is Evrópuríkin þurfa að efla varnir sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misnotkun trúarbragða enn böl mannkynsins.

"Guð vill það!" er sagt að hafi verið heróp krossfaranna á miðöldum sem fóru í herferðir tll Miðausturlanda til "að höggva mann og annan." 

Í bjartsýni upphafs síðustu aldar héldu margir að tækniframfarir nútímans myndu þoka trúarbrögðunum og áhrifum þeirra til hliðar og að þau heyrðu að mestu sögunni til á 21. öldinni.

En nú virðast spár um að þessi öld verði jafnvel verri enn nokkur önnur í þessum efnum vera að rætast, illu heilli.

Undir yfirskini trúarbragða veður hrein villimennska haturs uppi, því að í hinum viðamiklu trúarritum er hægt að finna setningar og kenningar, sem þar komust inn að fornu og eiga alls ekki við á okkar tímum.

Í krafti þessarar harðskeyttu bókstafstrúar er síðan borist á banaspjót og verst haga sér þeir einstaklingar og hópar, sem þykjast vera öllum öðrum fremur útvaldir þjónar Guðs.  


mbl.is „Nú deyjum við. Vertu sæll.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er sjálfum sér næstur.

Ebólufaraldurinn núna minnir um sumt á það þegar alnæmi varð fyrst vart á áttunda áratug síðustu aldar. 

Það virtist vera bundið við lítt þekkta homma og vera ólæknandi, en algerlega háð ábyrgðartilfinningu hvers og eins hvort það breiddist út. Þar með var búið að afgreiða það og málið dautt, því það snerti bara einhverja tiltölulega fáa óæskilega óreiðumenn samkvæmt almenningsálitinu.

En þegar þekktir Hollywoodleikarar létust úr sjúkdómnum vildi svo til að sjálflur forseti Bandaríkjanna var Hollywoodleikari og þá breyttist tónninn og farið var að bregðast við af krafti. 

Þetta gjörbreytti stöðunni og síðan breyttist hún enn frekar þegar í ljós kom að gagnkynhneigðir fengu líka veikina og að þetta var farið að nálgast allan almenning.

Síðan þá hefur orðið mikil breyting í baráttunni við sjúkdóminn og ótrúlegur árangur hefur náðst á Vesturlöndum miðað við það vonleysi sem var í upphafi.

Svipað gæti verið að gerast varðandi ebólufaraldurinn. Að minnsta kosti er samanburðurinn sláandi.  


mbl.is Gefa 1.000 skammta af bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband