Illuga skipað á bekk með stjórnarandstöðunni.

Einu sinni skömmuðu Sovétmenn Kínverja með því að tala um Albaníu í staðinn.

Allir skildu sneiðina, af því að Albaníustjórn var eina kommúnistastjórnin í Evrópu sem aðhylltist útgáfu Maós af kommúnismanum.

Nú hellir forsætisráðherra sér yfir stjórnarandstöðuna og velur henni hin verstu orð fyrir það að vilja styðja frumvarp Illuga Gunnarssonar um óbreytt útvarpsgjald.

Þessi harða gagrýni SDG á augsjáanlega við Illuga Gunnarsson. 

 


mbl.is „Allt árásir og pólitískar aðfarir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það liggur enginn þjóðvegur "um Hafnarfjall."

Það nýjasta sem maður sér nú um þjóðvegakerfið er að vegurinn "um Hafnarfjall" sé lokaður.

En það liggur enginn vegur um Hafnarfjall, heldur liggur vegurinn um lárétt láglendi undir Hafnarfjalli eða framhjá fjallinu.

Næsta skref í svona vitleysu gæti þá allt eins orðið að vegirnir um Esju eða um Öræfajökul væru lokaðir.

 


mbl.is Lokað um Hafnarfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það tæknilega er ekki alltaf nóg.

Óvenjulegt uppgjör Jose Mourinho eftir tapleikinn gegn Leicester gaf til kynna að hann skynjaði að hverju stefndi. Hann nefndi þau leikatriði Leicester sem hann hefði farið í gegnum með leikmönnum sínum fyrir leikinn en þeir einhvern veginn ekki farið eftir greiningu hans og ráðleggingum.

En þetta er aðeins hluti af því flókna dæmi sem þjálfun eins liðs er, bæði andlega og líkamlega.

Þegar meistaralið er skyndilega komið niður í eitt stig frá fallhættu, er augljóslega eitthvað verulega mikið og djúpstætt að.

Mourinho stillti því upp sem óskeikulleika sínum andspænis vangetu stórs hluta liðsins.

Sú uppstilling reyndist banabiti hans, því að þurfi á annað borð að gera eittvað róttækt, er einfaldara að reka einn þjálfara en lungann úr liðinu.

Á einhvern hátt missti Mourinho tökin á liðinu og lýsti því óbeint sjálfuri í lokin..

 


mbl.is 7,8 milljarða starfslokasamningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameiginlegir hagsmunir Le Pen og Ríkis íslams.

Villimannlegar aftökur Ríkis íslams og þó einkum birtingar skelfilegra mynda af þeim og afleiðingum ódæðisverkann er ætlað að þjóna þeim tilgangi samtakanna að vekja ógn og skelfingu hjá öllum andstæðingum ISIS.

Með myndbirtingunum er áhrifamáttur vestrænnar fjölmiðlunar og kapphlaup þeirra við að birta sem svæsnast efni "sem selur", virkjað út æsar til þess að svipta vestræn lýðræðisþjóðfélög þeirri friðsæld og öryggi, sem hryðjuverkamennirnir hatast við.

En Ríki íslams virkjar ekki aðeins samkeppni þeirra fjölmiðla sem telja sig græða á birtingu sem svæsnastra mynda.

Marie Le Pen birtir hryllilega mynd af hauslausum manni til framdráttar sínum málstað, sem meðal annars felst í því að skapa almenna andúð á útlendingum og öllum múslimum heimsins.

Að þessu leyti fara hagsmunir hennar og Ríkis íslams saman.

Að sjálfsögðu eiga fjölmiðlar að birta nauðsynleg gögn varðandi málefni allra tíma.

En allir sem starfað hafa við fjölmiðlun vita að takmörk eru fyrir því hve langt eigi að ganga við birtingu viðkvæmasta efnisins.

Og umrædd myndbirting eins og hún hefur verið framkvæmd gengur of langt í miskunnarlausu tillitsleysi sínu og þjónar blóðþyrstum böðlunum mest.

 


mbl.is Birti myndir af líki Foleys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilað með mannslíf.

Þráfaldlega hefur verið þrætt fyrir það að fjársveltið og óróinn vegna kjaramála í heilbrigðiskerfinu hafi kostað mannslíf eða eigi eftir að kosta mannslíf.

En maður þarf ekki annað en að koma dagstund inn á biðstofu í spítala til þess að heyra reynslusögur sjúklinga sem eru alvarleg áminning um óviðunandi ástand.

Erillinn er mikill og því gafst drúgur tími í heimsókn á spítala í morgun til skrafs í alls fjórum biðröðum.

Gamall vinur minn sagði mér frá því hve heppinn hafði verið að drepast ekki fyrr á árinu á meðan hann var látinn bíða hálfan dag í stórhættulegu ástandi eftir því að framkvæmd á honum væri greining sem hefði verið bráðnauðsynlegt að gera strax, en dróst á langinn vegna manneklu.

En þessi töf kostaði hann slæm og óþörf veikindi, sem urðu margfalt langvinnari, erfiðari og dýrari fyrir alla, ekki síst heilbrigðiskerfið sjálft, en ella hefði orðið.

Áður hef ég greint frá því hvernig ég vann í rússneskri rúllettu varðandi hættu á krabbameini fyrr á þessu ári, en vegna óheyrilegs biðlista lengdist hámarks bið eftir greiningu úr 3 vikum upp í 7.

Með því að skoða biðlistatölur blasir við að það voru ekki allir eins heppnir og ég og vinur minn.

Það veldur mér hugarangri og einnig það hvernig reynt er að fela afleiðingar fjársveltisins með hundakúnstum með tölur, sem fengnar eru út með því að nota kolrangar forsendur.  

    


mbl.is Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband