Aldahvörf og dögun í orkumálum.

Lokaskeið og hnignunarskeið Olíualdarinnar er að ganga í garð. Tákn nýrra tíma, svo sem  fyrirtæki á borð við Apple og Tesla, eru að reisa nýjar höfuðstöðvar þar sem risavaxnir fletir af sólarsellum eru áberandi.

Bæði þessi fyrirtæki eru ávöxtur mikilvægustu auðlindar jarðarinnar, hugvitsins.

Risaverksmiðja Tesla er í Nevadaríki þar sem er gnótt sólarorku og sjá má skóg af vindmyllum í nágrenninu, en slíkt er algeng sjón á leiðinni milli Nevada og Kaliforníu.

Sannanlega hrein og endurnýjanleg orka eins og sólarorka og vindorka, er efst á blaði, en notkun litíums er ekki endanleg lausn í gerð rafhlaðna á meðan magn þess á jörðinni er takmarkað.

En í gangi er mikil þróun í gerð rafhlaðna og engin ástæða til að örvænta.

Forráðamenn beggja fyrirtækja hófu feril sinn með óvenju sterka og öfluga framtíðarsýn, staðráðnir í að framkvæma það sem talið var ómögulegt.

Þeir hafa þegar framkvæmt "ómögulega" hluti, en gera sér þó grein fyrir því að skíma þeirrar dögunar sem þeir hafa átt þátt í að kveikja, er aðeins örlítið brot af því sem framundan er.

 


mbl.is Fyrstu myndir af risaverksmiðju Tesla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og varað var við.

Við upphaf ferðar breska gönguhópsins, sem nú hefur bæst í hóp hinna fjölmörgu útlendinga sem hafa farið flatt á því að ganga þvert yfir Ísland að vetrarlagi, voru talin upp helstu atriðin sem mæltu á móti því að reyna þetta.

Einnig nefnd dæmi um fyrri tilraunir í svipuðum dúr.

Tímasetningin var efst á blaði þess sem mælti á móti því að reyna þetta, svartasta skammdegið með verstu veðurskilyrði ársins alla jafna.

Um þetta leyti árs er lægsti loftþrýstingur jarðar skammt suðvestur af Íslandi en næst hæsti loftþrýstingur jarðar yfir Grænlandi.

Ég minnist aðeins eins janúarmánaðar á Íslandi, árið 1997, þegar stillur voru í hálfan mámuð. 

En raunin varð núna, eins og varað var við, alþekkt illviðri vegna óveðurslægða í röðum, og vonandi verður ofætlan bresku piltanna og kvikmyndin um hana með fælingarmátt sem (veðra)víti til varnaðar.


mbl.is Ótrúleg upplifun þrátt fyrir óhöpp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðja byltingin í "nærflugi".

Nýju Dash 8 Q400 skrúfuþoturnar, sem Flugfélag Íslands fær í byrjun næsta árs, bera með sér þriðju byltingua, sem orðið hefur í því farþegaflugi, sem kalla mætti "nærflug", - en það felur í sér innanlandsflug og flug til Grænlands og Færeyja.

Fyrsta byltingin varð fyrir 70 árum þegar byrjað var að fljúga á DC-3, önnur byltingin þegar Fokker skrúfuþoturnar komu 1964, og nú er þriðja byltingin í vændum, sem er það gagnger, að hún gæti fært nærflugið út til Skotlands og vesturstrandar Noregs, því að nýju vélarnar geta flogið allt að 25% hraðar en Fokker F50 vélarnar, komist til Færeyja á 1 klst og 20 mín og til Björgvinjar og Glasgow á 2 klst og 20 mín. 

Það munar um minna en slíka styttingu flugtíma.

Auk hraðaaukningarinnar taka nýju vélarnar 40% fleiri farþega en Fokkerinn, og afkastaaukningin er því svo mikil, að hægt verður að fækka ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar úr fjórum á dag niður í þrjár en samt hægt að flytja fleiri farþega samanlagt.     


mbl.is Nýtt útlit hjá Flugfélagi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skjóta fyrst og þurfa ekki að spyrja.

Nýlega skaut bandarísk lögreglan unglingspilt til bana með 16 skotum í bakið. 

Í fyrra sýndi myndband tvo lögreglumenn salla niður 12 ára blökkudreng 2 sekúndum eftir að stigið var út úr lögreglubílnum.

Einu sinni var sagt um byssugleði: Skjóta fyrst og spyrja svo.

Eftir að hafa séð myndskeið af drápum bandarískra lögreglumanna og síðan frétt af sýknudóminum í Ohio-ríki virðist ljóst að löggurnar vestra stfni í að fá þvílíkt byssuleyfi að hægt verði að segja: Skjóta fyrst og þurfa ekki að spyrja.

 

 

 


mbl.is Ekki ákærðir vegna dauða 12 ára drengs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband