Margir eiga bágt.

Illskiljanleg er sú heift og sú illkvittni sem virðist hrjá marga svo mjög, að þeir finna henni útrás á samfélagsmiðlum, jafnvel yfir hátíðirnar og birtist í hatursfullum hótunum og mjög meiðandi og síendurteknum persónulegum svívirðingum.

Þannig stóð ég í því fram yfir klukkan tvö í nótt að verjast innrás eins þessara manna, sem hefur árum saman ofsótt mann úti í bæ, sem ég þekki ekki neitt, með því að nota athugasemdadálk þessarar bloggsíðu til að endurtaka í síbylju óvenju rætin og meiðandi svívirðingar um þennan mann.   

Þetta virðist vera að færast í aukana á samfélagsmiðlunum og ljóst að furðu margir þessara ofsækjenda hljóta að eiga bágt, því að hatur fer oftast verst með þann sem hatar. 

Með ósk um að þeir finni sálarfrið sendi ég öllum mínar bestu óskir um gleðilegt´og farsælt nýtt ár.  

 


mbl.is Hafa fengið líflátshótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

0 - 35 gráður í stað 60.

Í umfjöllun fjölmiðla um braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli hefur láðst að nefna aðalorsök þess að hún er notuð, þ.e. af hverju ekki er hægt sð lenda á hinum tveimur við ákveðnar aðstæður þegar "neyðarbrautin" bjargar málum.

Aðalástæðan er sú að í stað þess að hinar tvær brautirnar liggi hornrétt ( 90 gráður) hvor á aðra, eins og víðast er á tveggja brauta flugvöllum, er vinkillinn 120 gráður á milli brautarstefnanna 19 og 31 á brautunum 01/19 og 13/31 á Reykjavíkurflugvelli, sem þrýst er á að nota einar en leggja braut 06/24 niður.

Þetta þýðir að hámarks hliðarvindur á Reykjavíkurflugvelli án neyðarbrautarinnar getur orðið 60 gráður í suðvestanátt í stað 45 gr. á flugvelli með tvær brautir, sem liggja hornrétt í hreinan rétthyrndan (90 gr.) kross.

Því stærri sem flugvélarnar eru og ofrishraði eða lendingarhraði þeirra meiri, því meiri hliðarvind þola þær.

Þess vegna kemur hliðarvindur minna að sök hjá stórum millilandaþotum á Keflavíkurflugvelli en hjá margfalt minni sjúkraflugvélum í Reykjavík, auk þess sem hámarkshorn hliðarvinds á Keflavíkurflugvelli er 45 gráður en ekki 60 gráður eins og á tveggja brauta velli í Reykjavík. 

Þegar við bætist hálka og að lendingarbrun og hraði flugvélar upp í hvassan mótvind er miklu minni en í miklum hliðarvindi skýrir það ástæðu þess hvað braut 06/24 getur verið ómissandi í hvassri suðvestanátt sem stendur beint á þá braut ( 0 gráðu hliðarvindur) í stað þess að vera 60 gráðu hliðarvindur á hinar brautirnar ef neyðarbrautarinnar nyti ekki við

Á meðan 06/24 brautin er við lýði verður hámarks horn hliðarvinds á Reykjavíkurflugvelli 35 gráður í stað 60, ef brautin verður lögð niður.   

Staðbundnar aðstæður ráða oft miklu og bálhvöss og byljótt suðvestan átt með éljum að vetrarlagi er þekkt fyrirbæri í Reykjavík.

Þess má geta að samkvæmt gögnum veðurstofunnar var meðalvindur í suðvestanáttinni á Reykjavíkurflugvelli 35 hnútar um miðjan dag í gær en 47 hnútar í hviðum, en seinni talan er mikilvægari. Báðar tölurnar voru ofan við þolmörk flugvéla í innanlandsflugi í 60 gráðu hliðarvindi.     


mbl.is Tvær lendingar á neyðarbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blökkusöngkonur: Fágætir listamenn.

Aretha Franklin hefur verið kölluð drottning Soul-tónlistarinnar. Ekki þarf að hlusta lengi á söngkonur nútímans til þess að heyra hve mikil áhrif hún hafði.

Einhver ánægjulegasta dagskrárgerð í ljósvakamiðli, sem mér hefur hlotnast að gera síðustu árin, var 40 mínútna þáttur um blökkusöngkonur þar sem lífshlaup Nínu Simone var rauður þráður.

Nina var undrabarn í´píanóleik og kom fyrst fram í kirkju í Filadelfíu. Þar rak hún sig strax á mismunun kynþátta, því að meina átti foreldrum hennar að sitja fremst í kirkjunni, því að fremri hlutinn var ætlaður hvítu fólki eingöngu.

Sú stutta harðneitaði þá að spila, og fékk sínu framgengt.

Kynþáttamismunun varð til þess að eyðileggja þann draum hennar að verða konsertpíanisti þótt hún stæðist allar kröfur þar að lútandi.

Hún neyddist til að spila og syngja á búllum, en það átti eftir að reynast happ, því að þar vakti hún athygli sem skilaði henni upp í eitt af efatu aæti bandaríska vinsældalistans með lagið "I love you Porgy."

Eitthvert ólíklegasta lag til vinsælda í miðju rokklagaflóðinu.

Ég minnist enn þeirrar ógleymanlegu sutndar þegar ég sat einn í litla Prinzinum mínum og hlýddi sem bergnuminn á þetta lag með henni þar sem það hljómaði í Kananum.

Hvet alla til að hlusta á það í ró og næði í upprunalegri útgáfu á YouTbe.

Ein blökkukona og eitt píanó.

Nokkrum dögum fyrir andlátið var Nína sæmd heiðursnafnbót og fékk afsökunarbeiðni hjá tónlistarstofnuninni, sem hafði hafnað henni 40 árum fyrr. 

Veröldin hefði orðið fátækari án hennar og allra hinn blökkusöngkvennanna. 

 

      


mbl.is Obama táraðist yfir söngnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband