Enn einu sinni "vantar ákvæði í stjórnarskrá."

Í dag hefur komið fram í umræðum og ummælum kunnáttufólks um bréf ársins ef ekki aldarinnar fram að þessu, að það "vanti ákvæði í stjórnarskrá um meðferð utanríkismála, sem séu í stjórnarskrám annarra ríkja".

Enda ekki furða. Stjórnarskráin var í grunninn samin fyrir Dani og Danakóng 1849.

Aftur og aftur kemur það upp í mikilvægum málum, að það "vantar ákvæði í stjórnarskrá."

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2011 kom fram yfirgnæfandi vilji kjósenda um það að setja landinu nýja stjórnarskrá, byggða á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Meðal ákvæða í því frumvarpi eru ákvæði hliðstæð þeim, sem eru í stjórnarskrám nágrannalandanna en vantar hjá okkur.

En hver er ástæðan fyrir því að Alþingi ætlar að hafa af þjóðinni að fá uppfyllta ósk hennar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2011.

Bréfið umdeilda sýnir einn angann af því. Með því að koma í veg fyrir lagfæringar, réttarbætur og stjórnarbætur stuðla valdaöflin að því að þau geti beitt valdi sínu af hreinum geðþótta þegar þau telja sig þurfa á því að halda.   


mbl.is Ekki til ávinnings fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki afturköllun umsóknar" segir formaður utanríkisnefndar.

Birgir Ármannsson formaður utanríkisnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að bréf utanríkisráðherra til ESB jafngildi ekki afturköllun umsóknar. Þess vegna þurfi málið ekki að koma inn á borð utanríkisnefndar eða Alþingis.

Sé þetta rétt, virðist fögnuður margra andstæðinga ESB-umsóknarinnar yfir bréfinu vera byggður á misskilningi. 

Það, að slegið er svona úr og í, svo að enginn viti sitt rjúkandi ráð, er síst til þess fallið að styrkja traust á meðferð utanríkisráðherra á málinu og því engin furða þótt Styrmir Gunnarsson, Jón Magnússon og fleiri andófsmenn gegn inngöngutilburða í ESB, séu óánægðir og telji um að ræða fordæmalaust klúður.  

 


mbl.is Fordæmalaust klúður í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð sýn Styrmis og Jóns á málið.

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins hefur verið framarlega í flokki þeirra sem eru andvígir öllum hugmyndum um inngöngu í ESB eða aðildarumsókn. 

En hann segir samt þetta í upphafi og niðurlagi bloggpistils síns í dag hér á blog.is um nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í málinu:

"Erfitt er að finna nokkurt dæmi fyrir því að jafn illa hafi verið haldið á svo stóru máli."

Á hann þá bæði við loðna og mótsagnakennda meðferð málsins, en þó einkum við það að fara ekki þá eðlilegu þingræðislegu leið að láta Alþingi fjalla um málið og samþykkja nýja þingsályktun í stað þeirrar sem enn er formlega í gildi um umsókn að ESB.  

Styrmir útskýrir þessa skoðun sína nánar í pistlinum og nægir að vísa í hann.

Í pistli í dag setur Jón Magnússson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram svipaða skoðun undir fyrirsögninni "tuddameldað í Brussel" og gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að gefa reglum þingræðisins langt nef.   


mbl.is Kann engin orð yfir vonbrigðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglarnir þögnuðu fyrir 60 árum. En varla nú.

Sólmyrkvinn 1954 varð um hásumar. Það er ekki komið hásumar nú og verður ekki liðið 61 ár frá myrkvanum 1954 fyrr en í sumar, eftir fjóra mánuði. 

Sólmyrkvinn þá var að sjálfsögðu afar eftirminnilegur af því að hann varð um hábjartan sumardag. 

Myrkvunin sjálf situr þó ekki efst í minni, heldur það hvernig fuglarnir þögnuðu í dalnum.

Ég ráðlegg fólki eindregið að reyna að finna sér stað, þar sem slíka reynslu er hægt að upplifa, þótt það verði miklu erfiðara en 1954 og jafnvel ómögulegt. 

Fyrir 60 árum var þetta auðvelt en er ekki nú. Það uppgötvaði ég þegar deildarmyrkvi varð síðast hér á landi og ég ætlaði að upplifa hann á sama stað og 1954.

Ástæðan var þríþætt:

1. Mófuglarnir og vaðfuglarnir eru farnir eftir að mýrlendið var ræst, þurrkað upp og gert að túni.

2. Það er svo mikill hávaðinn af umferðinni núna hvar sem þjóðvegur er í nánd, að hann yfirgnæfir allt. 1954 lá mjór og krókóttur malarvegur um svæðið þar sem fuglarnir þögnuðu. Bílar voru á mjóum hjólbörðum og var ekið á innan við 60 kílómetra hraða. Umferðin var strjál og það heyrðist lítið í hverjum bíl. 

Nú eru jepparnir á stórum og grófum hjólbörðum og er ekið á 90 kílómetra hraða eða meira og hávaðinn frá dekkjunum er mun meiri en við gerum okkur grein fyrir af því að við erum orðin svo vön honum. Auk þess hefur umferðin margfaldast. 

3. Núna verða farfuglarnir ekki komnir þegar myrkvinn verður, þannig að ég býst ekki við því að auðvelt verði að upplifa það sama og 1954.

Nú er að leggja hausinn í bleyti og finna út, hvort það verður hægt að finna eitthvert aðgengilegt svæði þar sem fuglar kvaka og þagna 20.mars.   

 


mbl.is Sá mesti í 61 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband