Röng alhæfing í fyrirsögn.

"Tjá sig um mál en kjósa ekki" er röng fyrirsögn, því að hlutföllin á milli þess sem þrír þingmenn Pírata kjósa eða sitja hjá er að meðaltali ca 45% á móti 55%. 

Í Kastljósi í kvöld kom ágætlega fram hjá þingmönnum þremur, að vegna mannfæðar geta þeir ekki tekið þátt í nefndarstörfum á þinginu nema að takmörkuðu leyti og eiga þar að auki engan kost á að fá útskrift af því sem umsagnaraðilar segja á þeim mörgu nefndarfundunum, sem þeir geta ekki setið.

Það er því miður aðeins hluti af þingstörfum, sem kemur fram í sjónvarpi frá Alþingi og fjölmiðlum, - þar vantar alveg nefndarstörfin sem eru mest gefandi og mikilvægust í starfi Alþingis.

Skammirnar, sem nú dynja á Pírötum, ættu í raun að virka öfugt við tilganginn, sem er bersýnilega að gera lítið úr þessum þremur þingmönnum og fá þjóðina til að losa sig við þá.

Úr því að laumupokaskapurinn varðandi gögn af nefndarfundum fæst ekki afnuminn, eins og Píratar vilja sjálfir, og þeir eru eini þingflokkurinn sem þess vegna getur ekki fengið sömu upplýsingar og hinir þingflokkarnir í gegnum nefndarstörfin, ætti það að vera hvatning að kjósa fleiri Pírata á þing, svo að hjásetunum fækki.

En ég er ekki viss um að gagnrýnin á þá hafi verið ætluð til þess að þeim  fjölgaði, heldur frekar að losa þjóðina við þá.

Einhvern tíma var sagt að það væri betra að veifa röngu tré en öngvu. Nú virðist sumir telja það henta helst að hampa þeirri skoðun.  


mbl.is Tjá sig um mál en kjósa ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama þróun og í Noregi.

Ef rafknúnum farartækjum fer fjölgandi hér á landi, er það ekkert einsdæmi. 

Á síðasta ári voru rafbílar 13% prósent af heilarsölu bíla í Noregi.

Rafbílar eru í augum margra og hafa jafnvel verið auglýstir þannig að þeir séu bíll númer 2 á heimilinu. 

En reynslan í Noregi er sú, að rafbílarnir hafa oftast orðið aðalbílarnir vegna þess hve notadrjúgir þeir eru í borgarumferð, sem er þar, eins og í öðrum vestrænum löndum, 80-90% af heildarumferð einkabíla. 

Norðmenn veita líka rafbílaeigendum mun fjölbreyttari og meiri fríðindi en hér á landi. 

Aka má þeim á akreinum strætisvagna og leigubíla og ekki þarf að borga gjald fyrir aka um jarðgöng. 


mbl.is Rafbíll söluhæsta einstaka gerðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Geimórar" að verða að veruleika?

Það voru kallaðir "geimórar" þegar framsýnir menn á Hornafirði hófu að gera út bát til hvalaskoðana.

Þegar ég gerði frétt um það á sínum tíma vitnaði ég í orðin "héðan í frá skaltu menn veiða" og fékk bágt fyrir úr ýmsum áttum, - þó ekki frá fréttastjóra mínum. 

Það er ekki langt síðan að fréttist af tæknilegum möguleikum til að búa til margfalt betri rafhlöður en nú teljast bestar, og er notkun áls ekki það eina, sem nefnt hefur verið, heldur fleira, sem efagjörnum hefur þótt á jafnast á við "geimóra."

Svipaðar framfarir eru nú þegar komnar af stað í nýtingu sólarorku og kjarnasamruni og fleira á því sviði er á svipuðu umræðustigi og notkun nýrra efna í rafhlöður hefur verið.  

 

 


mbl.is Hleður sig á einni mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðinn drepur og meiðir.

Þegar ég var gassafenginn unglingur að hlaupa af mér hornin náði ég meira en 70 kílómetra hraða niður Ártúnsbrekkuna á reiðhjóli í austan strekkingi.

Hjólið var með gírum og hraðamæli og var fyrsta reiðhjólið á Íslandi með dempara á framhjóli.

Engir hjálmar voru þá á höfði og þetta auðvitað hættulegt athæfi, því að það er fyrst og fremst hraðinn sem drepur og meiðir.

Þó var ekkert ólöglegt við þetta, enda hafa hjól reiðhjólaeign verið látin afskiptalaus í heila öld á Íslandi. Ástæðan er sú að slysatíðnin hefur ekki gefið tilefni til aðgerða. 

Nú ætla menn að fara á límingunum yfir því að fólk fari um á léttum bifhjólum, sem komast ekki hraðar en 25 km/klst. 

Það er minni hraði en hlaupari nær og miklu minni hraði en hestur nær eða reiðhjól niður brekku undan vindi. 

Rafknúin farartæki af þessu tagi eru eins umhverfisvæn og hugsast getur og meira að segja bensínknúnar skutlur menga aðeins brot af því sem bílar menga. 


mbl.is Vespurnar eru ekki vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkar aðstæður meirihlutans og minnihlutans.

Áhugaverðar eru rökræður Bjarna Benediktssonar og þingmanna Pírata og koma fram gild sjónarmið og álitamál hjá báðum aðilum. 

En að einu leyti eru aðstæður stórs meirihluta og veiks minnihluta ólíkar: Meirihlutinn sem keyrir sitt í gegn ber ábyrgð á því sem hann knýr fram en það gerir minnihlutinn ekki. 

Ýmis dæmi eru um það að hjá meirihlutum á þingi hafa málin ekki reynst eins vel ígrunduð eða útfærð og æskilegt hefði verið, - oft vegna þess að ekki var nægur tími til að fara ofan í saumana á öllu. 

En samt stóð meirihlutinn frammi fyrir því að verða að ljúka málinu og sitja uppi með ábyrgðina. 

Í slíkum tilfellum skiptir ekki máli fyrir úrslit málsins, hvort minnihlutinn greiðir atkvæði gegn frumvörðum eða ekki. Þau eru samt samþykkt, sama hvað minnihlutinn gerir. 

Þá er það val minnihlutans og sjálfsagður og lýðræðislegur réttur hans hvort hann vill halda stíft fram sjónarmiðum, sem hann er ekki viss um hvort séu rétt ígrunduð, eða að gefa með hjásetu þá yfirlýsingu að betur hefði mátt skoða málið. 


mbl.is „Hún er í sömu stöðu og aðrir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband