Af hverju var enginn síðutogari varðveittur?

Í 70 ár voru síðutogararnir mikilvirkustu atvinnutæki Íslendinga. Merkilegt má heita að enginn þessara togara skyldi vera varðveittur til að sýna okkur og erlendum ferðamönnum við hvaða skilyrði hetjur hafsins unnu þessa áratugi þegar hundruð þeirra fórust. Grimsby, Helga, togari

Við varðveitum eitt varðskip úr þorskastríðinu, vélbátinn Garðar í Patreksfirði og kútter Sigurfara á Akranesi ( í hörmungar ástandi) en engan síðutogara.

Þetta kom upp í hugann í heimsókn til Grimsby á Englandi í gærmorgun.

Þetta var pílagrímsferð Helgu minnar. Við áttum það sameiginlegt sem unglingar að njóta þeirra forréttinda að sigla frá Íslandi til útlanda, aðeins 14 ára gömul, þegar íslenskir unglingar áttu þess yfirleitt ekki kost að ferðast til útlanda. Helga. minnismerki. Grimsby

Ég sigldi til Kaupmannahafnar 1955 í hópi 30 jafnaldra minna víðs vegar af landinu, sem höfðum verið valin til að vera þar á alþjóðlegu unglingaþingi og dvelja á dönskum heimilum í sex vikur.

Helga sigldi með togaranum Gylfa frá Patreksfirði 1957 og var munstruð í áhöfnina í Færeyjum á leið til Grimsby og til baka heim. Sigfús bróðir hennar var vélstjóri.

Það var líf og fjör í höfninni þegar fiskiskipin komust að til löndunar eftir að hafa beðið í biðröð eftir afgreiðslu.

Stansað var í einn dag.

Nú er löndunarstaðurinn í höfninni auður og tómur, en á mynd, sem ég set á facebook síðu mína vegna erfiðleika við að setja myndir á bloggið héðan frá Englandi,  má sjá glytta í glæsilegt sjóminjasafn á hinum bakkanum og síðutogari liggur þarna við bryggju.

Afar vel gert og áhrifamikið minnismerki um drukknaða sjómenn er aðeins norðar í miðbænum og að sjálfsögðu var staldrað við það á áhrifaríkri stund, því að Helga missti sjálf föður sinn aðeins sjö ára gömul þegar togarinn Vörður fórst suðaustur af Vestmanneyjum á leið til Grimsby. 

Í fæðingarbæ Helgu, Patreksfirði, hefur verið reist minnismerki um breska sjómenn, sem drukknuðu á Íslandsmiðum. 

Þannig fléttuðust líf og örlög fólksins í breskum og íslenskum fiskibæjum saman lungann úr síðustu öld, þegar síðutogararnir voru grundvöllurinn að því að íslenska þjóðin gæti brotist til bjargálna og sjálfstæðis. 

Þá sögu ber okkur að varðveita og hafa í heiðri. 


mbl.is Flogið inn í fortíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fékk að kynnast honum af því ég var jólasveinn.

Kynni mín af Reyni Pétri Steinunnarsyni hófust rúmum 20 árum áður en hann gekk hringinn og þau voru eitt það eftirminnilegasta og mest gefandi af öllu því sem á fjörur mínar hefur rekið.

Upphaf þessara kynna voru þau að Lionsklúbburinn Ægir hafði í upphafi starfsemi sinnar árið 1957 ákveðið að beina öllum kröftum sínum að Sólheimum í Grímsnesi.

Meðal þess sem gert var var að fara þangað austur á aðventunni og taka þátt í litlu jólunum.

Í klúbbnum voru ágætir söngmenn og drifkraftar í starfi, svo sem Gunnar Ásgeirsson , sem höfðu meðal annars komið fram á skemmtunum í áraraðir, og einnig Sigfús Jóhannsson tónskáld, og þessir menn lögðu til skemmtiatriði á samkomunni.

Af því að þetta var jólasamkoma datt einhverjum í hug að gott væri að fá starfandi jólasvein í klúbbinn og þannig gerðist það upp úr 1960 að ég var tekinn inn í hann.

Smám saman lögðu klúbbfélagar meira og meira til málanna á samkomunni, þáverandi undirleikari minn, Tómas Grétar Ólason, gekk í hann og lagði svo mikið að mörkum, að hann var löngu síðar útnefndur velgerðarmaður Sólheima.

Þegar Svavar Gests varð klúbbfélagi var ekki að sökum að spyrja, enda gerðist hann leiðtogi Lions á Íslandi á tímabili.

Reynir Pétur og fleira fólk á Sólheimum vakti undrun og hrifningu okkar fyrir það, hve marga gimsteina var þar að finna, og einstæðir stærðfræðihæfileikar Reynis Péturs og þekking hans á fleiri sviðum voru með hreinum ólíkindum, að ekki sé minnst á létta lund og útgeislun.  

Það varð að föstu atriði þegar við vorum á leið í rútu austur, að Reynir væri látinn vita hve langt við værum komnir, svo að hann gæti tímasett göngu á móti okkur.

Gangan varð lengri og lengri með hverju árinu sem leið og um jólin 1984 gekk hann langleiðina til Selfoss og hitti okkur undir Ingólfsfjalli.

Þá kviknaði hugmyndin um að setja aukinn kraft í fjáröflun fyrir íþróttaleikhús á Sólheimum með því að Reynir gengi allan hringinn og að gerður yrði sjónvarpsþáttur um Reyni Pétur, gönguna og aðdraganda hennar.

Ganga Reynis var svo einstakur viðburður, að erfitt er að hugsa sér hliðstæðu.

Þess vegna er full ástæða til þess að fagna 30 ára afmæli hennar. Hún var mikilvægur liður í að brjóta niður múra fordóma á milli þjóðfélagshópa.  


mbl.is Gangan gaf mér mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var stærri flugvél en "léttflugvél."

Léttflugvél er ágætt orð yfir flugvélar, sem falla undir heitið "LSA" í flugreglum, en það eru flugvélar, sem eru minna en 600 kíló að þyngd fullhlaðnar, taka ekki fleiri en tvo í sæti og geta flogið innan takmarkaðs hraðasviðs, hvað snertir hægt flug og hratt flug. 

Flugvélin, sem fórst í Tokyo, var hins vegar með fjóra um borð og stærð stélsins á myndinni í fréttinni sýnir að þetta var það, sem í 75 ár hefur verið kallað "lítil flugvél" á Íslandi, stundum "lítil einshreyfils flugvél" ef það hefur átt við.

Upphaflega var orðið "ultralight" þýtt sem fis hér á landi. Síðan var í reglum um flug búinn til nýr flokkur flugvéla, "light sport aircraft", skammstafað "LSA", sem hefði verið best að kalla "léttflugvél". 

En með því að fara að kalla allar litlar flugvélar "léttflugvélar" er búið að fullkomna ruglinginn hjá okkur. 

 

 


mbl.is Léttflugvél brotlenti í íbúðarhverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband