Af hverju var enginn síðutogari varðveittur?

Í 70 ár voru síðutogararnir mikilvirkustu atvinnutæki Íslendinga. Merkilegt má heita að enginn þessara togara skyldi vera varðveittur til að sýna okkur og erlendum ferðamönnum við hvaða skilyrði hetjur hafsins unnu þessa áratugi þegar hundruð þeirra fórust. Grimsby, Helga, togari

Við varðveitum eitt varðskip úr þorskastríðinu, vélbátinn Garðar í Patreksfirði og kútter Sigurfara á Akranesi ( í hörmungar ástandi) en engan síðutogara.

Þetta kom upp í hugann í heimsókn til Grimsby á Englandi í gærmorgun.

Þetta var pílagrímsferð Helgu minnar. Við áttum það sameiginlegt sem unglingar að njóta þeirra forréttinda að sigla frá Íslandi til útlanda, aðeins 14 ára gömul, þegar íslenskir unglingar áttu þess yfirleitt ekki kost að ferðast til útlanda. Helga. minnismerki. Grimsby

Ég sigldi til Kaupmannahafnar 1955 í hópi 30 jafnaldra minna víðs vegar af landinu, sem höfðum verið valin til að vera þar á alþjóðlegu unglingaþingi og dvelja á dönskum heimilum í sex vikur.

Helga sigldi með togaranum Gylfa frá Patreksfirði 1957 og var munstruð í áhöfnina í Færeyjum á leið til Grimsby og til baka heim. Sigfús bróðir hennar var vélstjóri.

Það var líf og fjör í höfninni þegar fiskiskipin komust að til löndunar eftir að hafa beðið í biðröð eftir afgreiðslu.

Stansað var í einn dag.

Nú er löndunarstaðurinn í höfninni auður og tómur, en á mynd, sem ég set á facebook síðu mína vegna erfiðleika við að setja myndir á bloggið héðan frá Englandi,  má sjá glytta í glæsilegt sjóminjasafn á hinum bakkanum og síðutogari liggur þarna við bryggju.

Afar vel gert og áhrifamikið minnismerki um drukknaða sjómenn er aðeins norðar í miðbænum og að sjálfsögðu var staldrað við það á áhrifaríkri stund, því að Helga missti sjálf föður sinn aðeins sjö ára gömul þegar togarinn Vörður fórst suðaustur af Vestmanneyjum á leið til Grimsby. 

Í fæðingarbæ Helgu, Patreksfirði, hefur verið reist minnismerki um breska sjómenn, sem drukknuðu á Íslandsmiðum. 

Þannig fléttuðust líf og örlög fólksins í breskum og íslenskum fiskibæjum saman lungann úr síðustu öld, þegar síðutogararnir voru grundvöllurinn að því að íslenska þjóðin gæti brotist til bjargálna og sjálfstæðis. 

Þá sögu ber okkur að varðveita og hafa í heiðri. 


mbl.is Flogið inn í fortíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég man þegar Kaldbakur lagði af stað með Sléttbak í togi til Spánar árið 1974 og flautaði svo undir tók í Vaðlaheiðinni. Það var dapurlegt flaut, eins og afsláttarhross hneggjaði við að sjá heimahagana í hinsta sinni.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 26.7.2015 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband