Vanmetin jurt. "Mosasetur" í Eldhrauni?

Íslenski mosinn hefur löngum staðið í skugganum af öðrum jurtum landsins og verið stórlega vanmetinn. 

Gras, víðir, birkikjarr og birkiskógar hafa notið mestrar virðingar, og síðan eiga erlendar jurtir á borð við lúpínu og barrtré sér öfluga aðdáendur en að vísu gagnrýnendur þegar kappið við gróðursetningu þessara tegunda hefur þótt fara of víða. 

Fegurð og yndi reyntrjáa hefur viljað falla í skuggann.

Mosinn er að vísu misjafn en alls staðar afar mikilvægur sem nauðsynleg og þörf landnámsjurt í kjölfar eldgosa til þess að þekja breiður af ösku og vikri, að ekki sé minnst á hraunin.

Ég átti því láni að fagna sem drengur á aldrinum 7-9 ára að fá að leika mér í hrauninu þrjú heil sumur við Kaldársel og uppgötva töfra mosans.

Það ætti að vera skylda hjá ferðafólki að stansa í miðju Eldrhrauni fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur, aka þar eftir stuttri vegtengingu yfir á gamla veginn um Eldhraun, skoða gamla veginn og hnausþykkan mosann og njóta fyrirlesturs kunnugs manns eða leiðsögumanns um gildi mosans í þeirri hringekju landslagsbreytinga þarna, sem tekur margar aldir að fara hringinn en er einstæð í heiminum, "the greatest show on earth" eins og mætti kalla það í kynningu fyrir erlendu fólki.

Í þessari stórbrotnu hringekju skiptast á stórgos eins og Eldgjárgosið og Skaftáreldar með allmargra ára millibili, en á þess á milli eru skeið sandsins og mosans, sem breiða sig yfir nýju hraunin þangað til enn eitt nýtt eldgos dreifir hraunum yfir hið breytta land af völdum sands og mosa.

Alveg væri tilefni til þess að setja upp haganlegt og léttbyggt "Mosasetur" á hentugum krossgötum í hrauninu.     

 


mbl.is Eitt spor getur drepið mosann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkileg nýjung.

Hvenær er hús hús og hvenær hættir það að vera hús og verður að tjaldi? Þessi spurning vakna þegar sagt er í fréttum um það merkilega framtak Steinars Bergs Ísleifssonar að gefa ferðafólki möguleika á að dvelja í "timburtjöldum" í Fossatúni í Borgarfirði. 

Hliðstæðar spurningar vakna ævinlega þegar um er að ræða skilgreiningar á manngerðum fyrirbærum. 

Hvenær hættir til dæmis reiðhjól að vera ómerkt reiðhjól án trygginga og verður að vélhjóli með skráningarskyldu og tryggingum? 

Um það gilda ákveðnar reglur sem nýlega er búið að samþykkja. 


mbl.is Tjöldin víkja fyrir timburtjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakur maður og erfiður dagur fyrir marga í gær.

Dagurinn í gær var mörgum vinum Arngríms Jóhannssonar erfiður. Fljótlega eftir að fréttist hér syðra af hvarfi flugvélar var ljóst um hvaða flugvél var um að ræða og hverjir væru um borð, og einnig að heyrst hefði í henni síðast í Hörgárdal.

Það var ekki óeðlilegt að flogið væri þar um eins og aðstæður voru í gær, því að Öxnadalsheiði var ófær fyrir sjónflug.

Þegar þannig stendur á geta Hörgárdalsheiði eða leiðin um Barkárdal og yfir Barkárdalsjökul stundum verið færar og hin síðarnefnda leiðin er stysta leiðin yfir í Skagafjörð, leið sem ég hef flogið býsna oft.

Arngrímur stendur hjarta mínu nær en flestir aðrir menn og veit ég vart annan mann slíkan.

Hugur minn og margra fleiri er því hjá honum í dag.  


mbl.is Komst lífs af úr flakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband