Stalín kippti líka að sér hendinni varðandi Grikkland.

Í lok heimsstyrjaldarinnar síðari sömdu Churchill og Stalín um það hvernig skipta skyldi Evrópu upp í áhrifasvæði sigurvegaranna. 

Þýskaland og Austurríki voru hernumin þannig að Rússar fengu hluta þessara landa í sinn hlut og einnig önnur Austur-Evrópu ríki að undanskildu Grikklandi þar sem Bretar skyldu hafa yfirgnæfandi áhrif.

Í Júgóslavíu var kommúnistaleiðtoginn Tito samþykktur sem alráður, en landið hins vegar hvorki algerlega undir áhrifum Rússa né Vesturveldannna, enda fór Tító sínu fram alla sína tíð.

Bretar höfðu farið miklar hrakfarir 1941 í Grikklandi gegn her Þjóðverja og stóðu mjög veiklaðir í stríðslok.

Kommúnistar hugðu þess vegna gott til glóðarinnar og hófu uppreisn, svo að úr varð borgarastyrjöld. Þeir vonuðust til að Stalín gaukaði að þeim stuðningi og sendi jafnvel sjálfboðaliða eins og hann hafði gert í borgarastríðinu á Spáni 1936-39.

Svo tæpt stæðu Bretar og gríska stjórnin, að kommúnistabylting yrði auðveld í landinu.

En Stalín horfði lengra fram í tímann og lyfti ekki litla fingri til hjálpar, því að með því að leyfa grísku stjórninni með stuðningi Breta að berja uppreisnina niður, myndu Vesturveldin muna það og vantreysta Stalín í samningum við hann.

Stalín græddi þetta margfalt til baka, því að þegar kom að því að kommúnistar tækju völdin í ríkjunum sem voru á umsömdu áhrifasvæði þeirra.

Þá lyftu Vestuveldin í raun ekki litla fingri til að afstýra því.

Þegar uppreisnarmenn gegn kommúnískri harðstjórn risu upp í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu fengu Rússar óáreittir að berja þær niður.

Þegar Putin kippir að sér hendinni nú gagnvart Grikkjum er það í annað sinn sem grískir harðlínumenn í andófi gegn Vesturveldunum fara bónleiðir til búðar til Rússa.      


mbl.is Leyniáætlunin opinberuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyfjasérfræðingana á verðlaunapalla! ?

Fyrir mörgum árum sló ég því fram í gríni að stækka ætti verðlaunapalla á íþróttamótum til þess að með hverjum íþróttamannai, sem stigi upp á þá, fengi að vera lyfjasérfræðingur hvers og eins. 

Myndu þá allt að sex manns geta staðið á pöllunum við hverja afhendingu. 

Lyfjanotkun í íþrottum virðist geta verið svo margþætt og víðtæk að erfitt sé að sjá við henni, enda þöggunin eðlilega mikil. 

Frá fyrstu árum lyfjanotkunar hér á landi má sjá sláandi dæmi um alls endis óeðlilegar framfarir sums af helsta íþróttafólki okkar þá. 

Þar sem bein efnisleg sönnunargögn skortir hefur þetta legið í láginni í umræðunni hingað til, enda gildir um það meginregla réttarfars að sakborningar skoðast saklausir nema sekt þeirra sé sönnuð. 

En vandamálið og efinn hafa ekki fjarlægst með því nema að litlu leyti. 

 


mbl.is Stórfellt svindl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn heim í Höfn frá öðrum löndum.

Kaupmannahöfn er eina borgin utan Íslands, sem hefur þau áhrif á mann þegar maður kemur þangað frá öðrum útlöndum en Danmörku, að manni finnst maður sé kominn heim. 

Um aldir var hún höfuðborg Íslands og bæði Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson unnu sín afrek á danskri grund í þessari vinalegu og aðlaðandi borg. 

Ég er ekki hlutlaus þegar um Höfn er að ræða því að sex vikna dvöl þar fyrir aðeins fjórtán ára ungling á mesta góðviðrissumri aldarinnar 1955 gerði mig ástfanginn af borginni fyrir lífstíð.

Gildir þá einu þótt sjarminn af öllum smábúðunum við Gammel Kongevej og Vesterbrogade sé fölnaður við brotthvarf þeirra flestra og hundraða reiðhjóla sem fyllti göturnar á álagstímum.

Söguslóðir Íslendinga eru á hverju strái og Danir eru drengir góðir.

Rauðu múrsteinshúsin skapa hlýrri blæ á borginni en hinir gulu í Málmey eða gráu í Stokkhólmi.

"Wonderful, wonderful Copenhagen" var eitt vinsælasta lag heims árið 1952 þegar kvikmyndin H.C. Andersen með þessu lagi naut feykilegra vinsælda, enda brilleraði Danny Kay í myndinni.

Og það hljómar enn í eyrunum þegar hugurinn reikar til borgarinnar við Sundið.    

 


mbl.is Kaupmannahöfn skellti sér á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband