Bæjarhátíðirnar, - kærkomin hefð á sumrin.

Það eru ekki mörg ár síðan allar hinar glæsilegu bæjarhátíðir landsins voru ekki til í núverandi búningi. 

Íslenska sumarið er stutt og því orðið þröngt um þær, en þær eru kærkomnar fyrir íslenskt þjóðlíf og menningu. 

Um helmingur afkomenda okkar Helgu á heima eða hefur alist upp í Mosfellsbæ og því er bæjarhátíðin þar ævinlega ljúf og gefandi. DSCN0126

Í dag var gaman að fylgjast með yngsta knattspyrnumanninnum í barnabarnahópnum á strákamóti á íþróttavellinum á Tungubökkum, Hlyni Kristófer Friðrikssyni. 

Sýndi marga góða takta og býr greinilega yfir hæfileikum á þessu sviði.

Varla tilviljun, -  góðir  knattspyrnumenn í báðum ættum foreldranna.

Hinn afi hans, Sigurður Kristján Friðriksson, var einn af máttarstólpunum í gullaldarliði Fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Og langafi hans í hinni ættinni, Ragnar Edvardsson, í gullaldarliði Fram 1939.

DSCN0129

Og Ragnar og Þorfinnur, bræður Iðunnar, móður hans, blómstruðu báðir á sama tíma í yngri flokkunum hjá Fram.  

Þarna spilaði Hlynur af lífi og sál með félögum sínum í Aftureldingu við jafnaldra í öðrum félögum og uppskar sigur í sumum leikjunum en tap í öðrum eins og gengur.

Á meðfylgjandi myndum er hann á fullri ferð með samherjunum upp að marki andstæðinganna í sókn sem skilar boltanum inn í mark mótherjanna, þótt ekki hafi nú náðst mynd af því nákvæmlega.  DSCN0135

Á sama tíma var eldri bróðir hans, Sigurður Kristján Friðriksson, að spila fyrir Frammikilvægan leik við Bolvíkinga sem réði miklu um stöðuna í 1. deild og vannst með þremur mörkum gegn einu.

Já, bæjarhátíðirnar sameina kynslóðirnar og eru dýrmætar fyrir þjóðina. DSCN0127

 

 


mbl.is Í túninu heima - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan, - eitt þriggja megintímabila síðustu 100 árin.

Fyrir um öld eða tæpri öld hófst tímabil í í skemmtanamenningu þjóðarinnar sem stundum hefur verið kennt við revíurnar, sem voru fluttar allt fram undir 1960. 

Fyrirmyndin var dönsk og lögin að mestu komin hingað beint frá Danmörku eða í gegnum Kaupmannahöfn. 

Haraldur Á. Sigurðsson leikari var eitt af helstu nöfnum revíutímabilsins, bæði sem höfundur ásamt mönnum eins og Bjarna Guðmundssyni, Tómasi Guðmundssyni, Emil Thoroddsenn og Indriða Waage, og sem flytjandi ásamt Alfreð Andréssyni, Brynjólfi Jóhannessyni, Árna Tryggvasyni og Nínu Sveinsdóttur frá miðju tímabilsins til enda og Árna Tryggvasyni, Soffíu Karlsdóttur og Baldri og Konna á síðasta áratug revíutímabilsins, auk Karls Guðmundssonar eftirhermu og Gests Þorgrímssonar og Hjálmars Gíslasonar gamanvísnasöngvara. 

Inn í þetta tímabil stigu tvö stór nöfn í skemmtanalífinu á miðjum fjórða áratugnum, Bjarni Björnsson með gamanvísur og eftirhermur, sem kom frá Ameríku, og MA-kvartettinn, sem hafði erlenda kvartetta á borð við Comedian Harmonitz sem fyrirmynd. 

Veturinn 1958 til 1959 urðu snögg umskipti þegar skemmtiatriði spaugs undir alþjóðlegum og þó aðallega bandarískum áhrifum í gegnum rokkbyltinguna ruddu sér braut inn í tómarúmið sem hvarf revíanna skildi eftir. Þetta nýja tímabil stóð í megindráttum til ársins 1986.  

Þennan vetur komu þeir Gunnar Eyjólfsson og Bessi Bjarnason fram með alveg nýja tegund tveggja manna spjallþáttaspaugs sem Gunnar hafði kynnst sem flugþjónn vestanhafs. Rokkbyltingin skolaði mér inn í þetta með spaugi undir alveg nýjum lögum af erlendum vinsældalistum, djörfum háðsádeilum, uppistandi og eftirhermum.

Til urðu tvíeyki eins og Árni (Tryggvason) og Klemenz (Jónsson) og Róbert (Arnfinnsson) og Rúrik (Halldórsson). 

Á næstu árum komu síðan fram söngtríó undir áhrifum bandarískrar þjóðlagatónlistar á borð við Savanna-tríóið og Ríó tríóið, íslensku bítlahljómsveitinni Hljómum og nokkrum nýjum eftirhermum á borð við Karl Einarsson og Jón B. Gunnlaugsson. Fleiri sönghópa má nefna eins og Þrjú á palli, og 1975 stukku Halli og Laddi inn í myndina af miklum krafti með sínu mikla spaugi, sem Laddi hefur haldið áfram fram á þennan dag.  

Í bland við þessi umskipti þróuðust héraðsmót stjórnmálaflokkanna hratt á sjötta áratugnum og fengu framlengingu í Sumargleðinni 1972-86.

1986 urðu enn tímamót þegar stórbætt vegakerfi og tilkoma sólarlandaferða og myndbandaleiga breyttu skemmtanamynstrinu á sumrin og við tók tímabil sem má kenna við Spaugstofuna sem helsta merkisbera grínþáttagerðar á landinu.

Spaugstofan byrjaði að vísu 1985 en eftir gerð tveggja stórkostlegra Áramótaskaupa 1985 og 86 var brautin bein, - og 30 ára ferill, sem í hönd fór, varð einstakur í menningarsögu landsins.

Ásamt Spaugstofunni komu margir góðir skemmtikraftar svo sem Fóstbræður og Radíusbræður og síðustu árin hafa uppistandarar á borð við Jón Gnarr og Ara Eldjárn auk rappara farið mikinn, að ekki sé nú minnst á Baggalút og Hund í óskilum.

Spaugstofan hefur það einkenni margs hins besta, að að þegar lagðir eru saman fimm menn í fremstu röð, - þessu tilfelli fimm af bestu gamanleikurum og þáttagerðamönnum þjóðarinnar, - verður útkoman enn stærri en summan af einstaklingunum.

Árum saman var skrifstofa mín í Útvarpshúsinu í næsta herbergi við herbergi Spaugstofunnar, og ég held ég geti fullyrt eftir að hafa fylgst með þeim í nábýli þessi ár, að þeir unnu kraftaverk vikulega þegar þættir þeirra voru á dagskrá.

Tel að þeir hafi lagt mun meiri og merkilegri skerf til menningarsögu þjóðarinnar en menn gera sér enn grein fyrir.    


mbl.is 30 ára grínafmæli: Spaugstofan krufin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer algerlega eftir aðstæðum.

Gildi og eðli fjármagnshafta fara algerlega eftir aðstæðum. Í kreppunni miklu sem skall á 1930, reyndist óumflýjanlegt að taka upp ströng gjaldeyris- og innflutningshöft auk tolla, sem ollu því að í landinu reis umfangsmikill iðnaður sem var þjóðhagslega óhagkvæmur vegna smæðar sinnar og einangrunar þótt hann skapaði ný störf út af fyrir sig. 

1948 varð nauðsynlegt að herða svo á innflutningshöftum í kjölfar hruns gjaldeyristekna eftir lok stríðsins, að enga hliðstæðu er að finna í hagsögu landsins. 

Á síðari hluta sjötta áratugsins fóru nágrannaþjóðirnar að létta höftunum af en við sátum eftir með höft, sem urðu æ meiri dragbítur í efnahagslífinu. 

Það sem hafði verið "gaglegt tæki" hafi breyst í andhverfu sína og á árum Viðreisnarstjórnarinnar var jafn nauðsynlegt að létta höftum og tollum af og framkvæma sársaukafullan niðurskurð á tollvernduðum iðnaði með inngöngu í EFTA og það hafði verið nauðsynlegt 1930 og 1948 að koma höftunum á. 


mbl.is Höftin virkuðu fyrir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband