Fimmti Bandaríkjaforsetinn við múr, - sá þriðji til að halda fræga ræðu?

Fjórir Bandaríkjaforsetar komu til Vestur-Berlínar á Kaldastríðsárunum, Ronald Reagan reyndar tvisar, þannig að heimsóknirnar voru alls fimm.  

Reagan og John F. Kennedy héldu frægar ræður, þar sem þeir gerðu að umtalsefni múrinn, sem kommúnistastjórnin í Austur-Þýskalandi hafði reist þvert í gegnum borgina til að koma í veg fyrir að fólkið austan múrsins færu yfir til Vestur-Þýskalands. 

3,5 milljónir manna höfðu notað þessa leið í óþökk Austur-Þýskra yfirvalda, en íbúar þess lands voru aðeins 17 milljónir. 

Eins og áður sagði urðu tvær ræðurnar frægar, þar sem Bandaríkjaforsetar fordæmdu múrinn.

Sú fyrri var ræða John F. Kennedy tæpum tveimur árum eftir að múrinn var reistur, þar sem hann sagði fleyg orð: "Ég er Berlínarbúi" og sagði jafnframt að allir frjálsir menn heims væru Berlinarbúar. 

Síðari ræðuna hélt Ronald Reagan 24 árum síðar rétt við Berlínarmúrinn í námunda við Brandenborgarhliðið og ein setning varð fleygust: "Herra Gorbatsjof, rífðu þennan múr niður!" 

Nú gæti farið svo að þriðji Bandaríkjaforsetinn stefni að því halda ræðu við múr en í þetta sinn ekki við múr sem aðrir hafa reist, fulltrúar ófrelsis og kúgunar, heldur við múr sem hann hefur sjálfur, helsti fulltrúi og forystumaður frjálsra manna, látið reisa til að hefta för fólks. 

Hann hefur sjálfur upplýst að tala þeirra, sem þessi nýi múr muni hafa áhrif á, verði næstum því eins há og þeirra sem komust í gegnum Berlín á sínum tíma, áður en Berlínarmúrinn var reistur. 

Það má velta því fyrir sér, hvort Trump muni nýta sér reynsluna af ræðuhöldum fyrri forseta til þess að halda ræðu við þennan múr þegar hann hefur verið fullgerður. 

Mun hann standa þar og segja: "Ég er Mexíkói"?  Varla.

Og því síður að segja að allt frjálst fólk veraldar sé Mexíkóar.  

Eða mun hann standa þar og segja: "Herra Trump, rífðu þennan múr niður!"

Að sjálfsögðu ekki, en kannski endurtaka það sem hann sagði í 60 minutes, að hann væri góður í að skipuleggja gerð mannvirkja. 

Við lifum á athyglisverðum tímum.  Það verður varla annað sagt.  


mbl.is Heitir því að flytja milljónir úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkindatól, orkubolti og óskrifað blað?

Maður verður að þekkja það sem maður talar um.  Ég hlustaði úr hluta af nokkrum ræðum Trumps í kosningabaráttunni og meira að segja á heila 35 mínútna ræðu, bara til að reyna að átta mig á því, hvaða fyrirbæri það væri sem brytist í gegnum múra reynsluboltanna í Republikanaflokknum án þess að hafa snefil af stjórnmálareynslu. 

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um það hvernig ágengir persónuleikar með beitt, harðsvírað orðaval og kraftmikinn ræðuflutning geta líkt og dáleitt fólk á fjöldafundum og smám saman skapað fjöldahreyfingu sem virðist spretta upp úr áðum óplægðum jarðvegi.

Kosningaherferð Donalds Trumps bjó óneitanlega yfir óvæntu aðdráttarafli sem varð til þess að á endanum féllu helstu vígi keppinautar hans vegna þess að þeir hópar, sem áður höfðu verið taldir andvígastir honum, reyndust hliðhollari en búist hafði verið við. 

Það er bandarísk hefð fyrir því að nota orðið "new" sem slagorð af því að það virðist svínvirka svo oft. Hlægilegt er stundum að sjá þetta í bílabransanum þar sem tiltölulegar smávægilegar breytingar eru ýktar og fegraðar til að selja vöruna. 

Á bak við þetta leynist að fá neytandann til að halda að hann sé að upplifa eitthvað nýtt. 

Donald Trump er snjall leikari í eðli sínu og á auðvelt með að breyta um ímynd sína á sviðinu, eins og því sviði, sem hann birtist á í 60 minutes þættinum, sem var helgaður honum og fjölskyldu hans. 

Þar lýsti hann sigri hrósandi yfir endaspretti sínum þar sem hann kom fram í fimm ríkjum síðasta sólarhringinn og sagðist hafa dregið að sér 30 þúsund manns með nokkurra klukkustunda fyrirvara á einn fundinn á þeim ólíklega tíma klukkan eitt að nóttu að staðartíma. 

En það var mun yfirvegaðri, rólegri og jafnvel aðlaðandi Trump sem birtist núna, enda þarf hann ekki lengur á stóryrðunum og glannaskapnum að halda sem hann sýndi svo oft í kosningabaráttunni. 

Það jaðraði meira að segja fyrir smávegis auðmýkt hjá honum. Kona hans og fjölskylda buðu af sér góðan þokka. 

Eins og Trump er óskrifað blað sem stjórnmálamaður eru þeir 4000 starfsmenn, sem hann þarf að ráða á næstu vikum hvergi nærri komnir fram.

Trump segist vilja bægja ótta frá þeim hópum Bandaríkjamanna sem hann hefur úthúðað í kosningabaráttunni, en sum nöfn sem nefnd hafa verið sem hans helstu ráðgjafar og samstarfsmenn vekja ekki hrifningu.  

Vissulega er maðurinn sjálfshælinn og sjálfsöruggur orkubolti en ólíkindatól, sem á eftir að fá margan sagnfræðinginn til að klóra sér í höfðinu bæði núna og í framtíðinni. 

 

 


mbl.is Trump leggur drög að fyrstu dögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðfelling kennarastarfsins hefnir sín.

Sú var tíðin að kennarastarfið var metið að verðleikum hvað varðaði laun. Það sýna nýbirtar upplýsingar um að laun kennara hafi fyrr á tíð verið álíka há og laun Alþingismanna.

Þá störfuðu margir afburða góðir kennarar í skólum landsins, sem nutu mikils álits og virðingar.

Halldór Jónsson minnist á þetta í bloggpistli en telur launin ekki hafa átt neinn þátt í þessu.

Sem sagt; ekki fylgni á milli launa og sóknar fólks í starfið.

Það er einkennilegt ef aðstaða og laun hefur ekki haft nein áhrif á að nú hefur því fólki fækkað stórlega sem fer í kennaranám, svo að það er að verða eitt aðal áhyggjuefni þeirra, sem hafa bent á það grundvallaratriði að vandað sé til menntunar og skólauppeldis uppvaxandi kynslóðar.

Í athugasemd minni við pistil Halldórs bendi ég á það að við Hofteig, gegnt Laugarnesskólanum, hafi á æskuárum mínum risið einbýlishúsa, sem kennarar við skólann byggðu.

Það var ekki hver sem var á þeim árum, sem gat gert slíkt.

Halldór bendir á að hann hafi vitað um kennara sem áttu heima í fjölbýlishúsum eins og annað fólk.

Það breytir ekki þeim tveimur atriðum, að kennarar þess tíma höfðu mun betri laun miðað við aðrar stéttir en nú er og að nú hefur aðsókn í kennaranám hríðminnkað.    


mbl.is Búast við „rólegum” fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrfti að vera ein setning utan á pökkunum.

Allir þekkja áletranirnar, sem eru á sígarettupökkunum og lýsa afleiðingum reykinga. 

Í raun greina þær frá aukaverkunum reykinga. Það, sem fær fólk til að reykja, eru áhrif nikótíns á reykingafólkið, sem því finnst þægileg og verða að lokum að ávanabindandi fíkn. 

Aukaverkanirnar eru síðan sjúkdómar, sem reykingar valda, og áletranirnar greina frá þessu frumatriði. 

Raunar vantar eitt orð í áletranirnar: "Nikótín er ávanabindandi fíkniefni." 

Þegar maður kaupir lyf eins og íbúfen, er enga áletrun um aukaverkanir að finna utan á pökkunum. 

Inni í þeim er hins vegar seðill með miklu og smáu letri, sem greinir meðal annars frá aukaverkunum. 

Fróðlegt væri að vita hve margir þeirra, sem hafa keypt þetta lyf, hafa lesið þennan seðil til hlítar. 

Ég var fyrst að lesa hann núna í dag eftir að ég sá tengda frétt á mbl.is og fór að kynna mér þetta mál nánar. 

Raunar hef ég vitað nokkuð lengi um þær aukaverkanir sem tengjast hættu á blæðingum, til dæmis vegna veikrar húðar í vélinda og maga af völdum bakflæðis. 

En árum saman hafði ég ekki minnstu vitneskju um þessar aukaverkanir og tengdi því ekki óþæginda í maga og vélinda við það að nota íbúfen. 

Það varð eftir að svili minn varð óþyrmilega fyrir barðinu á þeim eftir að hafa þurft að nota lyfið í miklu mæli vegna meiðsla.  


mbl.is Mikilvægt að tilkynna aukaverkanir lyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekuð ofaníát.

Ofaníát íslenskra og erlendra stjórnmálamanna eru svo mörg, að jafnast á við heil kjötfjöll. 

Strax árið 1927 tóku Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur sig saman um að mynda meirihluta á Alþingi til að verja ríkisstjórn Framsóknarflokksins vantrausti og árið 1934 mynduðu þessir flokkar ríkisstjórn saman. 

Á þessum árum barðist Alþýðuflokkurinn fyrir því að landið yrði eitt kjördæmi og vægi atkvæða alls staðar jafnt á landin, og taldi réttilega að það, að Framsóknarflokkurinn gæti einn fengið allt að meirihluta á Alþingi út á aðeins um 30% atkvæða, væri gersamlega óviðunandi misrétti. 

Enn í dag hefur jafnt vægi atkvæða ekki fengið brautargengi nema í frumvarpi stjórnlagaráðs, þar sem jafn vægi atkvæða er sett sem skilyrði, ein samt heimilt að skipta landinu í allt að átta kjördæmi. 

1944 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn ríkisstjórn ásamt krötum og var þar um að ræða eitthvert stærsta samanlagða ofaníát stjórnmálasögunnar, svo stórt að fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru andvígir þessari stjórnarmyndun. 

Það var engin furða, því að kratarnir reyndust tregastir til að mynda stjórnina, en Ólafur "fiffaði" í málinu, eins og hann lýsti því sjálfur, með því að gera krötum tilboð, sem þeir gátu ekki hafnað; stærsta framfararspori sögunnar í almannatryggingamálum. 

1949 hét Rannveig Þorsteinsdóttir, sem varð fyrsti Framsóknarmaðurinn til að komast á þing í Reykjavík, að "segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur". 

1950 myndaði flokkurinn hina fyrstu harðsvíruðu "helmingaskiptastjórn" með þessari sömu "fjárplógsstarsemi" og varð það faðmlag lengi í minnum haft. En Rannveig hrapaði jafn hratt niður af himni stjórnmálanna og hún hafði skotist upp.  

1956 hét Haraldur Guðmundsson alþingismaður og fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins því, að Alþýðuflokkurinn myndi aldrei fara í stjórn með "kommúnistum." 

Nokkrum vikum síðar voru kratar komnir í stjórn með kommum, Alþýðubandalaginu, og fóru síðar í stjórn með "kommúnistum" 1978 og 1988.

Eitt aðalstefnumál Allaballa allan þennan tíma var "Ísland úr NATO og herinn burt!" þegar þeir sátu í ríkisstjórnum  1956-58, 1971-74, 1978-79, 1980-83, og 1988-91, alls í fimm ríkisstjórnum í alls þrettán ár, og allan þennan tíma, frá 1956 til 1991, eða í 35 ár, sat herinn sem fastast. 

Enn eru margir gramir yfir því að Vinstri grænir skyldu samþykkja að Ísland sækti um inngöngu í ESB 2009 og til eru þeir sem telja að þátttaka Samfylkingarinnar í "Hrunstjórninni" 2007 sé eitt af því sem hafi átt þátt í fylgishruni flokksins. 

Það, sem hér er kallað "ofaníát" var í öllum tilfellum réttlætt með því, að þar væri um illskásta kostinn að ræða. 

1944 sat utanþingsstjórn og þótti Alþingismönnum það næsta óbærilegur kostur. 

1956 var staðan einfaldlega þannig að fá annað hvort áframhaldandi helmingaskiptastjórn Sjalla og Framsóknar eða vinstri stjórn, og í öllum þeim tilfellum, sem Allaballar fóru í stjórn, sáu þeir fram á það að hvort eð er gætu þeir einir ekki áorkað því að herinn færi. 

Þeir fengu að vísu inn í stjórnarsáttmálann 1956 að stefnt skyldi að brottför Varnarliðsins, en atburðirnir í Ungverjalandi og Miðausturlöndum gerðu ókleyft að fá Framsókn og krata til að fallast á það. 

1971 var líka talað um brottför varnarliðsins í áföngum, en undirskriftasöfnunin "Varið land" skaut Framsóknarmönnum og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna skelk í bringu. 

Í stjórnarsáttmálum vinstri stjórna eftir það var ekki einu sinni minnst á herinn. 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendavaldur og hrellir, bæði heillandi og ógnandi.

Tunglið hefur leikið stórt hlutverk í lífi mannskyns frá upphafi veru hans á jörðinni. Karlinn í tunglinu, sem svo hefur verið nefndur, hefur fengið á sig ímynd lifandi persónun eða jafnvel draugs. 

Þegar Sjónvarpið hóf göngu sína 1966 var einhvern tíma sýnt andlitið á karlinum í tunglinu í Stundinni okkar. Fjögurra ára dóttir okkar varð svo hrædd, að aldrei varð hún hræddari um ævina.

Þetta sýnir, hve erfitt er fyrir fullorðna að áætla hvað skelfi börn.

Í þessu tilfelli hefði þess vegna vel verið hægt að birta viðvörun áður en þátturinn hófst: "Þessi þáttur er ekki við hæfi barna", eða "varað er við myndum tunglinu, sem birtast í þættinum."

Kannski var þessi ótti dóttur minnar eðlilegur, því að það eru ekki svo fáar hryllingssögurnar sem hafa orðið enn hryllilegri vegna þess að tunglið lék þar stórt hlutverk. 

Þjóðsagan af djáknanum á Myrká er ágætis dæmi. 

 

Einhvern tíma um svipað leyti og ofurmáninn var á sveimi síðast fyrir 68 árum, var gefin út bók, sem bar heitið "Undur veraldar."

Þar var fjallað um nokkur fyrirbæri, og mig minnir að lengsta umfjöllunin hafi verið um fjallið Evrest, sem þá hafði ekki enn verið klifið en þegar reynt á þolrif fjallgöngumanna eða kostað þá lífið.

Án þess að fletta því upp á netinu koma nöfnin Norton og Mallory upp í hugann þegar hrollvekjandi sögur af glímunni við hæsta fjall jarðar blunda í undirmeðvitundinni.   

En mesta hrollvekjandi umfjöllunin í bókinni var um þá framtíðarspá að mannkynið myndi leysa orkuvandamál sín með því að virkja sjávarföllin, sem eru jú fyrir tilverknað aðdráttarafls tunglsins. 

Í bókinni var rakið, ef ég man rétt, að smám saman myndi þetta hægja á snúningi jarðar, að vísu agnarlítið, en nóg til þess að braut tunglsins um jörðina myndi ofurhægt en þó með vaxandi hraða fara að nálgast jörðina og að lokum valda því að tunglið skylli á jörðinni af þvílíku afli að líf á jörðinni myndi þurrkast út í svakalegum heimsendi. f

Þessu var það vel lýst, að það varð að mikilli hrollvekju hjá kornungum lesanda, og var þó um að ræða hugsanlegan atburð óralangt frammi í framtíðinni. 

Nú er það langt síðan að þetta var, að ekki man ég hvort þessi umfjöllun tengdist ofurmánanum, sem nú er aftur kominn á kreik. 

En tunglið, jörðin og sólin eru auðvitað grundvallaratriði í umhverfi og lífi manna, samofið og háð hegðun og eðli þessara fyrirbæra. 

Og til að gæta allrar sanngirni gagnvart mánanum, má ekki gleyma þeim djúpu tilfinningum í ástalífi og rómantík, sem hann kallar oft fram á unaðsnóttum og á ferðalögum í náttúrunni. 


mbl.is Hefur ekki verið nær jörðu í 68 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband