Mesta fylgishrun Pírata í langan tíma. Minnir á krata 1979.

Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð að fylgi Pírata hafi minnkað jafn mikið og núna, eða um næstum því helming, í kringum 40%. 

Á sama eykst fylgi Vinstri grænna um fjórðung. 

Erfitt er að finna aðra ástæðu en þá að fyrirsjáanlegir erfiðleikar við stjórnarmyndun séu helsti áhrifavaldurinn. 

Þegar fylgi Pírata fór upp í 30% eða jafnvel meira, og var löngum í kringum 25% hefur það hugsanlega endurspeglað ósk stórs hluta kjósenda um eitthvað svipað og gerst hefur í Bandaríkjunum í kringum Trump og Bernie Sanders, - róttæk uppstokkun á stjórnmálakerfi, sem hefur misst traust kjósenda og valdið þeim vonbrigðum.

Þetta minnir dálítið á haustið 1979. 

1978 vann Alþýðuflokkurinn sinn stærsta sigur og komst upp í 22% fylgi í kosningunum um sumarið.

Flokkurinn sigldi á bylgju hugmynda Vilmundar Gylfasonar um róttæka uppstokkun stjórnmálanna.

Alþýðuflokkurinn varð síðan einn þriggja vinstri flokka til að mynda ríkisstjórn undir forsæti formanns þess flokks, sem mestu tapaði í kosningunum.

Í þeirri ríkisstjórn var hver höndin var upp á móti annarri frá byrjun og í september rufu kratar stjórnarsamstarfið með hvelli og settust í minnihlutastjórn með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Uppskeran varð slæmt fylgistap í desemberkosningum 1979, enda hafði flokkurinn afrekað það að verða upp á náð tveggja höfuð andstæðinga sinna kominn í stjórnarsetu á aðeins rúmu ári.

Erfið stjórnarkreppa fylgdi þá, og nú virðist, eins og 1978 og 1979, vera lítil líkindi á stjórn án þess að annar hvor stjórnarflokkanna fyrrverandi sé þar með í gerðum, eða þá Viðreisn, sem er að stórum hluta afsprengi Sjálfstæðisflokksins.  

Píratar hafa með öllu hafnað því fyrirfram að mynda stjórn með Sjálfstæðísflokknum, en geta þar með ekki átt aðild að stjórn án þess að leitað sé á náðir annað hvort Framsóknar eða Viðreisnar. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynimakk sem kostaði meira en sem nam sparnaðinum?

Það fór hljóðlega þegar þynnra malbik var lagt á götur í Reykjavík árum saman til að spara peninga. 

Fróðlegt væri ef reynt væri að komast að því hvað þetta kostaði mikið óþarfa tjón í viðgerðum, óhöppum og endurnýjun löngu fyrr og oftar en ella. 

Aldrei voru borgarbúar látnir vita um þetta eða spurðir álits en smám saman hefur vitneskja um þetta verið að síast út og til dæmis hefur það blasað við að malbik, sem lagt var á akstursbrautir og flugbrautir Reykjavíkurflugvallar fyrir meira en 15 árum hafa ekki þurft neitt viðhald á sama tíma sem holur hafa komið í stórum stíl í malbikið á götum Reykjavíkur og valdið bílaeigendum tjóni og haft óhöpp í för með sér.

Ástæðan var sú að jafn þykkt slitlag var lagt á flugvöllinn og krafist er erlendis, en þessar kröfur hins vegar hunsaðar við lagningu malbiks á gatnakerfið.

Í ofanálag hefur slitlagið sjálft löngum verið mun lakara efnislega séð en í öðrum löndum, líka til að spara peninga, og ótæpileg notkun negldra hjólbarða hefur aukið á slitið.

En sums staðar má sjá að þar sem umferð er lítil, svo sem á strætisvagnastöðvum, fer malbikið illa, rétt eins og á fjölförnum akbrautum.

Síbyljan um "séríslenskar aðstæður" sem geri gatnakerfið eins og svissneskan ost með djúpum vatnsfylltum eða krapafylltum hjólförum, er augljóslega langt frá því að vera sannfærandi.    


mbl.is Þynnra malbik var lagt í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"En þau játuðu..."

Hæg en jafn framför hefur orðið í rannsóknum sakamála síðustu 40 ár í þá átt að hverfa frá því að játningar sakborninga skipti öllu máli, og að í kringum þær þurfi að sníða rannsóknina að því sem styður játningarnar, finna gögn sem passa við þær en víkja því frá að skoða önnur gögn eða líkindi, sem ekki passa við játningarnar.

Þetta getur gengið svo langt að sleppa því að yfirheyra vitni, sem geta varpað nýju ljósi á málið, og veikt eða jafnvel ógilt játningarnar og niðurstöðurnar, sem fengnar voru með þeim.

Fyrir 40 árum var það hávær krafa fjölmiðla og almennings á Íslandi í stærsta sakamáli okkar tíma að "hinir seku" yrðu fundnir og dæmdir hart.  

Frá upphafi var öll umræðan í þessu máli byggð á þeirri forsendu að einhverjir væru sekir, þótt engin gögn fyndust þá né hafi nokkurn tíma fundist síðan, sem gæfu til kynna að nokkur hefði verið myrtur. 

Að þessu leyti er þetta íslenska mál ólíkt þeim fjölda erlendra sakamála þar sem lík, morðvopn og önnur efnisleg gögn hafa þó fundist og skapað rannsóknarferil, sem leiddi til sakfellingar á grundvelli játningar, - en síðar hefur komið í ljós að "hinn seki" gat ekki hafa framið morðið. 

Við hvert svona erlent mál, sem sagt er frá, verður maður daprari yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, ekki hvað síst eftir að strax í kjölfar bókar minnar um málið síðsumars höfðu samband við mig þrjár manneskjur, vitni, sem öll höfðu svipaða sögu að segja um það, að þau byggju yfir vitneskju, sem ekki þótti ástæða til að athuga á sínum tíma af því að það passaði ekki við játningarnar. 

Og ekki nóg með það. Það, að ekki skyldi vera talað við eitt þessara þriggja vitna, mun þykja með hreinum ólíkindum þegar þessi mistök vitnast, þótt síðar verði.

Því miður er það enn svo, að upphaflega forsendan, að morð hafi verið framin, stendur í vegi fyrir því að þessi vitni áræði að ganga lengra en að hafa samband við mig í trúnaði.

Í öll þessi ári hafa þau hikað við að gefa sig fram af því að vitnisburður þeirra myndi upplýsa saknæmt athæfi annarra en hinna dæmdu og jafnframt varpa ljósi á annað saknæmt athæfi en það að um morð hafi verið að ræða. Þau hafa líka sagt að miklu myndi breyta ef málið yrði tekið upp að nýju þannig að frumkvæði um nýjar yfirheyrslur kæmu frá nýjum rannsóknaraðilum.

Það er ekki auðvelt skref að stíga fram að fyrrabragði.  

Af þessu er ljóst að til þess að koma hreyfingu á þessi mál verður að taka þau upp að nýju og losa þau fyrst við forsenduna, sem gefin hefur verið frá upphafi, að framin hafi verið tvö morð. 

Þegar rætt hefur verið við reynda og grandvara lögreglumenn síðan dómarnir voru kveðnir upp hafa þeir verið fámálir en aðeins sagt þetta: "En þau játuðu." 


mbl.is Áratug saklaus á bak við lás og slá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband