Verður frestun ESB-málsins niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna?

Stundum þarf að víkja erfiðum og umdeildum málum til hliðar við stjórnarmyndanir. 

Stundum veldur þróun slíkra mála því að fresta verður framkvæmd þeirrar stefnu, sem sett hafði verið á blað í stjórnarsáttmála.

Gott dæmi um þetta er þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk stuðnings þingmanna Alþýðuflokksins gerði varnarsamning við Bandaríkin 1951 sem fól í sér að bandarískt herlið settist að á Keflavíkurflugvelli, kom sér þar fyrir og reisti hernaðarmannvirki.

Þetta gerðist 1951 þegar stríð í Kóreu jók mjög hættu á nýrri heimsstyrjöld, enda lagði Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi liðsins, sem barðist við lið kommúnista, til að kjarnorkuvopnum yrði beitt.

Sem betur fór varð ekki af því, en staðan var mjög eldfim.

1953 lést Stalín, vopnahlé var samið í Kóreu, og svonefnd "þíða" í samskiptum kommúnistaríkjanna og Vesturveldanna hófst.

Á útmánuðum 1956 samþykktu vinstri flokkarnir ályktun á Alþingi þess efnis, að viðræður yrðu teknar upp um brottflutning herliðs Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli.

Rökin voru þau að í ljósi bættra samskipta austurs og vesturs væri liðsins ekki þörf.

Haustið 1956 braust hins vegar út stríð í Miðausturlöndum og Rússar réðust með her inn í Ungverjaland og komu í veg fyrir að landið tæki upp hlutleysisstefnu og mildara stjórnarfar.

Þessi tíðindi komu róti á alþjóðastjórnmál og fyrirætlanirnar um samningaviðræður um brottför hersins hófust aldrei.  

Í síðari stjórnarmyndunarviðræðum þar sem Alþýðubandalagið átti aðild, fjaraði hermálið út var ekki einu sinni nefnt í stjórnarsáttmálum 1978, 1980 og 1988.

Þetta auðveldaði þessar stjórnarmyndanir og svipað kann að verða uppi á teningnum nú. 

Það er óvissa ríkjandi í málefnum ESB og almennt á Vesturlöndum, sem veldur því, að kannski verður það útgönguleið til að mynda ríkisstjórn að fresta málinu um sinn, annað hvort í einhvern tiltekinn tíma eða í ótiltekinn tíma, og sjá hvað setur. 

Undirskriftasöfnunin "Varið land" 1974 varð til þess að þegar vinstri stjórnir eftir það voru myndaðar, var hermálinu ýtt á undan sér. 

Ef andstaðan við inngöngu fer áfram vaxandi og þeim, sem vilja ganga í ESB, fer fækkandi, er kannski best að staldra við og fresta málinu um sinn. 

Finna einhverja leið, sem heldur málinu samt vakandi á meðan óvissuástand ríkir í Evrópu.

 


mbl.is Vaxandi andstaða við inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg "hringekja."

Gamalkunnugt og fyrirsjáanlegt fyrirbæri er í gangi í stjórnarmyndunarviðræðunum núna, stundum kallað "hringekjan" í gamla daga. 

Fyrirbærið felst oftast í því að formenn stærstu flokkanna, sem fyrrum voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fá að byrja með umboðið til þess að þrautreyna óskamódel sitt.

Þetta er nauðsynlegt til þess að bakland eða grasrót flokkanna fái því framgengt að kröfur þeirra um sem minnstan afslátt frá stefnumálum verði virtar í myndun samsteypustjórnar.

Formennirnir, sem reyna stjórnarmyndun, verða að leggja sig fram, svo að þeir geti eftir tilraunina sagt að nú sé óhjákvæmilegt að leita nýrra leiða.

Vegna þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum er það eitur í beinum hinna flokkanna, að endurreisa þá ríkisstjórn með því að bjóðast til að verða "þriðja hjól" undir ríkisstjórn, sem þeir eru báðir í, eins og Benedikt Jóhannesson orðaði það.

Hluti baklandsins eða grasrótarinnar í Vinstri grænum (eitt sinn kallað "villikettirnir") aftekur eins og er að fara í stjórn með Sjálfstæðiflokknum eftir að Panamaskjölin urðu opinber.

Katrín verður því fyrst að gera alvarlega tilraun til að mynda fimm flokka stjórn fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka að viðbættum miðjuflokki.

Það er fyrst þegar slík tilraun mistekst, sem menn standa frammi fyrir því að þurfa að velja, hvort þeir vilji frekar minnihlutastjórn með þann vaxandi möguleika eftir því sem tíminn líður, að forseti Íslands myndi utanþingsstjórn.

Þá gæti svo farið að mynduð verði stjórn, sem nú er ómögulegt að mynda, en verði samt að veruleika þegar menn neyðast til að brjóta odd af oflæti sínu.   


mbl.is Katrín á fund forseta á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband