Svartir blettir og kaflar í sögu ótrúlegustu þjóða.

Versta dæmið um svartan blett í sögu einnar helstu menningarþjóðar Evrópu eru voðaverk nasista.

En blettirnir eru fleiri.

Hjá frændþjóð okkar, Dönum, er meðferðin á börnum, sem danskar konur eignuðust með þýsku hermönnum svartur blettur á sögu þeirrar þjóðar.

Gömul kona í Demyansk í Rússlandi sagði mér frá því 2006 að verstu hrottarnir í hernámsliðinu, sem var lokað þar inni í fjóra mánuði á útmánuðum 1942 hefðu ekki verið þýsku hermennirnir, heldur þeir finnsku, hermenn einnar af Norðurlandaþjóðunum.

Illvirki Japana í hernumdum löndum í styrjöldum þeirra á árunum 1937-1945 er risastór svartur kafli í sögu þeirrar þjóðar.

Sömuleiðis ill meðferð Bandaríkjamanna í Seinni heimsstyrjöldinni á fólki af japönskum uppruna, sem átti heima í Bandaríkjunum.

Á fyrri hluta sjötta áratugarins viðgengust hreinar ofsóknir í Bandaríkjunum á hendur fólki, sem sakað var um þau föðurlandssvik að vera hliðhollt  kommúnistum.

Bæði þessi bandarísku mál talin vera svartir blettir á sögu þessarar miklu þjóðar lýðræðis og mannréttinda.

Það er sameiginlegt öllum þessum atvikum, að hatur og sjúkleg tortryggni sem beindist að kynþáttum, skoðunum og uppruna fólks, fór óravegu út fyrir skynsamleg mörk.

Nú sýnist af fréttum að svipað kunni að vera í uppsiglingu í Bandaríkjunum gagnvart innfluttu fólki af mexikóskum uppruna og frá löndum, þar sem múslimatrú eru höfuðtrúarbrögð.

Þjóðerni og trúarbrögð aftur leidd til öndvegis í ofsóknum gegn fólki.

Eftir að þrælum var gefið frelsi í lok þrælastríðsins í Bandaríkjunum var brugðið á það áð að hafa lög um kosningarétt og kjörgengi svo ströng, að svertingjarnir voru í raun raun sviptir grundvallarmannréttindum. 

Með fáránlega ströngum reglum um sakaskrá var auðvelt að koma svörtu fólki á sakaskrá fyrir litlar eða engar sakir.

Republikanar í Wiscounsin breyttu lögum um kosningarétt í forsetakosningunum á dögunum þannig að Trump fékk meirihluta atkvæða í ríkinu. 

Það, út af fyrir sig, réði ekki úrslitum í heildina, en söm var gerðin.

Og ef það á að flytja tvær til þrjár milljónir fólks af mexíkóskum uppruna nauðungarflutningum út úr Bandaríkjunum, á grundvelli þess að það sé á sakaskrá, eru aðferðirnar til þess að koma því á sakaskrá bæði fyrr og nú vel þekktar og æfðar.

Við Íslendingar eru því miður ekki alveg lausir við svarta bletti í sögu okkar. 

Spánverjavígin 1615 voru ekkert annað en svívirðileg fjöldamorð. 

Og Drekkingarhylur á Þingvöllum er kolsvartur blettur á helgasta stað Íslands. 

 


Orðin "hratt kólnandi" sjást ekki lengur. En hve lengi?

Fyrir einu til tveimur árum var mikið um skrif á netmiðlum þess efnis að það væri lygi og bull að loftslag á jörðinni færi hlýnandi, - þvert á móti færi loftslagið jafnvel "hratt kólnandi". 

Þegar ég hitti einn af þeim, sem haldið hafa þessu fram og ég hef kallað "kuldatrúarmenn", sýndi þessi kuldatrúarmaðu mér meira að segja hrollvekjandi mynd af einhverri mestu aukningu hafíss á norðurskautinu, sem mum gæti, máli sínu til sönnunar. 

Á þessum tíma sáust mörg ummæli þess efnis að 40 þúsund manns, þar á meðal margir æðstu þjóðarleiðtogar heims og fjölmenn sendinefnd frá Íslandi, hefði myndað einhver stærsta hóp fífla og vitleysinga sem hefðu saman komið á einum stað, það er á Parísarráðstefnunni. 

Nýlega mátti meira að segja sjá grein í Morgunblaðinu þar sem niðurstöður alþjóðastofnana og nær allra sérfræðinga á þessu sviði voru léttvægar fundnar. 

Íslenska lýsingarorðið "heimskur" á við að mann, sem aðeins sér veröldina út frá því sem blasir við heima hjá honum þannig að sjóndeildarhringur hans markast aðeins af útsýninu heiman frá honum.

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna skipaði sér í hóp "kuldatrúarmanna" í kosningabaráttunni og taldi fásinnu að Bandaríkjamenn stæðu við Parísarsamkomulagið.

Hann gekk líka lengra í því að hafa allan fróðleik og alla möguleika í þessum fræðum að engu, því að hann bætti því við að jafnvel þótt loftslag á jörðinni færi hlýnandi væri það bara "allt í lagi, af því að það snjóar í New York."  

En sem kunnugt hefur hann átt heima og starfað þar.

Í hans augum virðist víðsýnið nóg sem fæst með því að standa á efstu hæð Trump-turnsins.

Þótt orðin "hratt kólnandi" sjáist ekki sem stendur, er aldrei að vita nema að þau birtist á ný ef hægt verður að eitthvert svæði á jörðinni þar sem til dæmis snjóar meira í einhverjar vikur en fyrr.

Það gerðist á svæði austast á mörkum Bandaríkjanna og Kanada í hitteðfyrra.

Kuldatrúarmenn draga meðal annars í efa að meðalhiti á jörðinni sé rétt reiknaður, af því að meira en 70% af hnettinum eru höf þar sem ekki eru veðurstöðvar.

Aðeins örlítil kólnun veðurfars yfir heimshöfunum geri meira en að vega upp hugsanlega hlýnun á meginlöndunum.  Og það sé ekki hægt að afsanna það að loftslag yfir höfunum hafi kólnað, af því að gögn um það séu ekki til! 

Þetta er svipað og þegar því hefur verið haldið fram að svonefnd Panaskjöl séu ekki til af því að þeir, sem fjölluðu um lekann af þeim, hafi ekki í höndum frumritin!

En með því að halda þessu fram er verið að segja að það sem íslenskir ráðherrar birtu og erlendir líka, svo sem David Cameron, séu rangar upplýsingar úr því að frumgögnin í skattaskjólunum séu ekki birt. 

En þá vaknar spurningin af hverju birti þetta fólk upplýsingar sem rímuðu við Panamaskjölin ef þau skjöl eru ekki til og eru tilbúningur alheimssamsæris, sem RUV stjórnar?


mbl.is Hitabylgja á norðurskautinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ,æ, þá verða "Hann heitir Róbert.." samtöl ekki lengur á boðstólum.

Ekki var ég fyrr búinn að segja í síðasta bloggpistli frá einum af þeim löggusamtölum, sem menn með réttan búnað gátu hlerað í den, en að ríkislögreglustjóri auglýsir aðgerðir til að dulkóða öll fjarskipti lögreglumanna. 

Lok, lok og læs og allt í stáli. 

Þar með lokast fyrir möguleika til að hlusta á dýrleg samtöl á borð "hann heitir Róbert og hún heitir Judy.." eins og sagt er frá í pistlinum. 


mbl.is Öll fjarskipti dulkóðuð á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlerað löggusamtal í den: "Hann segist heita Róbert..."

Lítil saga úr Reykjavík fyrir nokkrum áratugum kemur upp í hugann þegar fréttir berast jafnt frá útlöndum sem hér innanlands af alls kyns hlerunum, svo sem af hlerunum á tetra-kerfi íslensku lögreglunnar og vitneskju Rússa um "krísu-handbók" NATO. 

Leigubílstjóri einn, sem hafði sopið marga fjöruna í akstrinum og fannst ekkert verra að geta hlerað það sem lögreglan var að gera, sagði mér þessa skemmtilega sögu fyrir mörgum árum, en á þeim tíma var hægt að ná sér í tæki eða skanna, sem gátu numið bylgjuna sem lögreglan notaði 

Bílstórinn heyrði um miðja nótt í tæki sínu að lögreglubíll, staddur við Sæviðarsund, kallaði í stöðina og sagði lögreglumaðurinn, sem kallaði að þeir hefðu handtekið ungan mann í afar annarlegu ástandi, sem hefði engin skilríki, vissi ekki hvar hann ætti heima og væri erfitt að fá út úr honum hvað hann héti. 

Hér á eftir er samtalið eða þær setningar sem leigubílstjórinn kvaðst hafa heyrt á bylgjnni. 

St: = stöðin.

Lb: = Lögreglubíllinn

 

St: Hvað heitir maðurinn? Spyrjið hann aftur að því. 

Lb: Bíddu aðeins. (Við manninn) Hvað heiturðu? 

St: Hvað segist hann heita?

Lb: Hann segist heita Róbert. 

St: Það er ekki nóg. Spurðu hann að fullu nafni. 

Lb: ( Við manninn) Hvað heiturðu meira en Róbert?

St: Já, hvers son er hann?

Lb: Hann segist heita Róbert, eh, (við manninn) hvað sagðistu aftur heita meira?

St: (Óþolinmæði í röddinni)  Já, hvað segist hann heita meira?

Lb: Hann segist heita Redford, (hikar), eh, Redford.

St: Hvaða bull er þetta?  Hann sagði áðan að hann héti Róbert.  

Lb: Já, en það er fyrra nafnið. Hann heitir líka Redford. Róbert Redford. 

St: Þetta er ekki nóg. Hverra manna er hann?

Lb: (Við manninn) Hverra manna ertu? Hvað heita foreldrar þínir?

(þögn)

St: (Vaxandi óþolinmæði í röddinni) Já, hvað heitir til dæmis mamma hans?

Lb: (Við manninn)  Hvað heitir mamma þín?

(þögn)

St: Hann hlýtur að vita hvað mamma hans heitir.

Lb: Hann segir að hún heiti Judy.

St: Judy?

Lb: Já, Judy. 

St: Judy? Bara Judy? Ekkert meira?

Lb: (Við manninn) Hvað heitir mamma þín meira en Judy? 

(þögn) 

St: Voðalega gengur þetta seint hjá ykkur. Hvað heitir mamma hans fullu nafni?

Lb: Eh, það er erfitt að skilja hann, en hann segir að mamma sín heiti Judy, eh, hérna,        Garland, eh, Judy Garland. Hann heitir sjálfur Róbert Redford en mamma hans heitir Judy    Garland. 

St: Það var mikið að það hafðist. Það var að koma hér inn félagi okkar sem kannast við kauða og farið þið með hann yfir á Klepp.  Hann hefur greinilega sloppið út. 


mbl.is Rússar voru með „krísu-handbók“ NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband