Ráðgáturnar um Amalíu Erhart og Geirfinn: Af hverju endilega á landi?.

Hvarf flugkonunnar Amalíu Erhart hefur verið ein af þekktustu ráðgátum sögunnar og kenningarnar varðandi það mýmargar.

Sumar afar langsóttar eins og sú að hún hafi lifað í mörg ár eftir slysið, verið njósnari Japana eða rænt af þeim.

Í 66 ár hef ég verið í hópi þeirra sem hafa velt vöngum yfir þessu máli og enda þótt Erhart var ekki á eins hreyfils vél eins og Lindberg, heldur á talsvert stærri tveggja hreyfla vél og því mátt ætla að minni líkur væri á að vélarbilun ylli því að vélin héldist ekki á lofti, geta komið upp aðstæður þar sem bilun í tveggja hreyfla vél getur valdið vandræðum eins og dæmin sanna.

Það er til dæmis athyglisvert, að banaslys á tveggja hreyfla einkaflugvélum í blindflugi í Bandaríkjunum, eru fleiri en á eins hreyfils flugvélum í sams konar flugi.

Aðal ástæðan er sú, að miklu auðveldara er að hafa stjórn á afllausri eins hreyfils flugvél og stýra henni til nauðlendingar sem ekki veldur bana, heldur en að hafa stjórn á tveggja hreyfla flugvél, sem fljúga verður á öðrum hreyflinum af tveimur.

Flugmenn ætla sér einnig oft frekar að fljúga við erfið skilyrði og lengra á tveggja hreyfla flugvél en á eins hreyfils flugvél.

Það vakti strax athygli mína fyrir 65 árum hve drengjaleg Amalía var. Ef beinabygging hennar hefur verið orsök rangrar greiningar á beinagrind þeirri, sem tengd frétt á mbl.is fjallar um, kemur það ekki svo mjög á óvart.

Hins vegar sýnist þessi síðasta "lausn" ráðgátunnar lítt sennilegri en aðrar.

Kyrrahafið þekur tæplega helming allrar jarðarinnar og er stærra en allt þurrlendi jarðar samanlagt.

Þess vegna er meginatriði hvarfs Amalíu augljóst: Á öllu þessu gríðarlega stóra svæði voru yfirgnæfandi líkur á því að þegar flugvél færist, lenti hún í hafinu og sykki og fyndist aldrei.

Það verður sennilega áfram langlíkegasta "lausn" ráðgátunnar miklu.

En það er eins og það sé svo ríkt í mönnum, þegar um svona ráðgátur er að ræða, að staðsetja verði lausnina á þurru landi. 

Sem aftur leiðir hugann að ráðgátunni um hvarf Geirfinns Einarssonar. Allur málareksturinn viðist hafa beinst að því að Geirfinni hefði verið ráðinn bani á þurru landi.

En fyrst síðast fréttist af honum á leið frá heimili hans niður að sjó, hví skyldi hann ekki alveg eins hafa getað farið örlítið lengra, frá landi?  


mbl.is Lést Earhart á eyju í Kyrrahafinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegt væri að sjá tíðnina síðustu árin.

Tíðni mænuskaða á fjögurra áratuga tímabili frá 1975 er birtur sem heildartala, og með fylgir að í helming tilfella á bílum, hafi bílbelti ekki verið notuð. 

Það þýðir að margfalt meiri hætta hefur verið á mænuskaða hjá þeim sem ekki hafa notað beltin, því að á þessu tímabili hefur að meðaltali mikill meirihluti þeirra, sem ferðast í bílum, notað beltin. 

En síðan 1975 hefur margt breyst. Það gekk hægt að fá landann til að taka upp notkun bílbelta og gera að skyldu að hafa belti í aftursætum, og síðustu árin hafa öryggispúðar sótt á, sem og barnabílstólar. 

Þess vegna væri gagnlegt og fróðlegt að sjá tölur um mænuskaða hjá þeim, sem ekki nota bílbelti hin síðari ár. 


mbl.is Bílveltur helsta orsök mænuskaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veilur bandarísks þjóðfélags birtast. Næstum óbærileg óvissa.

Í forsetakosningum í Bandaríkjunum birtist yfirleitt styrkleiki þessa miklu lýðræðisþjóðfélags, en einnig veikleikar þess. 

Einn veikleikinn birtist í tengdri frétt á mbl.is um skoðanakannanir, sem fara ofan í saumana á aðstæðum í hverju ríki Bandaríkjanna fyrir sig vegna þess fyrirkomulags, að heildarúrslit í atkvæðagreiðslunni á landsvísu ræður ekki, heldur það hve marga kjörmenn frambjóðendur fá alls, en sá sem fær flest atkvæði í hverju ríki fyrir sig, fær alla kjörmennina. 

Þetta olli því til dæmis, að í forsetakosningunum árið 2000 varð George W. Bush forseti þótt Al Gore hefði fengið fleiri atkvæði samtals í öllu landinu. 

Hæstiréttur varð að skera úr um úrslit kosninganna í Flórída og þar munaði einu atkvæði í réttinum varðandi það mál, en áberandi var að forsetar Republikana höfðu valið einum fleiri dómara í réttinn en forsetar Demokrata.  

Kjörmannafyrirkomulagið varð líka til þess að í forsetakosningunum 1964 fékk Lyndon B. Johnson tífalt fleiri kjörmenn en Barry Goldwater, þótt atkvæðamunurinn á milli þeirra hefði ekki verið nema brot af þessu mun á fjölda kjörmanna.

Önnur veila er sú hve miklu fólk þarf að kosta til til þess að fá að kjósa og makalaust er, að í sumum Suðurríkjunum komu hvítir menn skipulega í veg fyrir að svartir menn fengju að kjósa, jafnvel með því að ráðast á þá og drepa þá.

Kosningaþátttaka í Bandaríkjunum er langt fyrir neðan það sem við þekkjum í okkar heimshluta, rétt slefar yfir helming. 

 

Í bandarískri sjónvarpsmynd um kosningarnar, sem sýnd var í Sjónvarpinu í kvöld, var gefin afar góð lýsing á styrkleikum og veikleikum frambjóðendunum nú og reynt að útskýra hvers vegna fylgi þeirra er eins jafnt og og það er.

Uppeldi og lífshlaup þeirra virðist að mörgu leyti hafa mótað eiginleika þeirra frá barnsaldri, stundum næstum sjúklega leyndarhyggju hennar og grimman hroka hans.

Áberandi var í upprifjun á vandamálum þeirra í einkalífinu, hve stóran þátt hnýsni, skinhelgi og hræsni eiga hjá Bandaríkjamönnum, - svo mjög, að má oft furðu gegna að mál geti fellt forseta eða forsetaframbjóðanda, sem víðast í Evrópu þætti aðeins prívatmál.

Fyrir aðeins fáum árum hefði engum komið í hug, að miklu máli gæti skipt óánægja verkafólks og tekjulægri hluta millistéttarinnar í mörgum ríkjum vestra með atvinnuleysi og kjararýrnun (afsakið hina klassísku orðanotkun, lægri stétt, millistétt yfirstétt sem er byggð á því að skipta fólki í hópa eingöngu eftir tekjum og eignum).

Á þessu hefur Trump grætt og Bernie Sanders þreifst á þessu líka á undan honum, nokkuð sem Hillary Clinton hefur ekki séð fyrir, hvað þá að hún hefði getað séð fyrir, að atvinnuleysingjarnir myndu vilja kjósa milljarðamæringinn Trump sem sjálfur olli því á ferli sínum að græða milljarða á meðan þeir, sem höfðu fjárfest í því sem hann var að auglýsa, töpuðu öllu sínu.

Trump keyrir á trúna á "ameríska drauminn", - að hamingja, velgengni og velferð fáist með því að taka lífið sem eins konar frumskógarbaráttu, þar sem þeir hæfustu halda velli og sigra og geta lifað í vellystingum, en hinir veikari tapa og eiga það skilið að lepja dauðann úr skel.

Trump kann út í æsar galdra sjónvarpsins sem getur falið í sér eina veiluna í nútíma samfélagi, - hann hefur nýtt sér með öllum tiltækum ráðum til að gera sig heimsfrægan og gert hann að glæsimenni, eins konar Superman, sem alltaf sigrar, líka þegar hann tapar í gjaldþrotum og málaferlum, af því að hann viðurkennir aldrei tap og biðst aldrei afsökunar á neinu.

"Kalinn á hjarta þaðan slapp ég" eru ljóðlínur Gríms Thomsen varðandi stjórnmálin, og þær eiga vel við lífshlaup Hillary Clinton.  

Þess vegna getur önnur setning úr Íslandssögunni átt við hana: "Enginn frýr henni vits en meira er hún grunuð um græsku", þegar leyndarhyggja hennar hefur ítrekað reynst henni skaðleg og það allt fram á þennan dag. 

Ljóst er að hún hefur alla tíð viljað vel og fóstrað háar hugsjónir, en því meiri og langvarandi sem ákafinn er til að ná fram breytingum, svo sem í heilbrigðismálum, því meiri er hættan á að haga sér þannig, að tilgangurinn helgi alltaf meðalið.

Manni líður ekkert sérstaklega vel þegar hugsað er til þess tíma sem framundan er þar til kosningunum lýkur í Guðs eigin landi.

Óvissan er næstum óbærileg, enda um að ræða að velja manneskju, sem mun hafa hönd á hnappnum, sem hægt er að nota til að hefja kjarnorkustríð.     

  

 


mbl.is Trump á alvöru möguleika á sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband