Viðhald þyrlna krefst tvöfalt stærri flota af þeim en flugvélum.

Fáfræði um þyrlur, eðli þeirra, gerð og rekstur, hefur búið til og heldur áfram að búa til margar ranghugmyndir hjá fólki, til dæmis varðandi notkun þyrlna í stað flugvéla. 

Með jöfnu millibili blossar upp umræða um það leggja eigi notkun flugvéla niður til sjúkraflugs og jafnvel farþegaflugs og nota þyrlur í staðinn. Helstu rökin eru þessi: 

Þyrlur geta lent og hafið sig til flugs næstum hvar sem er en flugvélar ekki. Þess vegna eru þær fljótari á milli staða og þar af leiðandi yrði Reykjavíkurflugvöllur óþarfur ef þyrlur eru látnar leysa flugvélar af hólmi, því að þyrlurnar þurfa ekki flugbrautir.

Þyrlur hafa ekki vængi og taka því miklu minna pláss á jörðu niðri.   

Hægt er að fljúga þyrlum í verra veðri heldur en flugvélum og senn munu loftför, sem eru blendingar af þyrlum og flugvélum og þurfa ekki flugbrautir, leysa venjulegar flugvélar af hólmi. 

Skoðum þetta, lið fyrir lið og bætum við einu stærsta atriðnum, sem svo mörgum yfirsést.

1.

Þyrlur þurfa ekki flugbrautir. Þetta er rétt og geta þyrlna til að lóðrétts flugtaks og lendinga auk margfaldrar lipurðar í flugi er stærsti kostur þeirra.

2.

En síðan kemur atriði sem flestum yfirsést: Þyrlur eru margfalt flóknara tæki en flugvélar. Þær eru ekki vængjalausar eins og sumir segja, heldur eru stóru þyrluspaðarnir hreyfanlegir vængir, sem eru tengdir við stjórntæki og hreyfla með afar flóknum stillingarbúnaði, sem þarf mikið viðbótarviðhald, miðað við flugvélar.

Þyrlur þurfa þar að auki yfirleitt sérstaka hliðarskrúfu aftast með flókinni driflínu frá hreyfli til þess að hamla á móti því að átak stóru spaðanna snúi þeim í hringi og geri þær stjórnlausar.

Af þessum sökum tekur viðhald þyrlna margfalt meiri tíma en viðhald flugvéla og rekstur þyrlu er krefst um það bil þrefalt lengri tíma en viðhald flugvelar af svipaðri stærð auk þess sem rekstur þyrlna er líka margfalt meiri og tímafrekari.

Þetta er skýringin á því af hverju þyrlusveit Varnarliðsins þurfti fimm þyrlur hið minnsta, helst sex. Vegna þess að hver þeirra eyddi að meðaltali meir en tvöfalt lengri tíma í viðhaldi og skoðunum á jörðu niðri en í flugi, þurfti að gera ráð fyrir því að þrjár væru óflughæfar á hverjum tíma og þá voru aðeins eftir tvær flughæfar.  

3. Þyrlur geta flogið í verra veðri en flugvélar.  Rangt. Þær geta að vísu flogið í verra skyggni en flugvélar en þær geta ekki flogið ofar veðrum og eru ekki með jafnþrýstiklefa. 

4. Þyrlur eru fljótari á milli staða.  Bæði rétt og rangt. Þær eru fljótari á stuttum vegalengdum, en á lengri vegalengdum eru þær lengur á milli staða, því að vegna þess að vængirnir/spaðarnir snúast í hring í láréttu plani, fara blöðin á móti flugstefnunni öðru megin en með flugstefnunni hinum megin. Þess vegna er hámarksrhraði þyrlna mun minni en sambærilegra flugvéla og helmingi minni en hjá flugvélum þegar um sjúkraþyrlu af algengustu stærð er að ræða. Eftir því sem loftfarið verður stærra verður munurinn meiri því að þyrlur komast ekki yfir 250-300 kílómetra hraða, hversu stórar sem þær eru en skrúfuþotur og þotur geta flogið á allt að 900 kílómetra hraða.

5. Senn mun ný tækni, blanda af þyrlu og flugvél, leysa flugvélar og flugvelli af hólmi.  Rangt. Þetta var líka sagt fyrir 10 árum, 20 árum og 30 árum, og enn eru menn engu nær.

Það er einfaldlega vegna þess að það er margfalt hagkvæmara og ódýrara að láta fasta vængi fá loft undir sig í flugtaksbruni svo að flugtak verði mögulegt heldur en að láta hreyfanlega vængi með flóknum og dýrum drif- og stjórnbúnaði útvega lyftikraftinn.

Meira en 70 prósent af sjúkraflugi hér á landi er með flugvélum. Af hverju?  Af því í öllum þessum tilfellum er flugið þægilegra, styttra og miklu, miklu ódýrara en ef þyrla væri notuð.

Sama gildir um flug með farþega og varning.  


mbl.is Tvær þyrlanna ekki í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurskrifuð hressilega, - allar skelfingar voru krötum að kenna.

Maður gapir við að sjá sumt af því sem nú er haldið fram til að endurskrifa sögu lýðveldisins. 

Eitt af því er, að ævinlega þegar kratar komust í ríkisstjórn dundi yfir mesta skelfingin, óðaverðbólga og auðvitað Hrunið. 

Sagan er endurskrifuð þannig að þetta var alltaf krötum að kenna. 

Það var krötum að kenna að verðbólga hófst 1978 þegar þeir voru í stjórn í eitt og hálft ár. 

Halló! 

Þetta er rangt, þótt nú eigi að festa það í sögubækur. Umrædd verðbólga hófst rúmu ári eftir að kratar hrökkluðust úr stjórn við fall Viðreisnarstjórnarinnar 1971 og voru utan stjórnar nema í eitt og hálft ár öll þau 12 ár sem liðu þangað til umrædd óðaverðbólga setti Íslandsmet vorið 1983 og hélt áfram 1983 til 1987. 

Síðan er fullyrt að efnahagshrunið 2008 hafi verið krötum að kenna og engum öðrum. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hafði verið samfellt í stjórn 1991-2009, eða í átján ár, kom þar víst hvergi nærri!  Kratar höfðu verið í stjórn í hálft ár, þegar hraðferðin til heljar hófst undir lok árs 2007 og raunar munaði hársbreidd árið 2006 að bankaahrunið yrði þá.

Þar sem fullyrt er í hinni nýju sagnaritun að ævinlega hafi skelfing fylgt stjórnarþáttöku krata verður næsta skref líklega að saka þá um upphaf þess verðbólgutímabils sem hófst árið 1942 og stóð allt til ársins 1990.

Á upphafsári þessarar miklu verðbólgu fóru kratar úr stjórn og minnihlutastjórn Ólafs Thors og síðar utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar tóku við. Ólafur Thors gerði lítið úr verðbólgunni og ummæli hans um að hægt væri að lækna hana með einu "pennastriki" voru höfð að spotti.

Kratar eiga að sjálfsögðu sinn hluta af ábyrgð gamla fjórflokksins á verðbólgu og óreiðu á þeim hluta fullveldistímans, sem hófst með alveg nýrri tegund verðbólgu 1942, en þó verður að geta þess, að eftir að þeir fóru fyrst í stjórn 1934 hafa þeir aðeins verið þáttakendur í stjórn í 30 ár af þeim 74 árum sem liðið hafa, þar af 13 ár í Viðreisnarstjórninni, sem með sama áframhaldi hinnar nýju sagnariturnar verður væntanlega eingöngu þökkuð Sjálfstæðisflokknumm af því að það rímar ekki við nýju Íslandssöguna að þeir hafi getað verið í svo góðri ríkisstjórn.  

Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar í ríkisstjórn í 54 ár og Framsóknarflokkurinn í öðru sæti eftir fyrstu verðbólguölduna. 


mbl.is Kratar í kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafarþögnin mikla.

Það er athyglisvert hvernig það er eins og að þögn um umhverfismál slær á fyrir kosningar um helstu málefni þjóðarinnar. 

Þetta gerðist fyrir kosningarnar 2007 og gerist aftur fyrir kosningarnar nú. 

Þó eru umhverfismálin þegar orðin að helsta viðfangsefni mannkyns vegna þess að núlifandi jarðarbúar stunda rányrkju á helstu auðlindum jarðar jafnframt geigvænlegu kæruleysi varðandi umhverfisáhrif þessarar rányrkju. 

Hér á landi hefur viðfangsefnunum í aðgerðum á þessu sviði verið vikið til hliðar og er það út af fyrir sig okkur ekki til sóma. 

Það sem gert hefur verið hefur að mestu ekki verið vegna hugsjónaelds, heldur einfaldlega vegna þess að það sparaði okkur stórfé og gjaldeyri að fara út í hitaveiturnar okkar til húsaupphitunar í stað þess að flytja inn kol og síðar olíu til þessara nota.  

Verst er nefnilega, að við höfum verið að streitast við í síbylju að hreykja okkur upp með síendurteknum fullyrðingum um forystu okkar og hugsjónir á öllum sviðum umhverfismála sem að stórum hluta byggjast á hreinum lygum, svo að talað sé tæpitungulaust.

Það brá fyrir lítil frétt um orkuskort, sem gæti farið að há Reykvíkingum. Samt framleiðir Orkuveita Reykjavíkur rafmagn sem nægt gæti fyrir milljónaborg.

Ástæðu aðsteðjandi orkuskorts nefna menn ekki, en hún er sú, að forsendan, sem gefin var um endingu virkjananna á Hengilssvæðinu og önnur slík jarðvarmaraforkuver á Íslandi, var sú að hún gæti enst í 50 ár.

Sem sagt: Rányrkja en ekki "hrein og endurnýjanleg orka" í sjálfbærri þróun.

Orka Hellisheiðarvirkjunar er þegar farin að minnka á sama tíma sem orkuþörf íslenskra fyrirtækja og heimila vex.  

Hin raunverulega ástæða orkuskortsins er sú, að í hreinni græðgi áltrúarmanna var Hellisheiðarvirkjun höfð alltof stór í upphafi til þess að nokkur von væri til að orkan gæti enst, - byggt var á því að geta pumpað nógu mikilli orku upp úr jörðinni til að selja stóriðju sem mest af henni á smánarlega lágu verði.

Orkusalan til stóriðjunnar er fastbundin nokkra áratugi fram í tímann á sama tíma sem orka virkjunarinnar mun fara stöðugt minnkandi. Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Það eina sem áltrúarmenn sjá er að byggja upp þörf fyrir nýjar virkjanir úr þeirri ruslakistu rammaáætlunar sem felst í því að njörva á endanum allan Reykjanessskagann frá Reykjanestá til Þingvallavatns í net virkjana með sínum stöðvarhúsum, skiljuhúsum, borholum, gufuleiðslum, risaháspennulínum og vegum sem svona virkjanir, að ekki sé nú talað um virkjananet, fela í sér. 

Gígaröðin Eldvörp er næst á dagskrá, þar sem hraða á uppdælingu jarðvarma með fyrrnefndu mannvirkjaneti, sem ná á 15 kílómetra leið frá Svartsengi til sjávar vestan við Grindavík.

Loftmyndin er tekin á flugi suðvestan við Svartsengi og sést til suðurs yfir hluta af þessari sérstæðu þráðbeinu 10 kílómetra löngu gígaröð, en í fjarska sjást Grindavík og ströndin þar vestur af. 

 

 


Hinn hægi skriðþungi.

Í nokkrum sjónvarpsmyndum að undanförnu höfum við verið minnt á það, hve óhemju seinlegt það er oft að koma fram umbótum í mannréttindamálum. 

Í mynd í Sjónvarpinu í kvöld kom ekki aðeins fram, hve litlu munaði að afnám þrælahalds í Bandarríkjunum yrði afnumið með stjórnarskrárbreytingu 1865, heldur einnig hvernig sá skilningur var enn ríkur, að aðeins væri um lagalegt jafnrétti að ræða með breytingunni en ekki kynþáttajafnrétti. 

Þar heyrðist líka mikill kurr í þingsal þegar minnst var á að svertingjar fengju kosningarétt og enn meiri kurr, þegar minnst var á að konur fengju kosningarétt. 

Í annarri mynd á dögunum var reifað hvernig Lyndon B. Johnson þurfti að beita öllum brögðum í bókinni heilli öld síðar til þess að ná því fram að raunverulegt jafnrétti og að kosningaréttur svertingja yrði tekið upp í öllum ríkjunum.

Nú getur orðið mjótt á munum varðandi það að kona verði forseti Bandaríkjanna, og það heyrðist hjá andmælanda þess vestra, að ótækt væri að kona væri talsmaður og fulltrúi þjóðarinnar gagnvart karlkyns fulltrúum annarra ríkja.

Er furðulegt að heyra slíkt í ríki frelsis og jafnréttis á þeim tímum sem Margareth Thatcher og Angela Merkel hafa verið einhverjir kraftmestu leiðtogar fjölmennra Evrópuríkja.

Já, skriðþunginn er hægur. 165 árum eftir að þáverandi dönsk valdastétt brá fæti fyrir það að Jón Sigurðsson og aðrir fulltrúar á íslensku sérstaklega kjörnu stjórnlagaþingi (Þjóðfundi) gæti klárað að semja nýja íslenska stjórnarskrá, skuli enn vera brugðið fæti fyrir að uppfylla loforðin 1851 og 1944 um það.   

 


mbl.is Clinton og Trump keppa um lykilríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband