Oft hefur þurft að gefa nokkrum kost á að fá umboð.

Það eru mýmörg dæmi um að það hefur þurft að fara "umferð" í gegnum flokksformennina í stjórnarmyndunum hér á landi.  

Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk til dæmis umboðið fyrstu 1974 eftir kosningasigur flokksins og góða útkomu Framsóknarmanna, sem olli því að það voru lang mestar líkur til þess að þessir tveir flokkar mynduðu stjórn. 

Sem dæmi um það hvernig það lá í loftinu, var að ég gaf Framsóknarflokknum atkvæði mitt í þessum kosningum til þess að leggja mitt af mörkum til að glæsileg þátttaka í undirskriftasöfnuninni "Varið land" gegn því að varnarliðið færi úr landi yrði ekki til þess að hinir hörðustu í Sjálfstæðisflokknum fengju fram aukin áhrif varnarliðsins. 

Raunar kom ekki til þess, Sjallar voru ekkert að aðhafast í þessa veru og Framsóknarflokkurinn gerði ekkert í málinu.  Og ég kaus Framsóknarflokkinn aðeins í þetta eina sinn og ekki aftur! 

Þegar Ólafur Jóhannesson fékk síðan stjórnarmyndunarumboðið nýtt hann sér klókindi sín til hins ítrasta og kom því þannig fyrir að Framsókn myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem hafði auðvitað alltaf verið ætlun Ólafs, sem var búinn að fá sig fullsaddan af brostnu samstarfi flokkanna í vinstri stjórn hans.

En hluti af dæminu var það að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra, og því mátti segja að Ólafur hefði myndað stjórnina fyrir Geir.

1947, 1949, 1950, 1978, 1979-80, 1987 og 1988 þurfti að gera ýmsar tilraunir í umboði formanna flokkanna til þess að fá niðurstöðu.

 

1978 tapaði Framsóknarflokkurinn langmest og varð í fyrsta sinn í sögu sinni ekki lengur næst stærstur fjórflokkanna, heldur minnstur. 

En þegar röðin kom að Ólafi að reyna stjórnarmyndun eftir misheppnaðar tilraunir hinna formannanna tókst Ólafi að mynda stjórn og varð forsætisráðherra! 

Í svona tilfellum verður að anda rólega með nefinu og fara ekki á taugum, vegna þess sem Styrmir Gunnarsson nefnir í grein sinni, að það tekur tíma til þess að finna fleti á mismunandi samstarfi og oft reynist nauðsynlegt að útiloka sum hugsanleg mynstur með því að láta á þau reyna og fara aðrar leiðir eftir að þau reynast ekki ganga upp.  


mbl.is Telur VG þurfa tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er áttavitinn orðinn úreltur?

Það er rétt sem komið hefur fram að allir geta orðið óheppnir á ferðum sínum, eins og gerðist nú síðast á Snæfellsnesi. 

En samt leiða hliðstæð atvik hugann að einu tæki, sem fyrrum var það eina, sem gat veitt villtu fólki leiðsögu. Það er áttavitinn. 

Áttaviti er lítið tæki sem hefur það fram yfir farsíma að virka á svæðum þar sem farsími virkar ekki. 

Einu sinni var kennt að það væri gott að hafa áttavita við hendina á ferðalögum fjarri byggð, þar sem veður geta verið misjöfn og myrkur og þoka skollið á. 

En nú er alveg hætt að minnast á áttavitann.  

Merkilegt. 

 

P.S.  Það virðist vera ómögulegt að segja: "Þeir héldu hvor um annan," sem er ekki aðeins rétt meðferð móðurmálsins, heldur rökrétt líka.

Nei, þolfall skal það vera, "þeir héldu hvorn um annan."  Þá væri alveg eins hægt að segja: "Þá héldu hvorn um annan" svo að allt sé í þolfalli.  


mbl.is Héldu um hvorn annan en sofnuðu aldrei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur fordæmi fyrir stjórnarsamstarfi milli andstæðra póla yfir miðjuna.

Þegar Sveinn Björnsson ríkisstjóri myndaði utanþingsstjórn 1942 eftir langvarandi stjórnarkreppu, tóku formenn flokkanna, einkum Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins, það afar nærri sér. 

Eiðrofsmálið svonefnda og trúnaðarbrestur milli hans og Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins, hafði valdið því að gefnar voru harðar yfirlýsingar um að hvor um sig teldi útilokað að vinna með hinum. 

Stjórnarkreppan varð vegna þessa og einnig vegna þess að svipað ástand ríkti milli Sjalla og flokksins, yst til vinstri, sósíalistaflokksins, sem yfirleitt gekk undir heitinu "kommarnir". 

Ólafi tókst að rjúfa þessa hindrun með því að mynda meirihlutastjórn þvert yfir miðjuna, með Alþýðuflokknum og Sósíalistaflokknum, svokallaða Nýsköpunarstjórn. 

Þegar hún féll hófst aftur stjórnarkreppa og hótun Sveins Björnssonar, nú forseta, um að mynda utanþingsstjórn, vofði yfir. 

Ólafur Thors og Hermann Jónasson brutu því odd af oflæti sínu að því leyti til að það tókst að mynda þriggja flokka stjórn undir forsæti krata með Ólaf og Hermann utan stjórnar.

1950 komu þeir síðan inn í nýja stjórn eftir stjórnarkreppu, sem var orðin ískyggileg, en hvorugur hafði forsæti.

Í janúar 1980 var enn komin upp sú staða, að í stjórnarkreppu vitnaðist það að Kristján Eldjárn forseti væri með utanþingsstjórn tilbúna.

Þá mælti Morgunblaðið með myndun stjórnar tveggja andstæðra póla yfir miðjuna, en það virtist ekki ætla að ganga upp fyrr en Gunnar Thoroddsen myndaði með minnihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins stjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki.

Í öllum þessum tilfellum voru stjórnarmyndunartilraunir að komast út í öngstræti, en fordæmið, sem gefið var með utanþingsstjórn 1942, varð til þess að fundin var lausn á síðustu stundu.

Bæði 1944 og 1980 klofnaði þingflokkur Sjálfstæðismanna vegna málsins, en nú virðist frekar, að Vinstri grænir séu hikandi.

Reynslan frá árunum 1942 til 1959 sýnir, að það getur dregið allt að 17 ára dilk á eftir sér ef menn eru með of stóryrtar yfirlýsingar fyrirfram um stjórnarmyndunartilraunir, sem erfitt er að sjá fyrir endann á.  


mbl.is Getur ekki skellt í lás fyrirfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fótur fyrir því" að 817 hafi verið hvattir.

Jónas Jónsson frá Hriflu, hugsanlega stjórnmálamaður síðustu aldar á Íslandi, var stórbrotinn en líka umdeildur formaður Framsóknarflokksins 1934-1944. Séra Emil Björnsson fréttastjóri Sjónvarpsins 1965-1985 var þingritari á tímabili og fréttamaður útvarps í framhaldi af því. 

Hann sagði okkur fréttamönnunum eitt sinn frá því að hann hefði orðið vitni að því á fundi Framsóknarmanna á Laugarvatni í formannstíð Jónasar, að hann hefði staðið í rjóðri í skóginum fyrir ofan skólann ásamt þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni og talað yfir hausamótunum á þeim eins og kennari við nemendur sína. 

Jónas var alla tíð eins og eitrað peð fyrir Framsóknarflokkinn í stjórnarmyndunarviðræðum. 

Aðrir flokkar tóku það ekki í mál að samþykkja að hann yrði ráðherra og Jónas og flokkurinn urðu að lúta því við stjórnarmyndanirnar 1934 og 1939. 

Krafa um ráðherradóm Jónasar af hálfu flokksmanna hans var samt aldrei rædd opinberlega á þessum tíma svo mér sé kunnugt, enda var fjölmiðlaumhverfið allt annað og lokaðra þá en nú. 

Á endanum var Jónas síðan felldur úr formannsstóli 1944 og það er kaldhæðni örlaganna, að hann lenti í svipuðu og Sigmundur Davíð nú í kjördæmi sama landshluta í kosningunum 1946, að vera kosinn þar eftir sem áður rétt eins og Sigmundur 70 árum seinna, en orðinn utangátta í flokknum. 

Á tíma Jónasar voru hann og flestir þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum og því ekki um að -ræða að strika hann út í kosningum. En sérkennilegt er að sjá nú sagt að "fótur sé fyrir því" að hvatt hafi verið til útstrikana þegar haft er í huga umfang útstrikananna, 817 kjósenda. 

Þessi fjöldi er einfaldlega of mikill til að gefið sé í skyn að útstrikendur hafi verið viljalaus verkfæri ofsækjenda SDG. 

En klárum söguna af Hriflu-Jónasi.  Í næstu kosningum á eftir, 1949, hætti hann á þingi, var orðinn utangarðsmaður í íslenskum stjórnmálum en gaf út eigið blað, Ófeig, sem mér fannst fróðlegt að lesa, enda Jónas á undan sinni samtíð strax í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar varðandi greiningu og skiling á stöðu Íslands í utanríkismálum. 


mbl.is Krefjast sætis fyrir Sigmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband