Þetta væri ekki spurning í "landi frelsis og einkaframtaks".

Lónin við jaðra jökla hér á landi, einkum lónin við jaðar Breiðamerkurjökuls, eiga enga sína líka í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Að vísu er til svipað lón í Alaska, en hvergi nærri með viðlíka umhverfi og stórjökul að baki eins og Vatnajökul. 

Á sama hátt og Vatnajökulsþjóðgarður var látinn ná alls staðar út að jaðrinum þegar honum var komið á fót, þarf að færa mörkin það langt út, að þau nái að minnsta kosti að þeirri línu, sem jökullinn náði til þegar hann var stærstur í kringum aldamótin 1900. 

Í Bandaríkjunum, "landi frelsis og einkaframtaks" þykir sjálfsagt að helstu náttúruverðmæti séu í þjóðareign og að allir, jafnt þegnar landsins sem aðrir, greiði gjald fyrir að koma inn á þessi svæði og þess vegna væri löngu búið að koma íslensku jökullónunum í þjóðareign, ef þau væru í Bandaríkjunum.  


mbl.is Sigurður Ingi vill að ríkið kaupi Fell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, hve amerískt!

Hvíti maðurinn ruddist yfir Ameríku með vopnavaldi fyrir nokkrum öldum og hertók hana með hestinn og byssuna sem tákn hins óhefta og skilyrðislausa valds yfir frumbyggjum, náttúru, auðlindum og dýrum. 

Indíánar undruðust hvernig þeir riðu viðstöðulaust yfir ár án þess að spyrja landvætti um leyfi. 

Með byssunni fóru Buffalo-Bill og aðrir veiðimenn létt með að útrýma hundraða þúsunda hjörðum vísunda á tiltölulega fáum áratugum án þess að gæta að lögmálum Indíána, sem kveða á um að tryggja skuli að nýting auðlinda sé þannig, að ekki sé gengið á rétt næstu sjö kynslóða til að nýta þær. 

Þetta þýddi í raun sjálfbæra þróun án rányrkju, því að með hverri kynslóð sem féll frá, bættist ein ófædd kynslóð við röð kynslóðanna.  

Ingólfur Arnarson lét heimilisguðina Þór og Frey, sem voru í öndvegissúlunum, reka á land í Reykjavík og hélt vafalaust sérstaka fórnarhátíð þar sem heimilisguðirnir friðmæltust við landvættina. 

Það liggur fyrir að Ingólfur taldi að hinn trúlausi Hjörleifur, fóstbróðir hans, hefði goldið fyrir það með lífi sínu að hafa ekki friðmælst við landvættina í Hjörleifshöfða og Vestmannaeyjum. 

Byssuást Bandaríkjamanna er grunnmúruð í hugsunarhátt hins hrottafengna landnáms, sem er falið í heitunum "frontier-nation" og "frontier-spirit." 

Þess vegna sé byssan enn svo nauðsynleg og næsta heilög. 

Kanadamenn og Ástralir eru líka "frontier-þjóðir" en þar er byssueign margfalt minni og byssudráp sömuleiðis. 

Byssumaðurinn á kjörstaðnum í Virginíu er táknmynd þess sem Donald Trump stendur fyrir, réttur þess sem er meiri máttar til að drottna yfir hinum í krafi auðs, sem oft er illa fenginn, borga enga skatta og skilja eftir sig slóð hlunnfarins fólks í viðskiptum í krafti frumskógarlögmáls viðskiptalífsins. 

Það, að slíkur maður skuli vera hársbreidd frá því eða jafnvel við það að hrifsa völdin í Bandaríkjunum er hins vegar alvarleg áminning um það hvaða afleiðingar staðnað og spillt valdakerfi getur haft.

Trump nærist á réttmætri gremju vaxandi fjölda fólks sem ofbýður sérdrægni og spilling stjórnmálamanna og kerfiskarla vestra.

Þar er í gangi háskaleg blanda peninga og stjórnmála.   


mbl.is Má mæta með byssu á kjörstað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undraverð gripgeta.

Fyrir nokkrum árum þurfti ég að aka frá Björgvin í Noregi til Stokkhólms í Svíþjóð þegar ég tengdi saman þrjú ferðalög, - í fyrsta lagi að skemmta á þorrablóti í Stokkhólmi, í öðru lagi að taka myndir á því svæði sem herskip Þjóðverja voru á ferð í upphafi innrásarinnar í Noreg 1939 og leiðangri Bismarck og Prinz Eugen 1941 (Rheinubung) og í þriðja lagi að taka myndir og kynna mér aðstæður við tvær olíuhreinsistöðvar Norðmanna fyrir norðvestan Björgvin og við Slangetangen við sunnanverðan Oslófjörð.

Ég leigði mér bíl til ferðalagsins en leist sannarlega ekkert á blikuna í upphafi ferðar, því að Norðmenn eru mjög fráhverfir negldum hjólbörðum og enga bílaleigubíla var að fá með slíkum dekkjum. 

Nú kunna menn að segja að aðstæður úr Noregi séu allt aðrar en hér á landi, en það er einfaldlega rangt hvað varðar stóran hluta landsins, einkum vesturströndina og syðsta hlutann. 

Þar er veðurfar afar svipað því sem er hér á landi, umhleypingar með hita í kringum frostmark og oft fljúgandi hálka.

Þegar ég var þarna á ferð var einmitt fljúgandi hálka á flestum vegum og mér leist ekkert á blikuna.

En undir bílnum voru ný og feiknarlega góð dekk með vetrarmynstri og ég undraðist hve veggripið var gott, trúði því varla.

Mælingar og rannsóknir sýna, að aðeins þegar rignir á glæra svell grípa negldir hjólbarðar eitthvað betur en ónegldir. En ef aðeins er ekið á götum á höfuðborgarsvæðinu eða á vegum út frá borginni þar sem vel er séð fyrir hreinsun, geta komið samliggjandi vikur og jafnvel heilir mánuðir yfir veturinn sem götur eru auðar og engin slík hálka myndast.

Mjög mikil notkun negldra hjólbarða slítur hins vegar götunum mikið og myndar sleipa tjöru á þeim og dekkjunum, sem dregur úr gripi hjólbarða við flestar aðstæður og sest á framrúður bíla.

Samanlögð áhrif af þessu tagi vega því jafnvel þyngra, bæði í óhöppum og slysum, en grip naglanna við sjaldgæfar aðstæður.

Því má bæta við, að negldir slitnir hjólbarðar grípa verr í öllum skilyrðum en nýir og góðir ónegldir hjólbarðar af bestu gerð. 

En auðvitað eru not bíla misjöfn og ofangreint varðar að vísu yfirgnæfandi not bílaflotans en ekki sérhæfð not eins og fjalla- og jöklaferðir.

Af því að stundum beinir fólk þessu umræðuefni beint að mér sjálfum er best að svara því hér.

 

Ég að mestu leyti hættur að nota bíla til persónulegra ferða minna og nota tvö hjól í staðinn, annars vegar létt vespuhjól og hins vegar enn léttara rafreiðhjól.

Hið síðarnefnda er tíu sinnum léttara með manni á en bíll, og er að mestu ekið um gang- og hjólabrautir. Það er ekkert grín að detta á hjóli, og að skrika til á hjóli er allt annars eðlis gagnvart þeim sem á því er, en ef hann væri á bíl.

Þess vegna er rafreiðhjólið á negldum dekkjum yfir veturinn en hitt hjólið ekki enn sem komið er.

Síðan á ég tvo fornbíla, sem eru jöklabílar, og er nánast ekkert ekið nema við alveg sérstök skilyrði á fjöllum.  Þeir eru til taks ef ég þarf að fara í slíkar ferðir, sem geta oft komið upp fyrirvaralaust.  Þær ferðir eru orðnar fáar hjá mér og ég hef ekki farið í slíka ferð í þrjú ár.  Annar þeirra er minnsti og léttasti jöklabíll landsins. Í jöklaferðum verða menn að vera viðbúnir því að aka á blautu og glæru svelli, einkum að sumarlagi.  

Undanfarna vetur hef ég mest ekið á litlum fornbíl, sem er á ónegldum hjólbörðum allt árið. 

 

P. S.  Sérkennileg tilviljun:  Meðan ég var fastráðinn fréttamaður hjá Stöð 2 og Sjónvarpinu ók ég á árunum 1991-2004 á breyttum jöklajeppum.  

Grár, breyttur Hi-lux, sem Stöð 2 átti, fauk á blautu, glæru svelli, valt og eyðilagðist. Annar breyttur hvítur Hi-lux í minni eigu, sem ég notaði fyrir Sjónvarpið í fjallaferðum, endaði feril sinn eins; fauk á glæru svelli í fjallaferð og eyðilagðist!  

 


mbl.is Nagladekkin áður eini rökrétti kosturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband