Nýtt met í að hafna viðtengingarhætti?

Ég minnist þess ekki að hafa séð viðtengingarhætti hafnað eins mikið og í tengdri frétt á mbl.is um úrskurð í Héraðsdómi.

Í fréttinni er sagt frá úrskurði Skipulagsstofninar um "að sólarkísilverksmiðja á Grundartanga þarfi ekki að fara í umhverfismat" og síðar í fréttinni er tvísvegis talað um beiðni um að hrnekkja úrskurði Skipulagsstofnunar um "að sólarkísilverksmiðjan "þarf" ekki að fara í umhverfismat." 

Viðtengingarháttur er alls sniðgenginn fjórum sinnum í þessari stuttu frétt. 


Viðtengingarháttur fyrir borð borinn.

Ég minnist þess ekki að viðtengingarháttur hafi verið eins ítrekað fyrir borð borinn í texta og í tengdri frétt á mbl.is um úrskurð þess efnis að sólarkísilverkmiðja á Grundartanga þurfi að fara í umhverfismat. 

Talað er um "að sólarkísilverksmiðja á Grundartanga þarfi ekki að fara í umhverfismat og síðar er talað um "að sólarkísilverksmiðja á Grundartanga þarf ekki að fara í umhverfismat. 


mbl.is Höfnuðu beiðni landeigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig var það þegar "veldi Ameríku var mest"?

Donald Trump hefur hamrað alla kosningabaráttuna á því að hann ætli að endurreisa "veldi Bandaríkjanna" ("to make America great again").

Svipað heyrðist hjá John McCaine frambjóðanda repúblikana í kosningunum 2008 varðandi Víetnamstríðið.

Hann harmaði það hvernig Bandaríkin biðu þann sinn fyrsta ósigur í stríði og taldi sig geta fært rök fyrir því að það hefði verið hægt að vinna sigur.

En hvernig stóðu heimsmálin á dýrðar- og blómatíma Bandaríkjanna frá 1945 til 1968?

Eftir Seinni heimsstyrjöldina báru Bandaríkin ægishjálm efnahagslega yfir öll önnur ríki veraldar.

Japan og Þýskaland og mörg Evrópulönd voru annað hvort í rústum eða löptu dauðann úr skel.

Í Bandaríkjunum höfðu menn aðeins hernaðarlegar áhyggjur varðandi kjarnorkuvopn og stóran herafla Sovétríkjanna.  En Stalín og eftirmenn hans reyndust óviljugir til að fara í stríð og ákveðin pattstaða myndaðist í Evrópu þegar Járntjaldið féll var reist fá norðri til suðurs yfir álfuna.

Bandaríkjamenn bruðluðu með hræódýra olíu og bensín og óku um á blýspúandi drekum, bílunum, sem þykja flottastir fornbíla hér á landi og tákn ameríska draumsins.

Í mörgum borgum Ameríku, svo sem Los Angeles var "fog" dögum og vikum saman, það sást varla út úr augum fyrir mengunarstybbu, svo að súrnaði í augum.

Hernaðarbandalög umhverfis kommúnistaríkin og aðgangur að olíulindum Arabaríkjanna tryggði yfirráð og velmegun í voldugasta ríki heims,  þar sem unglingar voru í fyrsta sinn í mannkynssögunni orðnir einn öflugasti markhópur neysluþjóðfélagsins og ráðandi afl í tónlist og stórbrotnu skemmtanalífi. 

Þetta er tímabilið sem Donald Trump saknar, tímabilið þegar hægt var að sóa og bruðla með auðlindir jarðar og láta umhverfismál og lofthjúp lönd og leið. 

Þetta vill auðkýfingurinn endurreisa, fjölga auðkýfingum og mylja undir þá af því að þeir séu, eins og hann, svo frábært yfirburðafólk, allt verði að gulli sem þeir snerta með töfrasprota sínum.  

Hann vill reisa múra umhverfis Bandaríkin, bæði raunverulega og í tollum, rifta fríverslunarsamningum, reka ellefu milljónir manna úr landi, snúa frá þeirri stefnu í hernaðarsamvinnu við önnur ríki, sem Roosevelt tók upp 1941 og hefur ríkt síðan. 

Gera milljónir vinnandi fólks í öðrum löndum atvinnulausa og flytja þau störf heim til Bandaríkjanna. 

Með því verður kynt undir fátækt í þróunarlöndunum og ráðist á hagvöxt þar, en ekki gætt að því að verð á þeim varningi, sem þar hefur verið framleiddur, og hefur skapað aukinn kaupmátt í Bandaríkjunum og á Vesturlöndum með ódyrari vörum af öllu tagi, mun óhjákvæmilega valda mikilli verðhækkun þegar borga þarf miklu meira fyrir störfin sem skapast heimafyrir en þarf að borga í Kína og á Indlandi, svo dæmi séu tekin. 

Af því að kannski mun snjóa sjaldnar í New York með snarhækkandi hlýnun jarðar, verður miðað við það eitt eins og Trump hefur gert og fullyrt, að hlýnun loftslags sé af hinu góða, en ekki gætt að því að heilar þjóðir annars staðar muni þurfa að flýja sökkvandi lönd og eyðimerkur Norður-Afríku og Asíu munu sækja fram til norðurs og til allra átta.

Þetta og fleira er byggt á þeirri stefnu, sem Trump hefur boðað og lofað að framfylgja, - þetta er ekki uppskáldað að andstæðingum hans.

1968 varð hippabylting í Bandaríkjunum, næstu ár á eftir fóru hrökkluðust þeir  út úr Víetnam, það var byrjað að takmarka útblástur bíla, Japanir og Þjóðverjar efldust í bílaframleiðslu og skákuðu Bandaríkjamönnum, 1973 risu Arabaríkin gegn arðráni Kana á olíuauðlindunum, Keisarinn í Íran féll og þegar litið er á myndir af bílaröðunum við bensínstöðvunum í Ameríku í kjölfarið, sést á stærð kagganna meginástæða þess að skortur og atvinnuleysi hrjáðu Kana á þeim árum.

Trump er það gamall, að hann man tímana fyrir 1968 og ætlar sé að galdra þá fram með því að kúvenda utanríkisstefnu, sem hefur í meginatriðum ríkt í 75 ár.

Eina vonin er sú, að nú hafi Trump náð eins langt og skefjalaus sjálfsupphafning hans og fíkn í peninga og völd getur skilað honum og muni nú njóta þessarar upphefðar og slaka á.

Hann talaði í ræðunni í morgun um "2, 3 eða jafnvel 8 ár" framundan, en það var erfitt að vita nákvæmlega hvað hann átti við.  

 


mbl.is Neyðarfundur í Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær ræður sem segja mikið.

Það var sögulegt augnablik að hlusta nú rétt áðan á sigurræðu Donalds Trump í beinni útsendingu og rifja upp aðra ræðu sem hann hélt fyrr í haust, sem var með talsvert öðrum blæ.

Það var sameiginlegt báðum þessum ræðum, að Trump er afar öflugur ræðumaður, á auðvelt með að flytja langt mál blaðalaust og laginn við að segja eitthvað og jafnvel margt í hverri ræðu, sem vekur athygli áheyrenda, fjölmiðla og þar með almennings.

Ræðan í haust var 35 mínútna löng og þegar hún og annað, sem hann hefur gert í kosningabaráttunni er krufið til mergjar sést, að allan tímann í kosningabaráttunni, sem skilaði honum yfir allar hindranir í Repúblikanaflokknum, og að lokum yfir í Hvíta húsið, nýtti hann sér nýungagirni fjölmiðlanna og almennings gagnvart "ferskum blæ" til þess að viðhalda mestri athygli allra frambjóðenda frá byrjun með því að nota það sama og Hillary Clinton hefur raunar gert á sinn hátt í áratugi, að tilgangurinn helgi meðalið.

Langur ferill Hillary hefur borið þess merki, að hún hefur haft hugsjón til að berjast fyrir með kjafti og klóm og nota til þess öll tiltæk ráð að komast í aðstöðu til að framkvæma ætlunarverk sitt.

Á endanum má má sjá, að Trump gerði það, sem Bandaríkjamenn orða oft svona:  "To beat her at her own game" eða eins og Íslendingar hafa oft orðað það: Að fella hana á eigin bragði.  

Þegar litið er til baka yfir feril Trumps á þessu ári sést, að allt sem hann gerði miðaði að því að halda sigurræðu, sem var í nýjum og gerólíkum tóni samanborið við ræðurnar í kosningabaráttunni, eins og heyra mátti áðan og lesa í endursögnum fjölmiðla.

Það var ekki að sjá nein þreytumerki á Trump þrátt fyrir einhvern svakalegasta endasprett í sögu kosningabaráttu vestra, að koma fram í fimm ríkjum á sama tíma og Hillary kom fram í tveimur.

Þetta eitt, 5:2, var sálfræðilega sterkt og útsmogið eins og svo margt annað, sem Trump hefur gert. Þessum algera nýgræðingi í stjórnmálum og stuðningsmönnum hans tókst að bera sigurorð af einhverri bestu "kosningavél" síðari tíma. 

Nú er bara að vona að hann standi við stóru orðin og loforðin í sigurræðunni um að græða sár, sameina Bandaríkjamenn með virðingu fyrir öllum þjóðfélagshópum og að Hillary Clinton eigi virðingu skilið.

Því miður var aðferðin, sem hann beitti til þess að verða fremstur í því að ná athyglinni frá upphafi, ekki viðkunnanleg svo ekki sé meira sagt, og það hefði verið æskilegra að fara ekki niður hið lága plan leðjuslagsins til þess. Hætt er við að mörgum finnist bæði auður hans og einstæður sigur hans í kosningum illa fenginn. 

Að það sýni ekki heilsteypta og traustvekjandi persónu að rótast fyrst eins og naut í flagi á oft ósvífinn hátt og setja allt á annan endann, en snúa síðan við blaðinu á punktinum og segjast allt í einu vera allra.

En þarna reyndist hann einfaldlega snjallastur allra á því plani, sem bandarísk stjórnmál eru oft, því miður.

Mesta áhyggjuefnið er að afneitunarstefna hans gagnvart langstærsta viðfangsefni jarðarbúa á þessari öld, umhverfismálunum og rányrkju á auðlindum jarðar, virðist grunnmúruð hjá honum.

Hann stendur líka í þeirri trú að hann sé ósigrandi, þrátt fyrir öll gjaldþrotin og tap í málaferlum, og hefur ævinlega afneitað því sem allir sáu, og sagst hafa sigrað.

Þetta getur verið varasamur persónuleikabrestur hjá manni, sem verður með kjarnorkuherafla Bandaríkjanna í hendi sér.

Hvað er það, hann er ólíkindatól í nýrri stöðu, hefur verið til alls vís fram að þessu með yfirlýsingum gegn nágrannaþjóðum, NATO þjóðum, múslimum o. s. frv. og við skulum sjá hvað setur.

Mikið veltur á því að hann kunni að velja sér heppilega og færa samstarfsmenn. 


mbl.is Donald Trump kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórtíðindi, hvernig sem fer.

Nú er ljóst, að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 sæta meiri tíðindum en nokkrar aðrar forsetakosningar síðustu áratuga.

Því að jafnvel þótt Hillary Clinton merji sigur, á þrumusókn Donalds Trump inn á þröskuld Hvíta hússins sér enga hliðstæðu í að minnsta kosti heila öld í bandarískum stjórnmálum.

Eins og oft áður í veraldarsögunni stendur fólk víða um heim og horfir hvert á annað og spyr: Hvernig gat þetta gerst?  Hver í ósköpunum er ástæðan fyrir því að svona getur gerst? 

Í leitinni að svarinu hlýtur greining á vanda bandarísks samfélags að vera óhjákvæmileg. 

Þar má strax sjá að margar veilur, sem sumar virðast ekki svo alvarlegar, leggjast á eitt. 

Lítil þátttaka í kosningum. 

Ágallar kjörmannafyrirkomulagsins sem býður heim hættunni á því að manneskja verði forseti með færri atkvæði en sá, sem fær næstflest, og veldur því að einstök kjördæmi eru tekin fram yfir önnur í kosningabaráttunni. 

Hið háskalega og stundum banvæna faðmlag peninga og stjórnmála, stærsta orsökin.  

Þetta birtist meira að segja hjá fjölmiðlunum, sem féllu frá upphafi fyrir eftirsókn eftir áhorfi á uppsláttarfréttir af hinu dæmalausa framboði Trumps, - áhorfi sem fæddi af sér auglýsingagróða, sem er aðall bandarísks sjónvarpsstöðva en getur jafnframt stjórnað þeim og almenningi.  Því glannalegri, ruddalegri og óvenjulegri sem framkoma Trumps var, því meiri fréttir fluttu fjölmiðlarnir af honum og greiddu með því leið hans í gegnumm fylkingar repúblikana og nú kjósenda í Bandaríkjunum. 

Viðvarandi spilling hjá þingmönnum og embættismönnum, þar sem meirihluti vinnutíma þeirra fer í að sinna lobby-istum, þrýstihópum og peninga- og valdaöflum sem nota peninga og aðstöðu til að koma vilja sínum fram. 

Dýpkandi gjá á milli hvítra annars vegar og svartra og fólks af rómönskum uppruna hins vegar. Um miðja þessa öld verða svartir og rómanskir samanlagt orðniri að meirihluta í Bandaríkjunum. 

Fleira mætti nefna sem bæta má við þegar safnað er saman því sem hefur hlaðið upp bálköst hrollvekjandi niðurstöðu. 


mbl.is Trump verður væntanlega forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til 1955?

Þegar ég dvaldi sem 14 ára unglingur í sex vikur í Kaupmannahöfn sumarið 1955 þurfti ekki að spyrja að því hvert var vinsælasta farartækið í borginni. 

Ég sendi foreldrum mínum póstkort þar sem hafsjó reiðhjóla mátti sjá við Ráðhústorgið, austast á Vesturbrúgötu og harmaði það síðar að hafa ekki varðveitt þetta póstkort.

Nú má sjá af fréttum, að reiðhjólin eru á ný að sigla fram úr bílunum í Kaupmannahöfn. 

Á þessum árum fyrir hálfri öld eða meira fóru margir íslenskir unglingar í þremur þrepum upp samgöngustigann; voru á reiðhjólum til 15 ára aldurs, síðan á næsta þrepi á vélhjólum (skellinöðrum) þangað til þeir gátu keypt fyrsta bílinn og farið upp á þriðja þrepið.

Ég hljóp yfir mótorhjólaþrepið og fór af reiðhjóli 19 ára beint yfir á bílaþrepið þegar ég keypti mér minnsta, ódýrasta, einfaldasta, sparneytnasta bílinn sem völ var á, NSU-Prinz 30.

Síðan í fyrra hef ég hins vegar farið til baka niður á hjólaþrepið og eftir að hjólin urðu tvö, rafreiðhjól og létt bensínknúið vespuhjól, ferðast ég nær eingöngu innanbæjar og á þjóðvegum á hjólunum Náttfara (Dyun-rafreiðhjól) og Létti (Honda PCX vespuhjól, "scooter").

Á síðustu þremur mánuðum hef ég ekið vespuhjólinu hátt á þriðja þúsund kílómetra út um allt land, þar með talið allan hringveginn, nema að ég hef ekki farið vestur á firði þótt ég hafi í einni ferðinni farið vestur í Gilsfjörð. 

 Þetta hefur haft mikinn sparnað í för með sér því að það er jafn fljótlegt að aka vespuhjóli af þessari stærð (125cc) og að aka á ódýrasta bíl, - innanbæjar er hjólið fljótara, - en kostnaðurinn við rekstur hjólsins er aðeins þriðjungur eða jafnvel aðeins fjórðungur af rekstrarkostnaður ódýrasta bíls, - eldsneytiskostnaðurinn aðeins þriðjungur innanbæjar og hjólið kostar aðeins fjórðung af verði ódýrasta bíls.

Auk þess stefni ég að því að minnka samanlagðan útblástur af farartækjum mínum um 70%.

Við þetta bætist, að þessi ferðamáti er alveg einstaklega skemmtilegur og gefandi og með tilliti til þróunar persónulegra samgöngutækja hjá mörgum hér um árið má segja að ég sé að vinna upp glötuð unglingsár.

Þegar þessi hjólatími hófst hafði ég í 55 ár byggt upp múr af ýmsum fordómum gegn notkun hjóla, sem hrundi þegar á reyndi.

Enda uppgötvaði ég að á reiðhjólatímabilinu frá 10-19 ára hafði ég verið á ferð á reiðhjóli í nær öllum veðrum allt árið og nú er það aftur orðið þannig.

 


mbl.is Hjólin taka fram úr bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Trump aðalþátttakandinn í "svindlinu" sem hann geymir í erminni?

Ég tók eftir aðstæðunum, sem Donald Trump var boðið upp á við að kjósa í mynd í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ef íslenskir hæstaréttardómarar hafa séð þetta í sjónvarpinu má búast við að þeir hefðu fengið áfall.Trump að kjósa

Á þessari mynd, sem er tekin út úr sjónvarpsfréttamynd vestra sést, að klefarnir eru miklu lægri en klefarnir voru í stjórnlagaþingkosningunum hér heima 2010, sem Hæstiréttur ógilti á þeim forsendum að hægt væri að kíkja og sjá, hvað menn voru að kjósa. 

Hér voru skilrúmin meira en mannhæð, en jafnvel þótt Trump beygi sig, sendur hann vel upp úr klefanum! 

Klefinn er opinn að aftanverðu og þar stendur maður!! 

Á íslenska kjörseðlinum þurftu menn að velja milli 512 frambjóðenda og setja langar talnarunur á seðilinn, þannig að í raun var engin leið að sjá hvað ritað var í heild á seðilinn, hvað þá að muna það. 

Bandaríkjamenn eru því líklega heppnir að íslenskir hæstaréttardómarar skuli ekki geta skipt sér af kosningunum vestra, því bandarískir hæstaréttardómarar virðast ekki sjá neitt athugavert við þetta. 

Af frásögn Íslendinga, sem fóru til að kynna sér kosningar í Sviss sumarið 2011, mátti ráða að íslensku hæstaréttardómararnir hefðu líka fengið margfalt áfall þar. 

Nú þurfa íslenskir tilbiðjendur Trumps að drífa sig í því að fá íslensku hæstaréttardómarana til að hringja í starfsbræður sína í Hæstarétti Bandaríkjanna, senda þeim þessa mynd og fá þá til að vera tilbúna til að ógilda kosningarnar ef Trump tapar. 

Það yrði glæsileg ógilding, því að aðalþátttakandinn í "svindlinu" yrði Trump sjálfur! 

Hver veit, nema þetta sé atriðið, sem gæti varpað ljósi á, af hverju hann var svona viss um það fyrirfram að geta bent á "svindl" ef hann tapaði? 


mbl.is Teikn um sigur Trumps í N-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband