Er og verður alltaf einhver lína.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Elsti varðveitti texti við lag, sem til er eftir mig (að vísu bara í hausnum hjá mér), svonefnt Kamarrapp frá sumrinu 1953, var óhæft til flutnings á þeirri tíð, en þætti ekkert sérstakt álitamál nú.

En það verða samt alltaf takmörk fyrir því hví hve langt er hægt að ganga, jafnvel þótt svo virðist sem strikið, sem ekki telst rétt að fara yfir, þokkist alltaf í sömu átt.

Dæmi um að línan hafi loksins verið lögð varðandi bókmenntir, var Hæstaréttardómur varðandi ævisögu eina, sem kom út á níunda áratugnum.

Á undan þessum dómi höfðu þolmörkin varðandi glannalegt efni í bókum sífellt verið að færast til í átt þess að meira væri leyfilegt en fyrr.

Niðurstaða dómsins var, að þarna hefði verið farið yfir strikið, og það var dýrt spaug fyrir útgefandann og höfundinn.

Vegna þess að ég var með bók á þeirri jólabókavertíð, fylgdumst við útgefandi minn vel með þessu máli, og frétti ég, að bókaútgefendur hefðu ekki orðið neitt sérstaklega svekktir almennt, því að eftir þetta gátu þeir séð, hvar línan lægi og hagað sér í samræmi við það.  


mbl.is Sjálfsagt hjá Ágústu að ganga út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslan erlendis styður þetta.

Þegar aðsóknartölur í þeim 30 þjóðgörðum í sjö löndum í Evrópu og Norður-Ameríku, sem ég hef komið í, eru bornar saman við sams konar tölur á Íslandi, sést, að ef við lærum af reynslunni erlendis, erum  við enn vel innan þeirra marka, sem setja verður til þess að verja íslenskar náttúrugersemar.

Þetta, að læra af reynslu annarra þjóða, er aðalatriðið, reynslu sem spannar alla síðustu öld.

Á slíkt skortir hins vegar stórlega. Við erum áratugum á eftir, því miður.   


mbl.is Hvergi nærri hámarki ferðamannafjölda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru hægri en ekki grænir. Rjúka upp í 48% fylgi?

Nútíma umhverfis- og náttúruverndarstefna fylgir ekki endilega vinstri-hægri línum, því að fjölmargir hægri menn aðhyllast græn gildi, ekkert síður en vinstri menn.

Í skoðanakönnun í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar kom í ljós að þriðjungur þeirra sem kváðust ætla að kjósa Vinstri græna voru fylgjandi þessum mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hægt var að framkvæma á Íslandi, en helmingur þeirra sem kváðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn voru á móti virkjuninni, eða fleiri að höfðatölu en þeir vinstri-grænu, sem voru andvígir virkjuninni.

Á íslenskan mælikvarða teldist Al Gore hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn.

Það þurfti ekki að lesa sér lengi til um stefnu "Hægri grænna" til að sjá að það var holur hljómur í því sem þeir kölluðu "græna stefnu."

Hún var máluð með svo lélegum vatnslitum, að lítill vandi var fyrir þá að þvo hana í burtu.

Nú hafa þeir lagt sig niður og ætla að ganga til liðs við Íslensku þjóðfylkinguna, sem að vísu er með nokkur einstök athyglisverð málefni á dagskrá, en eru í öllum aðalatriðum sams konar þjóðernissinnaður flokkur yst til hægri, og við sjáum í ýmsum Evrópulöndum.

Hægri grænir segjast renna ljúflega, allir sem einn inn í Íslensku þjóðfylkinguna, og er enginn efi á að þeir fara létt með það, - síðari hluti nafns þeirra "...grænir" var augljóslega yfirskin en hægri liturinn grunnmúraður.

Og nú er í gangi enn ein þessara skoðanakannana, sem fjölmiðlar eru sokknir í, aðferð sem er fjarri því að vera boðleg, og felst í frumkvæði lesenda eða hlustenda við að svara opnum og leiðandi spurningum viðkomandi fjölmiðils.

DV spyr: Gætirðu hugsað þér að kjósa Íslensku þjóðfylkinguna, og staðan núna, þegar þessi pistill er endurskrifaður, er:

"Já", segja 48%!

Hó, hó! Píratar eru með 35% og þá fá allir hinir flokkarnir samtals 16%, eða rúmlega 3% hver!

Sennilega er það sama fólkið sem gæti hugsað sér að kjósa Íslensku þjóðfylkinguna og gaf Framsóknarflokknum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í skoðanakönnun á Útvarpi Sögu!

Ekki það, að viðbrögðin við stofnun þessa flokks eru umhugsunarverð.  

En spurningin: "Geturðu hugsað þér að velja þetta eða hitt?" gefur miklu hærri prósentutölu en ef sá sem spurður er, er beðin að velja eitt framboð á lista yfir þau öll, að ekki sé nú talað um að þeir sem spurðir væru, eru valdir í slembivali úr þjóðskrá í sömu hlutföllum hvað snertir aldur, búsetu og kyn og er í landinu.

Næsta skref í þessum samkvæmisleik fjölmiðla gæti verið að fjölmiðill færi að spá í sölu á nýjum bílum á árinu 2016 og spyrði til dæmis:

"Ef þú ættir kost á að eignast nýjan bíl í happdrætti, getur þú hugsað þér að það yrði Opel?"

Niðurstaðan gæti orðið sú að á árinu 2016 fengi Opel 80% í sinn hlut í nýskráningu bíla.


mbl.is Hægri grænir heyra sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband